Vinstristjórn án efnahagsstefnu

Ríkisstjórnin á að heita vinstristjórn en þess sjást lítil merki í málaflokki sem einu sinni var fyrirferðamikill, efnahagsmálum. Hvort sem litið er til fjármálakerfisins eða framleiðslunnar er engri pólitískri stefnu fyrri að fara. Stutta skýringin er að Samfylkingin er fyrir löngu gengin fyrir frjálshyggjubjörg og býður aðeins upp á hægristefnu á meðan Vg hefur alls enga efnahagspólitík.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins fjallaði um fíflaganginn sem tröllríður umræðunni um smábreytingu á búvörulögum í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann gagnrýnir samtök verslunar og fleiri sem telja verslunarfrelsi og atvinnufrelsi hætta búin ef ákvæði um hámark umframframleiðslu mjólkur eru virt. Sömu aðilar og nú kvaka um verslunarfrelsi steinþögðu á meðan eitt fyrirtæki lagði undir sig meira en helming allrar matvöruverslunar í landinu.

Jón Bjarnason ráðherra landbúnaðarmála fær á sig ágjöf fyrir skynsamar ráðstafanir en á sér fáar bjargir í umræðunni. Flokkurinn sem hann tilheyrir lagði ekki á sig þá vinnu í stjórnarandstöðum sem réttlætir stjórnarþátttöku - að býr ekki að neinu sem gæti heitið efnahagsstefna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvaða vitleysa er þetta. Ég hélt að þú hefðir fyrir löngu sýnt fram á að efnahagstefna þessarar ríkisstjórnar væri aðild að ESB. Það finnst mér raunar fín stefna, stefnir að stöðugleika, lægri vöxtum, öflugum gjaldmiðli - auk alls konar annars fyrir aumingjana hér á klakanum.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 12:14

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Þú talir í hálfkæringi Ómar og það má. Sumir aðildarsinnar halda fram þessu sjónarmiði, að innganga sé efnahagspólitík, en jafnframt að við afsölum sama og engu valdi til Brussel. Hvernig getur það farið saman að innganga sé altæk efnahagsredding en lítið sem ekkert valdaframsal fari fram?

Páll Vilhjálmsson, 14.8.2010 kl. 12:19

3 identicon

Gættu orða þinna Páll, "stefna" er ekki sama og "redding". Samstarfið við AGS er efnahagsredding, til að forða bráðu ríkisgjaldþroti. Aðildarumsókn að ESB er hins vegar efnahagsstefna því hún horfir til framtíðar. Þú getur verið sammála henni eða ekki, jafnvel talið að betra sé að hringsóla um stefnulaus.

Spurningin um valdaframsal er önnur spurning og vissulega brýn og þarft að ræða hana málefnalega. Þar sem við komum hins vegar ekki frá núllpunkti heldur frá EES samningnum, myndi aðild að ESB hins vegar færa okkur mun meiri áhrif en nú. Í dag eru það bara sérfræðingar sem sendir eru utan sem geta talað máli Íslands og haft áhrif á vinnufundum (þmt undirritaður), skrifstofustjórar og ráðuneytisstjórar mega mæta á fundi en þar mega þeir ekki greiða atkvæði, þeir verða að koma  með sitt álit í einum hatti ásamt Norðmönnum og Licthensteinum þar sem "EFTA talar einum rómi". Ráðherrum er ekki einu sinni boðið að mæta. Aðild bætir því stöðu Íslendinga miðað við EES samninginn.

Þar sem við erum á "núllpunkti", þ.e. í landbúnaði, sjávarútvegi og byggðamálum gildir þetta þó vissulega ekki. Á vogarskál valdaframsals og áhrifa gruna mig að við munum koma jafnvel eða betur út, það fer þó mikið eftir hvernig samningum verður náð.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 13:15

4 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Þú þæfir Ómar. Samfylkingin boðaði að innganga í ESB væri efnahagspólitík. Jafnframt segir Samfylkingin að valdaframsal verði óverulegt við inngöngu. Annað tveggja er rangt.

Þú reynir að slá varnagla með ,,hvernig samningum verður náð." Við erum að ganga í ESB sem mun ekki breytast til að aðlaga sig Íslandi. Ef þú vilt leggja umræðunni lið væri fallegt af þér að hætta að tala þannig að aðildarsamningur Íslands muni breyta Evrópusambandinu. Það er ódýr Samfylkingarblekking.

Páll Vilhjálmsson, 14.8.2010 kl. 15:28

5 identicon

Páll. Ég er ekki talsmaður Samfylkingarinnar. Ég er hins vegar áhugasamur um málefnalega umræðu. Í slíkri umræðu er gjarnan svo að maður meðtekur ekki síður en leggur fram. Þú sérð það t.d. á mínu máli að ég fellst alveg á að það sé valdaframsal frá núverandi stöðu að setja fiskiveiðar, landbúnað og byggðamál undir reglur ESB.

Það er hins vegar rangt hjá þér að aðildarsamningur sé bara aðlögun og ESB lagi sig ekki að nýju landi. Það er nú reyndar svo að aðildarsamningur breytir grundvallarreglum ESB ef í hann eru settar nýjar reglur. Þannig varð t.d. til reglan um landbúnað norðan 62° en hún kom í aðildarsamningi við Noreg, Svíþjóð og Finnland.

Í samanburði við ESB löndin er Ísland stórveldi á sviði fiskveiða, fiskveiðar eru hér reknar sem hátæknivæddur iðnaður en ríkisstyrktur landbúnaður annars staðar, auk þess sem fiskveiðar eru hér afgerandi þáttur í útflutningstekjum. Allt þetta leiðir til þess að finna verður nýja reglu sem gagnast báðum. Yrði aðildarsamningur til þess að hér legðust af fiskveiðar eða þær færðust allar til Spánar eða annarra landa yrði Ísland þar með að þurfalingi ESB. Ég býst ekki við að nokkur hafi áhuga á því. Þess vegna verður aðildarsamningur að stemma þá á að ósi báðum til heilla.

Góðir samningar eru alltaf win-win. Ég vil leita eftir slíkum lausnum.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 15:56

6 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Landbúnaður í ESB er þakinn regluverki, t.d. fá franskir fjallabændur annan stuðning er franskir láglendisbændur. Reglan um stuðning við bændur norðan tiltekinnar breiddargráðu er eðlilegt framhald af regluverki ESB. Vel að merkja er megininntakið að viðkomandi ríki mega styðja landbúnað í norðurhéruðum sínum.

Ísland á stóra fiskveiðilögsögu en landið verður ekki stórveldi í ESB vegna þess að landhelgi veitir ekki atkvæðarétt heldur fólksfjöldi. Atkvæðaréttur er formleg völd; óformlegu völdin byggja á efnahagslegum styrkleika til viðbótar og þar er Ísland örríki og verður alltaf.

Völd og hagsmunir eru kjarnamálið í ESB. Eftir því sem við flytum meira af íslensku valdi til Brussel því verr stöndum við. 

Aðildarsamningur Íslands breytir ekki Evrópusambandinu enda væri það fjarska ólýðræðislegt að 300 þús. manna þjóð breytti regluverki 500 milljóna manna. Íslendingum stendur til boða aðlögun að Evrópusambandinu sem við eigum ekki að þiggja. Við eigum að taka umsóknina tilbaka og biðja ESB vel að lifa.

Páll Vilhjálmsson, 14.8.2010 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband