Guðni skók jörðina - en nennti ekki innanflokksátökum

Viðbrögð vinstrimanna við mögulegu framboði Guðna Ágústssyni í Reykjavík mætti líkja við jarðskjálfta. Guðni er vinsæll og með sterka tilhöfðun til almennings og þess vegna fóru óhróðursmaskínur vinstrimanna í yfirgír.

Guðni var tilbúinn í slagsmál við pólitíska andstæðinga. En hann nennti ekki innanflokksátökum.

Lái honum hver sem vill.


mbl.is Guðni gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirhrunið að hjaðna - vor á Íslandi

Upplausn eftirhrunsins birtist í búsáhaldamótmælunum og ríkisstjórn Jóhönnu Sig. Þjóðin afþakkaði eftirminnilega framhald á upplausnarástandinu þegar Samfylkingu og VG var refsað í alþingiskosningunum fyrir ári.

Með því að kjósa Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk valdi þjóðin stöðugleika og uppbyggingu umfram pólitíska vargöld vinstriflokkanna. Landið tók að rísa efnahagslega þegar í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu en vinstriflokkarnir nutu þess ekki enda gekk betur í efnahagsmálum þrátt fyrir vinstristjórnina en ekki vegna hennar.

Þótt enn séu ekki öll hrunkurlin komin til grafar liggja meginlínur skýrar í pólitíska uppgjörinu. Ráðdeild og festa í efnahagsstjórnun er efst á forgangslistanum. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur veita bestu forystuna að þessu markmiði. Verkalýðshreyfingin er ekki með umboð til að streitast gegn ríkisstjórninn sem er með skýrt og ótvírætt umboð frá þjóðinni.

Gleðilegt sumar.


mbl.is Mun móta efnahagsstefnuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni bæjó í ESB-flokk Benedikts J.

Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar seldi eigur bæjarfélagsins til að losa um fé í skýjaborgir á tímum útrásar. Eftir standa skuldir og eignalaust bæjarfélag. Árni er þó hvergi nærri hættur og býður sig enn fram til þjónustu sína við að sökkva bæjarsjóði í skuldafen.

Líkur aukast þó á að Keflvíkingar og Njarðvíkingar afþakki þjónustu Árna og félaga hans í Sjálfstæðisflokknum. Árni mun eiga vinum að fagna í ESB-flokki Benedikts Jóhannessonar og Sveins Andra og gæti leitað þangað þegar Reykjanesbæjarferlinum lýkur.

Miðstöð skýjaborga Árna bæjó á tímum útrásar var Sparisjóðurinn í Keflavík. Benedikt Jóhannesson var góðkunningi Sparisjóðsins og fékk 650 milljónir króna lán í gjaldþrota rekstur.

Þeir félagarnir Benedikt og Árni búa sameiginlega að geysimikilli kunnáttu að fara með fé og það hlýtur að vera traust undirstaða fyrir forystuhlutverk í nýjum stjórnmálaflokki.


mbl.is Virðist sem vín renni í stað vatns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur vill uppgjör í Samfylkingunni

Flokkseigandi Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, fær hroll þegar hann les að hægraframboð Benedikts J. og Sveins Andra tekur allt að þriðjunginn af fylgi Samfylkingarinnar og var það þó lítið fyrir, eða 12,9%.

Gísli Baldvinsson, stundum kallaður Gössur, bloggar einatt fyrir Össur (t.d. þegar Össur tekur ritstjórastólinn af Davíð Oddssyni, fyrst árið 2011 og afhenti Steina Páls og aftur um daginn og gaf Þjáli Magnússyni). 

Gísli bloggar um stöðu Samfylkingar í ljósi nýja ESB-framboðsins og segir

Það er verulegt áfall fyrir Samfylkinguna að rúmlega þriðjungur af þeim 13% sem þá kusu Samfylkinguna ætla ekki að gera það aftur. Stjórnmálaflokkar hafa farið í sjálfskoðun af minna tilefni.

Já, hvernig er það með Samfylkinguna. Hún þorði ekki að ræða fylgishrunið eftir síðustu kosningar, þegar flokkurinn minnst tvo þriðju hluta kjósenda sinna, og ekki heldur þegar flokkurinn stefnir í eins stafs tölu. Hversu smár getur einn flokkur orðið?


Katrín skotheld en VG ónýtur flokkur

Katrín Jakobsdóttir nýtur meira trausts en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður. VG, flokkurinn sem Katrín er formaður í, fær á hinn bóginn minna fylgi í skoðanakönnunum en hann fékk í síðustu þingkosningum (10,9%) og voru þær þó hörmulegar fyrir flokkinn. 

Katrín heiðarlega situr uppi með ónýtan flokk.

Hvenær verður VG lagður niður?


mbl.is Katrín sterk og Jón Gnarr heiðarlegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirskriftarsöfnunin er ársgömul

ESB-sinnar hófu undirskriftarsöfnun til stuðnings kröfunni um að ESB-umsóknin verði ekki afturkölluð fyrir ári síðan. Illugi Jökulsson hóf þessa undirskriftarsöfnun í apríl 2013. Samtök ESB-sinna tóku söfnun Illuga upp á sína arma skömmu síðar.

Undirskriftarsöfnun Illuga hét Klárum dæmið. ESB-sinnar eru duglegir að stofna til nýrra heita á starfsemi sinni og það var gert með undirskriftarsöfnunina sem fékk nýtt heiti í vetur, þjóð.is.

Áróðurspunktur ESB-sinna, að þeir hafi náð 53 þúsundum undirskrifta á 63 sólarhringum, stenst ekki. 


mbl.is Undirskriftasöfnunni að ljúka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég-er-hætt/ur auglýsingaherferðin

Einsmálsfólkið í minnihluta í Sjálfstæðisflokknum efnir til auglýsingaherferðar þar sem það eitt í einu lýsir því yfir með miklum tilþrifum og leikrænni tjáningu að það sé hætt í flokknum. Leikþáttur Jórunnar Ósk heitir ,,Davíð Oddsson stjórnar flokknum á bakvið tjöldin".

Eins og pólitískum plotturum sæmir er handrit Jórunnar þannig skrifað að lesendum er látið eftir að draga ályktanir af uppstilltum forsendum. Í handritinu segir Jórunn

Ég fór á fund DO fyrir landsfund 2010 til þess að ræða við hann hve mikil mistök flokkurinn væri að gera með sinni einstrengingslegu afstöðu og það væri mikið af fólki að yfirgefa flokkinn vegna þess. Það er skemmst frá því að segja að ég hafði ekki erindi sem erfiði og við höfum ekki haft erindi sem erfiði.

Skammstöfun notuð á nafn Davíðs Oddssonar til að gefa málinu samsæriskennda dulúð. Og hvers vegna ræddi Jórunn ekki um áhyggjur sínar við Bjarna Ben formann? Jú, vegna þess að plottið gengur út á að sannfæra fólk að Davíð ráði ferðinni. Fleirtalan ,,við" er rauður þráður í handritinu, til að draga fjöður yfir þá staðreynd að ESB-sinnar í Sjálfstæðisflokknum eru harla fáir.

Sykursætur titill á leikþættum, ,,Það er svo margt skrítið í þessu lífi," gefur þeirri hugsun undir fótinn að hér sé ekki um að ræða stofnun einsmálsflokks um minnihlutasjónarmið heldur eftirminnilega uppákomu í 'lífi mínu og flokksins.'

Auglýsingaherferðin ég-er-hætt/ur í Sjálfstæðisflokknum er hafin. Næsti leikari á sviðið gæti verið Ólafur Stephensen undirritstjóri Mikka á Fréttablaðinu.


mbl.is Jórunn segir skilið við Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópa tapar á evrunni

Evrópusambandið tapar á evrunni enda höktir og skröltir allt kerfið í Brussel vegna efnahagsvandræða og pólitískrar spennu er stafa af sameiginlegum gjaldmiðli. Nú hefur hagfræðingur leitt rök af því að enginn peningalegur hagnaður er af myntinni og er þá fokið í flest skjól

Heimssýnarbloggið segir ávinningurinn sem varð af evrusamstarfinu fyrstu árin sé uppurinn vegna fjármálakreppunnar. Heimssýn segir frá skýrslu hagfræðings á vegum gríska seðlabankans:

Fram kemur í skýrslunni að fram til 2007 hafi samþætting fjármálamarkaða, þ.e. hlutabréfamarkaða og skuldabréfamarkaða, haft talsverðan ávinning í för með sér m.a. í formi lægri kostnaðar og aukinnar skilvirkni, en eftir að kreppan hóf innreið sína hafi sundurleitni verið ríkjandi bæði innan hvers evrulands og eins yfir svæðið í heild, kostnaður aukist og heildarávinningur þar með orðið enginn.

Eina leiðin til að bjarga evrunni er sameiginleg ríkisfjármál, sem í reynd felur í sér sambandsríki Stór-Evrópu. En það er enginn pólitískur vilji í evru-ríkjunum 18 til að fórna leifunum af fullveldinu á altari gjaldmiðils sem skilur eftir sig sviðna jörð.

 


Ekki-múslímar og konur annars flokks fólk

Þeir sem eru ekki múslímar og konur, hvort heldur múslímskar eða ekki, eru annars flokks fólk sem ekki á að njóta sömu réttinda og múslímskir karlmenn. Þessari kennisetningu er haldið á lofti í breskum skólum sem múslímskir bókstafstrúarmenn hafa lagt undir sig.

Múslímavæðingin í allnokkrum skólum í Birmingham er talin merki um erfiðari sambúð bókstafstrúarfólks og bresks samfélags.

Í frétt Telegraph er haft eftir Jack Straw fyrrum innanríkisráðherra að múslímar verði að sætta sig við kristin gildi sem forsendu fyrir breskum þegnskap.


ESB-málið trompar hægri/vinstri skilgreiningu

Ófæddi ESB-hægriflokkurinn byggir væntanlegan tilverugrundvöll sinn á því að einhverjir hægrimenn, sem hlynntir eru ESB-aðild, hafi hingað til haldið sig frá stuðningi við Samfylkinguna og dótturfélagið í Bjartri framtíð.

Könnun Fréttablaðsins sýnir að sárafáir hægrimenn í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki styðja ófædda hægriflokkinn. Á hann bóginn sýnir könnunin að um 30 prósent af kjósendum Samfylkingar og Bjartrar framtíðar geta hugsað sér að kjósa hægrisinnaðan ESB-flokk.

Niðurstaða könnunarinnar er að ESB-málið er ekki hægra- eða vinstramál. Afstaðan til aðildar Íslands að Evrópusambandinu er hafin yfir hægri- og vinstri skilgreiningu. Og það gildir hvorttveggja um ESB-sinna og andstæðinga aðildar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband