Kappar, dramb og dauði

Í Svínfellingasögu segir frá bræðrunum Sæmundi og Guðmundi. Þeir voru synir goðorðsmanns, ungir að árum í upphafi sögu. Guðmundur var í fóstri hjá Ögmundi Helgasyni stórbónda og klausturhaldara í Síðu á Kirkjubæ, en Ögmundur var kvæntur föðursystir þeirra bræðra.

Sæmundur er sagður ,,ofsamaður mikill og óeirinn." Hann vex úr grasi og vill láta til sín taka. Sæmundur fékk bróður sinn Guðmund í lið með sér að troða illsakir við Ögmund fóstra sem var óáleitinn, auðugur og vinsæll. Bræðurnir náðu dómi á Ögmund á alþingi og hirtu af honum búsmala og heiður.

Ögmundur beið færis til hefnda. Eftir lát eiginkonunnar, föðursystur bræðranna, gerði hann þeim fyrirsát og handsamaði. Ögmundur lét fyrst höggva Sæmund, fáum harmadauði. Þegar kom að Guðmundi, sem var aðeins 18 ára og flestum hugþekkur, sagði unglingurinn: ,,Gott væri enn að lifa og vildi ég grið fóstri." 

Ögmundur brá litum, sagðist ekki þora lífgjöf. Á Guðmundi hvíldi hefndarskylda eftir bróðurinn. Ögmundi var nauðugur kostur að deyða fósturson sinn vildi hann sjálfur halda lífi. Ögmundur missti veraldlegar eigur sínar í eftirmálum og bjó kotbúskap síðustu ævidagana, en endurreistan heiður.  

Í Ódysseifskviðu segir frá örlögum annars manns ofsa og ójafnaðar. Í 11ta þætti heimsækir Ódysseifur Hadesarheim og finnur þar fyrir kappann Akkilles, sá er drap Hektor í umsátrinu um Trójuborg. Í bálför Patróklesar, ástvinar Akkillesar, var tólf tróverskum unglingspiltum fórnað til að heiðra minningu hetjunnar. Ódysseifur spyr Hektorsbana um tilveruna í helheimum. Svar Akkillesar er að hann vildi heldur vera aumasti þræll harðúðugs húsbónda í mannheimum en konungur í dauðaheimi.

Lífið er stutt, dramb bætir það ekki - en styttir oft.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Sagan af Svínfellingunum og konu Ögmundar sem sér harmleikinn fyrir er átakanleg og sýnir hversu hefndir og heiður eru einskis virði þegar hægt væri að breyta öðruvísi.Manni finnst að hægt hefði verið að sjattla málin einhvernveginn öðruvísi.

Halldór Jónsson, 25.7.2018 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband