Tvær hliðar á frelsi - til og frá

Maður er frjáls til athafna s.s. að velja sér maka, búsetu, atvinnu og svo framvegis. Við kjósum líka frelsi frá fátækt, sjúkdómum, eymd og volæði.

Þessum tveim hliðum á frelsi er oft slegið saman og látið eins og þær séu einn og sami hluturinn.

Athafnafrelsi gerir ráð fyrir að að vera heill á sál og líkama og í færum að njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Frelsisskerðing á athöfnum fólks, t.d. þvingað hjónaband, átthagafjötrar eða atvinnubann, er þegar aðrir grípa inn í líf manns, fjölskylda eða stjórnvöld, og banna eða þvinga - skerða frelsið.

Ef maður aftur glímir við vanheilsu eða fátækt leggjast sjálfkrafa hömlur á frelsið án afskipta annarra. Sá sem er bundinn við hjólastól er ekki frjáls að ganga á fjöll, eða yfir höfuð að ganga. Fátæklingur velur sér ekki búsetu eða atvinnu ef enga er að hafa. Frelsi frá lífsleiða hefur eitthvað með það að gera hvernig tekið er á þeim vanda að vera til.

Söngkona ástsæla, Breitney Spears, fær vonandi frelsið sitt og gengur heil til skógar á vit hamingjunnar.  


mbl.is Systir Britney rýfur þögnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan, kófið og kosningar

Farsóttin jók þjóðarútgjöld flestra ríkja samtímis sem tekjufall varð vegna efnahagssamdráttar. Seðlabankar héldu niðri vöxtum. Lágir vextir þýðir að verðbólga lætur á sér kræla í stórum hagkerfum.

Jákvæðar fréttir eru aftur af verðbólgunni hér á landi, hún er heldur minni en búist var við.

Íslenska krónuhagkerfið ætlar að koma með sæmilegasta móti undan kófi. Í haust gildir að kjósa ekki yfir eyðslustjórn og þá ætti Íslandi að vera borgið.


mbl.is Allar meginforsendur brustu 2020
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trumpfrétt RÚV og alvörufrétt

Trump fráfarandi forseti Bandaríkjanna hélt útifund fyrir helgi, gagnrýndi vænisjúka hershöfðingja og kynþáttahyggju í fræðibúningi. Alvöru fjölmiðlar sögðu frá fundinum, að hann væri haldinn til stuðnings þeim frambjóðendum Repúblíkanaflokksins sem Trump hefur velþóknun á. Öðrum þræði er Trump að gæla við forsetaframboð 2024, segir Telegraph sem þykir ekki útgáfa höll undir fráfarandi forseta.

Svo kemur RÚV með frétt af útifundi Trump og hljómar eins og safnaðarrit hatursmanna fráfarandi forseta. Fyrirsögnin er ,,Hamrar enn á ósannindum um kosningasvik" og hér er smjörþefur af textanum:

„Við gætum þurft að vinna í þriðja sinn,“ sagði forsetinn, „það er mögulegt.“ Í þessari setningu kristallast jafnframt eitt megininntak ræðuhaldanna: Áframhaldandi rangfærslur um að hann hafi í raun unnið stórsigur í forsetakosningunum í nóvember en verið snuðaður um hann með vélabrögðum.

Samkvæmt Telegraph talaði Trump í rúma klukkustund. Frétt RÚV gefur til kynna að karlinn hafi vælt í fimm mínútur um kosningasvindl. RÚV segir ekkert frá tilefni fundarins, þátttöku og pólitísku samhengi. Þingkosningar eru þar vestra á næsta ári þar sem öll þingsæti fulltrúadeildarinnar eru í húfi, rúm 400, og 34 af 100 þingsætum í öldungadeildinni.

Safnaðarútgáfa hagsmunahópsins á Efstaleiti er löngu hætt að segja fréttir. Öllu púðrinu er eytt í boðskap og útleggingu rétttrúnaðarins.  

 


Sannar samsæriskenningar og ósannaður veruleiki

Orðið samsæriskenning er venjulega notað um útbreidd ósannindi. Það var samsæriskenning að veiran, sem ýmist er kennd við Kína eða kóf, hafi orðið til á rannsóknastofu. En svo reyndist samsæriskenningin líklega rétt og viðteknu sannindin, að veira hefði orðið til á kjötmarkaði í Wuhan, eru líklega röng.

Í áfastri frétt er sagt frá bandarískri söngkonu, Britney Spears. Samsæriskenning, um að söngkonan sé fangi, nánast þræll, föður síns, er sögð sönn. Britney Spears á við andleg veikindi að stríða. Það er viðurkennt. Hvort þau veikindi réttlæta að faðir hennar fari með öll mál söngkonunnar, og hvernig hann höndlar þau, er aftur álitamál. 

Hér liggur hundurinn grafinn. Álitamál og óvissa um hvernig hlutum er háttað er uppspretta kenninga, bæði í vísindum og mannlífi, sem freista þess að útskýra það sem ekki er þekkt nema að hluta. Með því nota forskeytið ,,samsæri" á slíkar kenningar er gefið til kynna að sá sem heldur kenningu á lofti viti betur, sé að ljúga vísvitandi.

Líklega lugu kínversk stjórnvöld um uppruna veirunnar. Þau máttu vita að veiran varð fremur til í rannsóknastofu en á kjörmarkaði. Ef pabbi Britneyjar er djöfull í mannsmynd sem hugsar um það eitt að græða á dóttlunni og fer með hana eins og hvern annan varning er samsæriskenningin líklega sönn. En ef faðirinn er eins og feður flestir og hugsar um velferð dóttur sinnar og Britney er alvarlega andlega veik er samsæriskenningin tæplega sannleikanum samkvæmt. Í samskiptum fólks, ekki síst náinna, er veruleikinn meira grár en svart-hvítur.

Tilfellið er að veruleikinn er að stórum hluta ósannanlegur. Einföld fyrirbæri, til dæmis suðumark vatns, er hægt að sanna með tilraun. En samsettari þætti veruleikans, allt mannlífið, er ekki hægt að sanna í bókstaflegum skilningi þess orðs. Svo dæmi sé tekið þá vitum við ekki enn uppruna mannsins. Kenning Darwins er skásta skýringin, og höfð fyrir satt, en enn eru púsl að koma í leitirnar sem sýna að heildarskýring á þróun mannsins er ekki fyrir hendi.

Í menningunni er krafa um að vita flesta hluti fyrir víst. Ógrynni kenninga um stærri og smærri þætti tilverunnar berast okkur á leifturhraða. Það ærir óstöðugan að vinsa úr það sem líklega er satt og henda hinu sem trúlega er ósatt. Orðið samsæriskenning er viðsjált og rímar við viðsjárverða tíma. Það er svo auðvelt að lifa í blekkingu. 


mbl.is Samsæriskenning sem reyndist sönn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyjan kemur vel undan farsótt

Ísland er eyja með fremur einsleita íbúa, sé tekið mið af meginlandsþjóðum austan hafs og vestan. Stífar reglur um ferðir til og frá eyjunni ásamt samtakamætti þjóðarinnar reyndust lykillinn að farsælum sóttvörnum.

Í löndunum í kringum okkur er töluverð umræða um hvort samfélög komi undan farsótt í álíka standi og þau voru fyrir útbreiðslu Kínaveirunnar. Lítið ber á þeirri umræðu hér heima. Við gerum ráð fyrir að flest fari aftur í fyrra horf. Höfum ekki ástæðu til að ætla annað.

Á hinn bóginn er líklegt að opingáttarstefna í fólksflutningum til og frá landinu sé liðin undir lok. ,,Landamærin" urðu til sem hugtak í farsóttarumræðunni. Siðir og reglur innan landamæranna reyndust betur en útlendir siðir og hættir í baráttunni við veiruna.

Og svo er það samstaðan. Eftir hrun var hver höndin upp á móti annarri. Stjórnmál einkenndust af óreiðu. Farsóttin færði okkur heim sanninn að þjóðfélag samstöðu er snöggtum betra en sundrung. 

Þríeykið og ríkisstjórnin eiga inni hjá okkur þakklæti og fallegar hugsanir.


mbl.is Dagur gleði og gæfu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löggur með fordóma

Ef gefið er að lögreglan endurspegli samfélagið, sem er rímleg ályktun, má gera ráð fyrir að áþekkir fordómar séu hjá lögreglumönnum og almenningi.

Lögregluþjónar sem höfðu afskipti af fólki í Ásmundarsal í desember létu í ljós fordóma, um það er engum blöðum að fletta. Hvort þeir fordómar leiddu til fréttatilkynningar sem hönnuð var í því skyni að koma höggi á formann Sjálfstæðisflokksins er aftur opin spurning.

Almennt er traust til íslensku lögreglunnar, síst þó hjá vinstrimönnum. Landssamband lögreglumanna gerði vel í því að gangast við augljósum staðreyndum, að löggur hafi fordóma eins og annað fólk, og viðurkenna að stundum mætti standa betur að verki, t.d. í útkallinu í Ásmundarsal.

Málið dautt.


mbl.is Lögreglumenn íhuga að kvarta til Persónuverndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gosið jafnar árlega losun bílaflota Íslendinga

Eldgosið í Fagradal hefur á 3 mánuðum losað gróðurhúsaloftegund út í andrúmsloftið sem jafnast á við losun alls bílaflota landsmanna á einu ári.

Algengustu gróðurhúsalofttegundirnar eru tvær, vatnsgufa H2O og koltvísýringur CO2. Í andrúmslofti jarðarinnar er vatnsgufa gefin upp á bilinu 0-4% en koltvísýringur 0,04%

Sam­kvæmt útreikningi Sig­urðar Steinþórs­son­ar pró­fess­ors emer­it­us á Vís­inda­vefn­um losar eldgosið 135 kg af vatnsgufu á sekúndu. Það gerir rúm átta tonn á mínútu og tæp 500 tonn á klukkustund og 12 þús. tonn á sólarhring. Á þrem mánuðum eru þetta yfir 1 milljón tonn.

Umhverfisstofnun mælir losun Íslands í kílótonnum og segir vegasamgöngur losa árlega eitt þúsund kílótonna gróðurhúsalofttegunda, sem er 1 milljón tonn.

Í þessum útreikningi er aðeins fjallað um losun vatnsgufu. Ekki liggja fyrir upplýsingar um losun koltvísýrings, CO2. Umhverfisstofnun ætti vitanlega að leggja fram þær upplýsingar ef stofnunin léti sér jafn annt um vísindi og áróður.

 


mbl.is Eldgamalt vatn veldur sprengingunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trú gegn vísindum

Trú á manngert veðurfar er orðin álíka útbreidd og kristni á miðöldum. Trúin er ópíum fólksins, sagði Marx á 19. öld. Tæpum 200 árum seinna eru lærisveinar Marx uppgefnir á efnisveruleikanum.

Loftslagið er ,,lifandi brunnur hins andlega seims" og frelsun mannanna háð lægri koltvísýringi sem þó er aðalfæða jurtaríkisins. Loftslagsvinstrið er ekki grænt heldur svart.

Þeir sem enn nenna vísindum en síður hindurvitnum geta hlustað á Roy Spencer loftslagsvísindamann, ólíkt Al Gore og Grétu Thunberg. Spencer útskýrir á 14 mínútum, (3 mín til 17 mín), að loftslag er náttúrulegt en ekki manngert.


mbl.is „Þurfum að breyta því hvernig við hugsum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líf og sál Viðreisnar

Jón Steindór þingmaður Viðreisnar segir flokkinn eiga bæði líf og sál. Eftir að hafa tekið af lífi stofnanda flokksins, í pólitískum skilningi, er flokkssálin orðin draugur.

Án Benedikts Jóhannessonar hefði aldrei orðið nein Viðreisn. Jón Steindór lætur að því liggja að Benedikt hafi verið ,,einn af mörgum" er stofnuðu flokkinn. Það er sögufölsun. Rétt er að margir hjálpuðu Benna við að koma flokknum á koppinn.

Jón Steindór færði sig úr öruggu sæti í SV-kjördæmi til að rýma fyrir fréttamanni RÚV, sem aldrei hefur tekið þátt í flokksstarfi Viðreisnar

Líf og sál Viðreisnar er sem sagt draugur úr Efstaleiti.

 


mbl.is Benedikt hafi gert forystu Viðreisnar tortryggilega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðreisn: frjálslyndi í orði, klíkuskapur á borði

Frambjóðandi Viðreisnar útskýrir baktjaldamakkið í flokknum sem kennir sig við frjálslyndi. Fámenn klíka ræður ferðinni. Fundir eru haldnir með fyrirframgefinni niðurstöðu.

Flokkur eins og Viðreisn er lítið annað en skúffufélag sem útdeilir væntanlegum þingsætum. Skúffufélagið er á fjárlögum og þarf ekki að reiða sig á frjáls framlög flokksmanna.

Frjálslyndi Viðreisnar er í raun frelsi örfárra til þægilegrar innivinnu á þokkalegum launum.

 

 


mbl.is Segir klíkuskap og klækjastjórnmál í Viðreisn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband