Stefán leynir stjórn RÚV upplýsingum um Þóru

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri leyndi stjórn RÚV að hann hefði átt í samskiptum við lögreglu í byrjun janúar á þessu ári um málefni Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks. 

Stefán fékk upplýsingabeiðni frá lögreglu 4. janúar um símanúmerið 680 2140. Stefán svaraði með tölvupósti 11. janúar. Hann hafði fengið aðstoð lögfræðings og komist að þeirri niðurstöðu að upplýsingar yrðu ekki veittar. Niðurlag tölvupósts útvarpsstjóra er eftirfarandi: ,,Þegar af þessum ástæðum er ekki unnt að fallast á upplýsingabeiðnina, enda uppfyllir hún að okkar mati ekki lagaskilyrði."

Daginn eftir hafði Stefáni snúist hugur. Í tölvupósti 12. janúar sagði hann símann notaðan af Kveik og að Þóra Arnórsdóttir gæfi upplýsingar ,,munnlega" um notkun símans. Stefán nánast sendir Þóru til yfirheyrslu lögreglu með þessu orðalagi.

Næsti stjórnarfundur RÚV eftir þessi samskipti var 25. janúar. Á stjórnarfundum leggur útvarpsstjóri fram minnisblað og fer yfir helstu viðfangsefni stofnunarinnar frá síðasta fundi. Fundir eru að jafnaði mánaðarlega. Þann 25. janúar sagði hann m.a. frá dómsmálum sem RÚV á aðild að en ekki orð um að starfsmaður RÚV sé undir lögreglurannsókn. Ekkert er sagt um upplýsingabeiðni lögreglu.

Stefáni ber skylda til að upplýsa stjórn RÚV um formleg samskipti við aðrar ríkisstofnanir. Án þessara upplýsinga getur stjórn RÚV ekki sinnt lögboðnu eftirlitshlutverki sínu.

Stefán losaði sig við Þóru í byrjun febrúar. Snubbótt fréttatilkynning var gefin út 6. febrúar. Þóra hafði verið 25 ár á stofnunni og ritstjóri Kveiks frá upphafi. Ef allt væri með felldu hefðu tímamótin verið nýtt til að fara yfir afrekaskrá Þóru og Kveiks.

Á næsta fundi stjórnar RÚV, þann 22. febrúar, leggur Stefán fram minnisblað, samkvæmt venju. Ekki orð um Þóru. En útvarpsstjóri tekur fram að Þröstur Helgason hætti sem dagskrárstjóri Rásar 1 komandi mánaðarmót. Í starfsaldri er Þröstur ekki hálfdrættingur Þóru. Starfsmannamál millistjórnenda eru sem sagt á dagskrá, en ekki þegar Þóra á í hlut.

RÚV er opinber stofnun. Stefán á að upplýsa stjórnina um mikilsverð málefni. Að millistjórnandi sé undir lögreglurannsókn og að upplýsingabeiðni frá lögreglur leiði til þess að stjórnandinn láti af störfum fyrirvaralaust er mikilsvert málefni.

Stefán sinnir ekki skyldum sínum sem útvarpsstjóri með feluleik og blekkingum um samskipti RÚV og réttvísinnar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband