Læk-stjórnmál vinstrimanna og Vigdís Hauksdóttir

Á fésbókinni er atkvæðagreiðslutakki, kallaður ,,læk" upp á ísl-ensku, þar sem fólk getur gefið einhverjum skilaboðum meðmæli. Oft eru það fréttir eða blogg sem sett eru á fésbókarsíðu og safna lækum.

Með fésbók og bloggi má á skömmum tíma efna til stjórnmálaáhlaups í rafheimum. Vinstrimenn eru þar sérfræðingar. Á síðustu tveim dögum höfum við orðið vitni af því hvernig stjórnmál af þessu tagi ganga fyrir sig.

Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins er skeleggur andstæðingur aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Hún sagði í fréttaviðtali á þriðjudag að IPA-styrkir svokölluðu væru glópagull. Einn af helstu bloggurum vinstrimanna, Björn Valur Gíslason varaformaður VG, þóttist sjá möguleika á læk-áhlaupi og laug upp á Vigdísi að hún hafi sakað forstöðumenn ríkisstofnana um landráð.

Minni spámenn meðal bloggara vinstrimanna fylgdu í kjölfarið og hnýttu ónotum í Vigdísi. Lækunum fjölgaði en það vantaði aðeins meiri hasar. Fréttastofa RÚV, sem er bæði vinstrisinnuð og ESB-sinnuð, hannaði í gær frétt þar sem Vigdísi voru lögð orð í munn.

RÚV sagði í fréttum að Vigdís hafi talað um ,,illa fengið glópagull" og hjó þar í sama knérunn og Björn Valur. Nú fóru vinstrimenn í yfirgír að safna lækum. Vinstribloggarinn Jón Ingi Cæsarson kallaði Vigdísi dóna og fékk mörg læk út á það. 

Vigdís er ekki stjórnmálamaður sem lætur andstæðinga sína eiga neitt inni hjá sér. Hún var mætt í morgun á Bylgjuna að ræða meðferðina sem hún hafði fengið hjá RÚV. Vigdís gagnrýndi RÚV fyrir að vera málssvari ESB-aðildar.

Vigdís ræddi í viðtalinu vítt og breitt um IPA-styrki, misheppnuðu ESB-umsóknina og forgangsröðun í ríkisfjármálum. Viðtalið við Vigdísi er tæpar 12 mínútur. Undir lokin segir Vigdís að RÚV sé ekki undanþegin niðurskurði frekar en aðrar ríkisstofnanir. Og miðað við fjóra milljarða til RÚV á ári sé hægt að gera kröfu um meiri fagmennsku fréttastofan sýndi með því að leggja stjórnmálamanni orð í munn.

Vinstrimenn litu svo á að Vigdís hafi hótað að skera niður framlög til RÚV vegna fréttaflutningsins í gær. Í allan dag hafa vinstrimenn safnað lækum. Formaður VG skrifaði á feisbókina sína og vinstribloggarar leggja út rafskilaboð sem má leggja út á feisbók og læka.

Læk-áhlaupið á Vigdísi fær svo ákveðið hámark þegar hafin er söfnun undirskrifta þar sem skorað er á hana að segja af sér.

Læk-stjórnmál eru því marki brennd að þau byggja ekki á málefnum og styðjast ekki við greiningu. Þau snúast um að skapa augnabliks móðursýki. Læk-stjórnmál eru ein ástæðan fyrir því að í kosningunum í vor fékk Samfylkingin 12,9 prósent fylgi og VG 10,9 prósent.

Vigdís Hauksdóttir getur á hinn bóginn vel við unað. Hún orðin, næst á eftir Davíð Oddssyni, aðalnúmer vinstristjórnmála á Íslandi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Vigdís Hauksdóttir segir að fé frá ESB sé ,,illa fengið fé".

,, En því miður er það þannig að þetta fé kemur frá Evrópusambandinu og að vissu leyti má segja að það sé illa fengið fé..."

http://www.althingi.is/altext/raeda/140/rad20120522T184624.html

Ómar Bjarki Kristjánsson, 14.8.2013 kl. 15:30

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Hverjir vinna fyrir þessum ESB-IPA-styrkjum Ómar? Eru það þeir fátæku og banka/kerfis-rændu, eða þeir sem sitja í fílabeinsturni, og eru tengslalausir við almenna skattborgara?

Hvernig er heiðarlega fengið fé frábrugðið illa fengnu fé?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 14.8.2013 kl. 18:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband