Trump og ættarsamfélagið

Donald Trump lagði Evrópu og Bretland að fótum sér, eða fótumtróð hvort tveggja, fer eftir sjónarhorni. Bandaríkjaforseti er afurð vinstrimenningar frá hippatímanum, skrifar Guardian:

afstæðishyggja vex upp úr menningarstríðinu á sjötta áratugnum. Nýja vinstrið tók afstæðishyggjuna upp á sína arma til að afhjúpa vestræna fordóma karllægrar borgarastéttar. Einnig af háskólafólki sem boðaði póstmódernisma er hélt því fram að almenn sannindi væru ekki til, aðeins sértæk sannindi sem voru menningarlega og félagslega skilgreind. Lýðhyggjumenn til hægri rændu afstæðishyggjunni og gerðu að sinni.

Og afleiðingin varð Trump, samkvæmt þessari greiningu, sem er vel að merkja ekki ný af nálinni.

Ofanritað er engilsaxneskt sjónarhorn á Trump. Í þýskum menningarheimi eru blæbrigðin önnur. Der Spiegel segir:

Óvinur er orð gamla heimsins. Í stríðum eru óvinir, í kalda stríðinu var óvinátta milli austurs og vesturs. Innan vesturhlutans var slík tilfinning óhugsandi. Þar ríkti vinátta í öllum deilumálum. Trump er maður gamla heimsins og því miður er hann oft heltekinn af forneskjulegum tilfinningum. Heift, hatur og andúð; allt verður honum spurning um heiður. Í nýja heiminum gerir Trump allt öfugt. Hann fer með fjandskap gegn vinum, einkum Þýskalandi. Í hermálum, viðskiptum, Íran-samkomulaginu og gasviðskiptum við Rússland treður Trump illsakir við Þýskaland, einkum með gemsanum.

Mat Þjóðverja á Trump helgast af þýskum hagsmunum, eðlilega. Allt frá lokum nasisma eru Bandaríkin lýðræðisleg kjölfesta Þýskalands. Þýskir sakna vinar og viðskiptafélaga.

Sameiginlegt þýskri og engilsaxneskri greiningu á Trump er að með honum verður pólitík persónuleg. Minn heiður, mínar staðreyndir, mitt sjónarhorn. 

Rómverjar kynntu til sögunnar ,,res publica", vettvang almennings, þar sem meginreglur giltu en ekki persónulegur geðþótti. Áður en ,,res publica" fékk vægi í vestrænni stjórnmálamenningu réð ferðinni hugmyndakerfi ættarsamfélagsins.

Í ættarsamfélaginu er heiður einstaklings og fjölskyldu í fyrirrúmi. Íslendingasögurnar geyma minni frá þessum tíma um stolt, sóma og blóðhefndir. Ílíonskviða Hómers er um reiði Akkillesar eftir móðgun Agamemnons.

Trump er endurkoma stjórnmála ættarsamfélagsins. Við skyldum velja ætt okkar af kostgæfni.

 


mbl.is Heimsókn Trump er lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Já sá hefur stækkað í embætti þótt ekki væri nema vegna skilgreininga evrópudagblaða hverra menningakerfa hann standi fyrir. Trump hafði á orði að Englendingum líkaði vel við sig þrátt fyrir nokkur mótmæli, þannig verkuðu áhrifin að vera staddur í gömlu ættarsamfélagi; Svo minnug sagna Sabatíni!

Helga Kristjánsdóttir, 14.7.2018 kl. 16:04

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Skotar virðast afneita Trump - þó er hann hálfur skoti!  Ekkert er á ættarsamfélagið að treysta...

Kolbrún Hilmars, 14.7.2018 kl. 16:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband