Fréttablaðið blekkir

Fréttablaðið sem gefið er út og ritstýrt er af aðildarsinnum spurði eftirfarandi spurningar í skoðanakönnun: ,,Hvort myndir þú heldur kjósa: 1) Að draga til baka umsókn um aðild að Evrópusambandinu, eða 2) Að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamninginn?"

Út úr þessari könnun kemur fjögurra dálka forsíðufyrirsögn: ,,Tveir af þremur vilja halda ESB-umsóknarferli áfram." 

Fréttablaðið spurði ekki um ,,umsóknarferli" heldur ,,aðildarviðræður" og fyrirsögn er hönnuð til að blekkja.

Blaðið pakkar saman tveim spurningum í eina, um ,,aðildarviðræður" og ,,þjóðaratkvæðagreiðslu" og hækkar þannig hlutfallið sem blaðið leitast við að leiða fram. Með því að spyrja með þeim hætti sem Fréttablaðið gerir færir blaðið þá undir sama hatt sem annars vegar vilja ljúka aðildarviðræðum og hins vegar þá sem halda vilja þjóðaratkvæðagreiðslu. Nánast öruggt er að ,,aðildarviðræðufólkið" og ,,þjóðaratkvæðafólkið" er ekki sami hópurinn. Spurningafræðilega er skoðanakönnun blaðsins hreint bull.

Til að bíta höfuðið af skömminni beitir ritstjórn blaðsins fyrir sér valkvæðri heimsku og þykist ekki vita að Ísland er í aðlögunarferli að Evrópusambandinu.

Spurningin sem Íslendingar standa frammi fyrir er hvort þeir telja hagsmunum sínum betur borgið utan eða innan Evrópusambandsins. Aðildarsinnar eru löngu hættir að ræða málið á þeim forsendum. Viðræðurnar eru orðnar aðalatriðið eins og að í þeim uppljúkist stærri og meiri sannleikur um Evrópusambandið en þegar liggur fyrir í sögu sambandsins, starfi í áratugi og stofnsáttmálum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áróðurspési Jóns Ásgeirs og hans samspilltu félaga er mjög fyrirsjáanlegur.Ræningjalýðurinn hans Jóns Ásgeirs vinna að því fullu að koma þjóð sinni endanlega í rúst,og er ég sannfærður um það að Jón  Ásgeir fjarritstýrir Fréttablaðinu. Allar fréttir í Fréttablaðinu um það að þjóðin sé svona áhugasöm um að komast inní þetta hryðjuverkabandalag sem ESB er ,er barasta haugalýgi.

Númi (IP-tala skráð) 24.1.2011 kl. 13:09

2 identicon

Það er ekki einfalt að gera áreiðanlega könnun. Til þess að könnun sé áreiðanleg þarf hún að vera ein af mörgum. kannanir eru mikið notað og umdeildar. Það er auðvitað ljóst að niðurstöður Fréttablaðsins henta Heimssýn ekki og þess vegna bregst framkvæmdastjórinn svona illa við. Umsóknarferli og aðildarviðræður eru samheiti fyrir flesta, trúi eg. Páll bendir á að þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki notuð í báðum spurningum. það er rétt og ekki hægt að útiloka að orðalagið hafi einhver áhrif. En hver?Ef svarendur hafa ekki fastmótaðar skoðanir en eru hlyntir þjóðaratkvæðagreiðslu, munu þeir þá velja þennan möguleika?Getur orðalag haft svo sterk mótandi áhrif? Til eru fræðimenn sem geta svarað þessu en Páli er auðvitað frjálst að hafa sína skoðun. Ef vel hefði verið hefði Páll getað borið saman misvísandi kannanir sem gerðar hafa verið. Það gerir hann ekki heldur fer með trúartjátninguna um aðlögun í 1000 skipti.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 24.1.2011 kl. 14:46

3 identicon

Vönduð greining hjá Páli.

Sigurður (IP-tala skráð) 24.1.2011 kl. 22:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband