Færsluflokkur: Dægurmál

Þvers og kruss samstaða gegn Icesave

Íslensk pólitík er í upplausn og verður í nokkurn tíma að ná áttum eftir hrun. Stöku mál er hægt að taka út fyrir sviga og ná samstöðu um. Icesave-samningurinn er slíkt mál. Afleiðingar samningsins eru fyrirsjáanlega svo víðtækar og erfiðar framtíðarhorfum þjóðarinnar að hvort sem við tilheyrum stjórnarflokkunum, stjórnarandstöðunni eða engum flokkum, hvort sem við erum aðildarsinnar eða fullveldissinnar þá getum við sameinast um að Icesave-samningarnir mega ekki fara óbreyttir í gegnum þingið.

Við hittumst klukkan fimm í dag á Austurvelli.


mbl.is Fundur í fjárlaganefnd klukkan 15
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin upp úr skotgröfinni

Jóhanna og Steingrímur eru loksins að skilja það augljósa, að við getum ekki samþykkt Icesave-samninginn. Ef skötuhjúin drattast upp úr skotgröfinni og horfast í augu við veruleikann gætu þau kannski gert þjóðinni eitthvert gagn. Með því að fella Icesave-samninginn á diplómatískan hátt, 63-0 eins og Ögmundur lagði til, eru Bretum og Hollendingum send kurteis en ótvíræð skilaboð um vilja Íslendinga.

Jóhönnu og Steingrími tekst að halda stólunum sínum og vera áfram strengjabrúður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en þjóðinni er forðað frá ósanngjarnasta milliríkjasamningi frá lokum fyrri heimsstyrjaldar - þetta væru ekki slæm býtti. Ef aðeins umsóknin hefði ekki farið til Brussel mætti þessi stjórn sitja eitthvað inn á næsta ár.


mbl.is Fundi fjárlaganefndar lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimatilbúnar hörmungar

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir forherðist eftir því sem Icesave-samningurinn fær fleiri falleinkunnir. Jú, við ætlum að keyra þennan samning í gegn, segir Steingrímur J. Sigfússon. Þessar heimatilbúnu hörmungar stafa af tvennu. Annars vegar liðónýtum samningi fjármálaráðherra og nefndar hans og hins vegar er ríkisstjórnin búin að koma sér fyrir í skotgröf og stillir þjóðinni upp við vegg. Annað hvort fer samningurinn í gegn eða stjórnin fellur, segja þau Jóhanna og Steingrímur J.

Fyrir venjulegt fólk með óbrjálaða dómgreind er niðurstaðan einboðin. Það á að fella Icesave-samninginn og ríkisstjórnin á að segja af sér. Næstu misseri skiptir fjarska litlu hvaða ríkisstjórn situr. Áætlunin sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samþykkti er stefnuskrá ríkisstjórnar Íslands, alveg sama hvernig hún er skipuð.


mbl.is Leið Buchheits ekki fær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave og valdhyggja vinstrimanna

Ráðandi öfl í Samfylkingu og Vg líta svo á að formleg völd, sem t.d. fást með ríkisstjórnaraðild, séu upphafð og endir á stjórnmálastarfi. Öllu má fórna til að ná völdum og halda þeim. Vg fórnaði helsta stefnumáli sínu, andstöðunni við aðild að Evrópusambandinu, til að komast í valdastöðu. Samfylkingin er beinlínis stofnuð sem valdaflokkur.

Helsta fyrirmynd Samfylkingarinnar er Sjálfstæðisflokkurinn. Björgvin G. Sigurðsson staðfestir það enn einu sinni með grein í dag. Þar segir fyrrum viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar nánast berum orðum að helsta verkefni vinstriflokka sé að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Varla vottar fyrir stefnupólitískri umræðu í grein Björgvins.

Í heimsmynd Samfylkingarinnar er ekki til sú hugsun að stjórnmálaflokkar ná árangri í samræmi við verðleika sína. Sjálf tilveran snýst um að skipta út Sjálfstæðisflokknum fyrir Samfylkingu. Af því leiðir að Samfylkingin er aðeins eftirlíking af móðurflokki íslenskra stjórnmála. Þannig varð Samfylkingin meiri frjálshyggjuflokkur en Sjálfstæðisflokkurinn og yfirbauð líka fyrirmyndarflokkinn í útrásarmærð, samanber alræmda heimasíðu Björgvins G. Sigurðssonar þar sem hann gerði sjálfan sig að foringja klappstýruliðsins.

Völdin eru valdanna vegna í orðabók vinstriflokkanna. Þess vegna ætla þeir að samþykkja Icesave-samningana - þótt það kosti drápsklyfjar á almenning. 


mbl.is FT segir að jafna eigi Icesave-byrðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan miðlar auði og mildar kreppu

Ef íslenska krónan væri einstaklingur yrði hún réttnefnd jafnaðarmaður Íslands. Á uppgangstímum, hvort heldur í sjávarútvegi eða fjármálabraski, miðlar krónan auði til landsmanna með hárri skráningu gagnvart erlendri mynt. Þegar kreppir að mildar hún áföllin og dreifir byrðinni. Hún styttir samdráttartímabil í atvinnulífinu með því að lækkun hennar hækkar útflutningsverð vöru og þjónustu.

Krónan miðlar málum milli samfélagshópa, landsbyggðar og þéttbýlis, efnafólks og þeirra tekjulægri. Án krónunnar væri á Íslandi harðneskjulegra samfélag vegna þess að höggin sem hún tekur myndu lenda ójafnt á fólki, sumir slyppu á meðan aðrir stæðu ekki upp aftur.

Þeir sem gagnrýna krónuna og finna henni allt til foráttu eru að biðja um annars konar samfélag. Þeir komast upp með að útskýra ekki hvernig það samfélag yrði.

Hjákátlegast af öllu hjákátlegu er að heyra vinstrimenn sem kenna sig við félagshyggju gagnrýna réttnefndan jafnaðarmann Íslands.


Tvö Moggahorn

Mogginn er svo undirlagður af ESB-áróðri að taka verður með fyrirvara þegar fréttir eru birtar af umræðum sem lúta að Evrópusambandinu og viðhengjum, t.d. Icesave. Af frétt blaðsins er ekki hægt að ráða hvort blaðamaður hafi setið fundinn eða byggi á heimildum.

Ef blaðamaður var viðstaddur er hann ábyggilega að fegra málstað aðildarsinna annars vegar og hins vegar fylgjenda Icesave-samningunum. Það sést á orðalaginu ,,skiptust í tvö horn" og engin nánari skýring á því hversu margir voru í hvoru horni. Lesendur Mogga vita að aðildarsinnar eru skrifaðir upp og en fullveldissinnar málaðir út í smærra og síðra horn.


mbl.is Fjölmenni á félagsfundi VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vg getur rétt kjósendum sáttarhönd

Þingflokkur Vinstri grænna getur boðið kjósendum flokksins sátt með því að hafna Icesave-samkomulaginu. Til að Vg eigi framtíð fyrir sér þarf að bæta fyrir svikin 16. júlí þegar umsóknin um aðild að Evrópusambandinu var samþykkt þvert á yfirlýsta stefnu flokksins. Það er hægt að draga umsóknina tilbaka. Samþykkt Icesve-samninganna er ekki hægt að draga tilbaka.

Þjóðin vill hafna fyrirliggjandi frumvarpi og semja upp á nýtt.

Þingmenn Vg voru kjörnir á þing til að gæta hagsmuna þjóðarinnar. Þeir voru kjörnir út á stefnuskrá sem sagði meðal annars

  • Höldum erlendum lántökum vegna efnahagshrunsins í lágmarki og greiðum lánin upp sem fyrst, sér í lagi ef þau fela í sér íþyngjandi skilyrði fyrir heimili og fyrirtæki.
  • Stöndum vörð um hagsmuni Íslands í Icesave-málinu og lágmörkum skuldir þjóðarinnar af þeim sökum með öllum tiltækum ráðum.

Þegar frumvarpið um Icesave-samningana kemur til afgreiðslu Alþingis eru þingmenn Vg þeir sem skilja á milli feigs og ófeigs, hvort þeir heimila að stjórnvöld gangi í berhögg við vilja þjóðarinnar.


mbl.is Hefðbundið pólitískt ofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland leiksoppur í ESB-pólitík

Utanríkisráðherra Búlgaríu leggst gegn hraðleið Íslands inn í Evrópusambandið. Ráðherrann telur að innganga Íslands verði að setja í samhengi við umsóknir nágranna Búlgara í suðri, Svartfellinga, Albani og Tyrki. Í viðtali við austurríska dagblaðið Der Standard tekur utanríkisráðherrann af öll tvímæli að Búlgaría leggst gegn sérmeðferð fyrir Ísland.

Rumiana Jeleva tók nýlega við embætti utanríkisráðherra í Búlgaríu en áður var hún þingmaður á Evrópuþinginu. Hún segir að eftir að umsókn Íslands hafi verið lögð fram hafi Búlgaría komið þeim skilaboðum á framfæri að ríkin á vesturhluta Balkanskaga væru mikilvæg fyrir Búlgaríu.

Nach dem Antrag Islands auf eine EU-Mitgliedschaft - eines demokratischen und marktwirtschaftlich entwickelten Landes, hatten wir die Gelegenheit, auf die Bedeutung der Westbalkanländer für die Sicherheit unserer Region hinzuweisen und zu betonen, dass ein Schnellverfahren im Fall Islands nicht angebracht wäre.

Búlgaría ætlar að nota umsókn Íslands til að auka þrýstinginn á Evrópusambandið að sinna Suðaustur-Evrópu.

Hér er viðtalið í heild.


Jóhanna löðrungar og vill svo samstöðu

Jóhanna löðrungaði þjóðina þegar hún hafnaði sátt um að þjóðaratkvæði yrði um umsókn að Evrópusambandinu. Forsætisráðherra með dyggri aðstoð formanns Vg knúði þingmenn til að greiða atkvæði gegn samvisku sinni þann 16. júlí. Tæpum mánuði síðar koma skötuhjúin og vilja samstöðu um óreiðusamninga til greiðslu óreiðuskulda. Það er einfaldlega ekki heil brú í pólitík ríkisstjórnarinnar.

Stjórnmálaskóli Jóhönnu og Steingríms J. heitir frekja, svik og prettir. Þetta er sömu lestirnir og komu okkur í vandræði á útrásaráratugnum. Mál er að linni. Alþingi getur fyrir hönd þjóðarinnar sagt hingað og ekki lengra með því að fella Icesave-samninginn.


mbl.is Ekki öll nótt úti enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geislavirk niðurstaða Icesave

Hvort sem Icesave-samningurinn springur með hvelli eða lágu suði verða afleiðingarnar geislavirkar. Ríkisstjórnin mun freista þess að láta sem lítið hafi breyst og lýsa yfir vilja til að starfa áfram. Takist stjórninni það verður hún ígildi starfsstjórnar með takmarkað umboð. Ríkisstjórn sem gerð er afturreka með jafn stórt mál og Icesave verður ekki söm og jöfn.

Seinni starfsstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur verður með öðru yfirbragði en hin fyrri. Í vetur sammæltust Samfylkingin og Vg að stjórna að loknum kosningum og stóðu sameiginlega fyrir því að blekkja þjóðina til fylgilags við vinstri stjórn. Sigurvegararnir frá í vor tapa í sumar og í framhaldinu verður hvor flokkur fyrir sig og hver þingmaður fyrir sig. Kosningar eru í nánd og hver sem betur getur reynir að skrúbba af sér geislavirknina af Icesave.


mbl.is Engin niðurstaða um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband