Föstudagur, 29. október 2021
Skólameistara þakkað
Ekki eru allir kennarar svo lánsamir að eiga skólameistara fyrir yfirmann sem sendir nemendum og foreldrum eftirfarandi umsögn:
Nú hefur Páll kennt hér á annan áratug og sinnt störfum sínum af kostgæfni og veitt nemendum sem eiga í erfiðleikum svigrúm og sanngirni.
Tilfallandi höfundur, Páll Vilhjálmsson, á þarna í hlut. Ber að þakka skólameistara hlýleg orð - tölvupósturinn í heild sinni fylgir hér að neðan.
Eins og tilfallandi lesendur vita var tilefni tölvupósts skólameistara að setið var um hann vegna bloggfærslu þar sem játning Helga Seljan var sett í annað samhengi en RÚV vildi. Tilgangur Helga og RÚV var að afla sér samúðar vegna Samherjabáginda. Tilfallandi athugasemd spillti fyrir. Frá Efstaleiti heyrðist: það er ræs á tilfallandi æru.
Skólameistari skildi bloggfærsluna á þann veg að gagnrýnin á Helga og RÚV beindist einnig að þeim sem stríða við andlega vanheilsu. ,,Af því má væntanlega draga þá ályktun að fólk sem glími við slíka sjúkdóma hafi lítið erindi í opinbera umræðu," skrifar meistari í tölvupóstinum.
Tilfallandi höfundur andmælir þessari túlkun á tveim fundum með skólameistara. Ráðandi frásögn á fjölmiðlum og samfélagsmiðlum var í sama anda og hjá meistara. Þegar hátt glymur er ekki einfalt að heyra.
Áleitinn texta um hitamál má leggja út á fleiri en einn veg. Þeir sem vilja skilja hvað höfundur er að fara lesa sér nánar til, sjá hér og hér. En múgurinn vildi ekki skilja heldur heimtaði hann höfuð Páls Vilhjálmssonar atvinnulaust á silfurfati.
Góðu heilli er skólameistari með þá prinsippafstöðu að málfrelsi sé hornsteinn lýðræðis og hafnaði kröfunni um að svipta tilfallandi höfund starfinu. Fyrir það ber að þakka, bæði gera það einstaklingurinn Páll og þjóðfélagsþegninn. Ef múgurinn hefði haft sitt fram væri örlítið verra að búa á Íslandi en áður.
Múgræði er versta sort stjórnarfars. Það vita bæði sagnfræðingar og stjórnmálafræðingar.
Tölvupóstur skólameistara:
Kæru nemendur og aðstandendur
Það hefur eflaust ekki farið framhjá mörgum að talsverður styr hefur staðið um skrif Páls Vilhjálmssonar, sögukennara við skólann okkar, um Helga Seljan blaðamann RÚV. Mér hefur borist mikill fjöldi tölvupósta og símtala vegna þessa skrifa. Til að allrar sanngirni sé gætt þá hef ég fengið nokkra pósta og símtöl þar sem áhersla er lögð á rétt Páls til að tjá sig í ræðu og riti en talsverður meirihluti þeirra sem hefur haft samband er mjög gagnrýninn á skrif Páls og er í mörgum tilfellum þess krafist að ég grípi til aðgerða vegna þeirra.
Nú er tjáningarfrelsi mjög mikilvægt og algjör hornsteinn lýðræðislegrar umræðu að þegnar landsins geti tjáð sig án þess að þurfa að hafa áhyggjur af atvinnu sinni í kjölfarið. Þetta er þó ekki án takmarkanna. Sum ummæli er þess eðlis að þau leiða til dómsmála og jafnvel atvinnumissis. Engu að síður er mér ekki kunnugt um að opinber starfsmaður hafi þurft að láta af starfi vegna ummæla sinna um samfélagsmál og það staðist fyrir dómi.
Nú er ég enginn lögfræðingur en hef leitað mér aðstoðar á því sviði. Eftir það samtal er það niðurstaða mín að hrófla ekki við stöðu Páls hér við skólann vegna þessara skrifa um Helga Seljan. Sú niðurstaða byggir ekki síst á því að þessi ummæli eiga sér stað úti í bæ en ekki inni í skólastofunni.
En lífið snýst ekki bara um hvað er lögfræðilega rétt og rangt. Ég get ekki látið þess skrif framhjá mér fara án þess að setja fram athugasemdir. Ég skil skrif Páls þannig að störf Helga Seljan í fjölmiðlum séu ómarktæk vegna þess að hann glími við geðsjúkdóm. Af því má væntanlega draga þá ályktun að fólk sem glími við slíka sjúkdóma hafi lítið erindi í opinbera umræðu. Þessu er ég alfarið ósammála og tel þessi ummæli afar óheppileg fyrir framhaldsskólakennara og hef gert Páli grein fyrir þessari afstöðu minni.
Nú hefur Páll kennt hér á annan áratug og sinnt störfum sínum af kostgæfni og veitt nemendum sem eiga í erfiðleikum svigrúm og sanngirni. Því er ég undrandi og afar ósáttur við að hann sendi þeim sem glíma við geðsjúkdóma þessi skilaboð.
Í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ er fjölbreyttur hópur nemenda. Þannig viljum við hafa það. Okkur ber að sýna nemendum okkar virðingu og styðja á leiðinni til frekari þroska. Það er og hefur verið stefna skólans og annað verður ekki liðið.
Virðingarfyllst,
Kristinn Þorsteinsson skólameistari
Athugasemdir
Kristinn skólameistari bregst við og af víðsýni og djörfung.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 29.10.2021 kl. 20:13
Sammála Heimir um leið og ég nem ósjálfrátt dapurt hvísl "er Ísland að vakna" með löngun að taka þáttí því.
Helga Kristjánsdóttir, 30.10.2021 kl. 01:16
Það er gæfa garðbæskra ungmenna að fá þessa kennslustund í grunnréttindum lýðræðisins. Voltaire hefði ekki getað sagt þetta betur.
Ragnhildur Kolka, 30.10.2021 kl. 07:17
Óskandi að fl Skolameistarar letu til sin taka á notum tjaningar og lyðræðis ,,,skiptir öllu máli fyrir alla i dag ...
rhansen, 31.10.2021 kl. 23:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.