Bandaríkin yfirgefa Evrópu

Síðasti fundur Obama Bandaríkjaforseta og starfsfélaga hans í Rússlandi, Pútín, fór í að hvetja til samninga um Úkraínu. Bandaríkin og Evrópusambandið styðja ríkisstjórnina í Kiev en Rússar uppreisnarmenn í austurhluta landsins.

Obama er forseti á útleið, í janúar tekur Donald Trump við. Nýr hæstráðandi í Washington vill hverfa frá stöðutöku Bandaríkjanna í Austur-Evrópu. Baráttan stendur um hvort Úkraína verði ESB-ríki með Nató-aðild en Rússar segja það ógna öryggishagsmunum sínum. Minsk-samkomulagið í deilunni gerir ráð fyrir að Úkraínu verði skipt upp í sjálfsstjórnarsvæði, sem gefur Rússum færi á að stjórna í reynd austurhluta landsins.

Sérfræðingar í alþjóðamálum, t.d. Robert Kagan, spá einangrunarstefnu Bandaríkjanna í kjölfar sigurs Trump. Í Austur-Evrópu er talað um að Pútín verði vinsælli sökum þess að fjarvera Bandaríkjanna geri Rússland sterkt en Evrópusambandið veikt. Smáríkin við Eystrasalt munu í auknum mæli komast undir rússnesk áhrif.

Evrópusambandið tapar áhrifum sínum í Austur-Evrópu. Efnahagslegur máttur ESB kemur fyrir lítið þegar hernaðarstyrkur Nató er ekki lengur bakhjarl. Bandaríkin greiða 70 prósent af kostnaði Nató og Trump mun skera þau framlög niður.

Angela Merkel kanslari Þýskalands mun eiga fullt í fangi með að tryggja þýska hagsmuni í Mið-Evrópu. Eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og einangrunarstefnu Bandaríkjanna er kristaltært að ESB er ekki lengur aflið sem mótar framtíð Evrópu. Öxullinn Berlín-Moskva mun gera það.


mbl.is Vill verja lýðræðisleg gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Með því að skera niður í óhóflegum útgjöldum spillingarmála innan ESB, útgjöld sem endurskoðendur hafa ekki treyst sér til að skrifa uppá í mörg, mörg ár, gæti ESB aukið framlag sitt til NATO og aukið varnarviðbrögð sín. En það þýðir auðvitað það að menn og konur sem hafa haft aðgang að fjármunum ESB sér og sínum til framdráttar verða að sitja á honum stóra sínum og vera hógvær og þiggja einvörðungu þau laun sem þeim er ætlað frá launadeild ESB.

Tómas Ibsen Halldórsson, 21.11.2016 kl. 12:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband