Ný heimsskipan eftir stríð

Stofnað var til Úkraínustríðsins með ásetningi beggja stríðsaðila að breyta heinspólitíkinni. Vestrið, þ.e. Bandaríkin og Nató, gerðu bandalag við Úkraínustjórn um að klekkja á Rússum.

Obama þáverandi forseti Bandaríkjanna sagði 2014 að Rússland væri veikt og yrði að kenna lexíu; þá að standa og sitja eins og vestrið býður. Vesturlönd byggðu upp Úkraínuher frá grunni, með fjármagni, vopnum og þjálfun skv. handbókum Nató.

Rússar líta á stríðið sem prófstein á það hvort landið eigi sjálfstæðan tilverurétt án þess að krjúpa fyrir Bandaríkjunum og Nató. Pútín talar um nýja heimsskipan að loknu hernaði. 

Eftir að stríð skall á í febrúar var lokað á allar málamiðlanir. Annar aðilinn verður að tapa og hinn að sigra. Aðeins fræðilegur möguleiki er á jafntefli. Það jafntefli, í formi friðarsamninga, yrði annað tveggja á rússneskum forsendum eða vestrænum.

Ef vesturlönd og Kænugarður sigra er Rússland búið að vera. Nágrannar Rússa, gömlu sovétlýðveldin, myndu narta í hræið og fyrirsjáanlegur innanlandsófriður ylli endalokum rússneska ríkisins. 

Sigri Rússland réðu vesturlönd ekki lengur dagskrá heimsmálanna. Vesturlönd yrðu ekki lengur einráð fyrirmynd ríkja Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Rússland í bandalagi við Kína yrði mótvægi.  

Vestur-Evrópa, þ.e. ESB, verður sérstaklega illa úti ef Rússar fara með sigur af hólmi. Vegna landfræðilegrar legu, hernaðarlegs vanmáttar og hráefnafátæktar, orka og korn, verður Vestur-Evrópa háð velvilja rússneskra yfirvalda í mun meira mæli en hingað til. Fullmikið væri að segja Evrópusambandið á rússnesku áhrifasvæði. En það stappar nærri. (Innan sviga: Hjörtur J. Guðmundsson bendir á hæpinn málflutning íslenskra ESB-sinna, sem halda friður og öryggi fáist í Brussel.)

Vígaferlin á sléttum Garðaríkis breyta heiminum. Til átaka var stofnað með einbeittum ásetningi stórvelda að útkljá með ófriði ágreining sem mátti leysa með samningum.  Almenningur finnur á eigin skinni hörmungar stríðsins. Breska útgáfan Guardian birtir myndband úkraínskar konu sem örvæntir um eiginmanninn er skal með góðu eða illu á vígvöllinn. Menningarþjóðir þurfa sitt fallbyssufóður.      

 

 


mbl.is Rússar einbeita sér ekki lengur aðeins að austrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. júlí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband