Áfengi og skilningsvana stjórnmálamenn

Áfengi er lýðheilsumál vegna þess að neysla þess veldur skaða. Lyf eru einnig lýðheilsumál en á allt öðrum forsendum. Lyf eru til lækninga; ekki áfengi.

Stjórnmálamenn sem jafnstilla áfengi og lyfjum, líkt og meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar, gera ekki greinarmun á heilbrigði og óheilbrigði.

Og ekki heldur mun á réttu og röngu.

 

 


mbl.is Verslun ekki hlutverk ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússland er jafnmikil Evrópa og Þýskaland

Rússland stendur á milli asísku sléttunnar, sem rúmar Kína og Mongólíu, og útskaga evrasíuflekans sem myndar samfellt landflæmi frá Ermasundi til Kyrrahafs.

Þýskir herforingjar voru sannfærðir 1914 að tímabært væri að ráðast á Rússland áður en það yrði of sterkt fyrir þýska herinn. Þessi þýska sannfæring var veigamikill þáttur í upphafi fyrri heimsstyrjaldar.

Evrópusambandið ætlar sér Úkraínu en talar aldrei um aðild Rússlands að ESB. Rússland er til muna meira Evrópuland en t.d. Tyrkir sem ESB er búið að samþykkja sem umsóknarríki. Hvers vegna er ekki rætt um Rússa sem væntanlega ESB-þjóð?

Ástæðan er þessi: Rússland yrði langstærsta ríki Evrópusambandsins, bæði mælt í landflæmi og mannfjölda (145 milljónir).

Rússland er nánast frá náttúrunnar hendi óhæft til verða aðili að ESB enda myndu öflugustu þjóðirnar þar á bæ, Frakkland og Þýskaland, ekki samþykkja að verða hornkerlingar.

Verkefni Evrópusambandsins andspænis Rússum er að finna sambúðarform sem virkar. Fyrir Rússa virkar ekki sambúð sem byggir á því að ESB/Nato umkringi landið.

Bandaríkjamaðurinn J. J. Mearsheimer útskýrir skipulega og ítarlega í grein í Foreign Affairs hvernig Evrópusambandið lét bandarísk stjórnvöld móta utanríkisstefnu sína eftir fall Berlínarmúrsins.

Bandarísk stjórnvöld mótuðu sömu stefnu gagnvart Rússlandi og mistókst svo herfilega í Írak og Afganistan. Hugmyndin er að steypa þjóðir í sama mót sem verði næm á þarfir og hagsmuni Bandaríkjanna.

Evrópa lærði af nýlendusögu sinni að þjóðum verður ekki skikkað að vera svona eða hinsegin. Bandaríkin búa ekki að slíkum lærdómi.

Evrópusambandið vaknaði upp við vondan draum í Úkraínu og rær lífróður að koma í veg fyrir að vont versni með því að fá Bandaríkjamenn ofan af því að senda þangað vopn.

 


mbl.is Allt Vesturlöndum að kenna segir Pútín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrimaður segir ESB verri en Sovétríkin

Fjármálaráðherra Grikka, Yanis Varoufakis, segir Evrópusambandið verri en Sovétríkin. Varoufakis situr í stjórn Syriza bandalag sem róttækir vinstriflokkar standa að

Eins og það sé ekki nóg þá líkir fjármálaráðherrann evru-svæðinu, sem er kjarni Evrópusambandsins, við spilaborg sem hrynji ef eitt ríki af 19 hverfur úr samstarfinu.

Til að bæta gráu ofan á svart er evru-svæðið að sigla inn í langt samdráttarskeið, jafnvel tvo áratugi

 

 


mbl.is Líkir evrunni við spilaborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópa í neyð; Bandaríkin stjórna ferðinni

Angela Merkel kanslari Þýskalands er í Washington að biðja Obama forseta að senda ekki vopn til Úkraínu. Merkel er sannfærð um að aukinn vígbúnaður muni aðeins auka ófriðinn milli uppreisnarmanna, sem Rússar styðja, og stjórnarinnar í Kiev er nýtur stuðnings Evrópusambandsins og Bandaríkjanna.

Breið samstaða er um það á Bandaríkjaþingi að vopnasendingar til Úkraínuhers muni fæla Rússa frá frekari stuðningi við uppreisnarmenn. Þeir sem þekkja betur til, t.d. Merkel sem talar rússnesku og er kunnug þankagangi stjórnarinnar í Moskvu, þykjast vita að Rússar munu ekki gefa eftir í átökunum um Úkraínu enda öryggishagsmunir þar í veði.

Bandarísk vopn skiptu sköpum í Evrópu í fyrri og seinni heimsstyrjöld. Núna gætu þau hrundið af stað stórstyrjöld á austurlandamærum Evrópusambandsins.


mbl.is Hittast í Minsk á miðvikudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vg staðfestir hugleysið: ekki orð um ESB-umsókn

Ísland er með standandi umsókn um aðild að brennandi Evrópu sökum þess að þingmenn Vg sviku eftirminnilega stefnu og kosningaloforð flokksins.

Sem stjórnmálaflokkur er Vg of huglaus að nefna Evrópumál, hvorki Úkraínu-deiluna né umboðslausu ESB-umsóknina.

Vg staðfestir hugleysið með þögninni.


mbl.is Misskipting auðsins veldur fátækt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úkraínuher er ónýtur - Rússar sigra ESB

Þýska leyniþjónustan áætlar að Úkraínuher telji 30 þús. manns, þar af 15 þús. í bardagasveitum. Herinn er illa þjálfaður, liðhlaup eru tíð og búnaður lélegur. Frankfurter Allgemeine segir þessar fréttir og bætir við: þegar núverandi forseti Úkraínu tók við í júlí 2014 sagðist hann engan her eiga.

Bandaríkin vilja ólm láta Úkraínu í té vopn til að berjast við uppreisnarmenn í landinu sem njóta stuðnings Rússa. Rök Bandaríkjamanna eru tvíþætt. Í fyrsta lagi að úkraínska þjóðin berjist fyrir lýðræði og sjálfstæði. Í öðru lagi að með vopnasendingum verði Rússum gert dýrt að halda áfram stuðningi við uppreisnarmenn.

Merkel kanslari Þýskalands gefur lítið fyrir rök Bandaríkjamann. Hún sagði á öryggisráðstefnu í München í gær að Pútín Rússlandsforseti muni hvergi hvika frá stefnu sinni þótt Úkraína fái vestræn vopn. Blóðsúthellingar verða meiri en friður næst ekki með vopnum, sagði Merkel, sem fær þá umsögn að vera ofurraunsæ.

Á öryggisráðstefnunni í München í gær var fyrrverandi varnarmálaráðherra Bretlands, Malcolm Rifkind, klappað lof í lófa þegar hann vitnaði í orð Friðriks mikla Prússakonungs að diplómatía án hernaðarmáttar væri eins og tónlist án hljóðfæra. (Látum liggja á milli hluta að háþróaður vestrænn vopnabúnaður í höndum úkraínska hersins er eins og Stradivarius í greipum manns sem þekkir ekki muninn á fiðlu og flautu).

Og þetta er einmitt kjarni málsins: Evrópusambandið lét Bandaríkin þvæla sér út í leiðangur til Úkraínu án þess að eiga innistæðu fyrir landvinningum. ESB og Bandaríkin reru undir þegar lögmætum forsenta landsins, Yanukovych, var steypt af stóli fyrir réttu ári. Valdaránið færði Úkraínu undir áhrifasvæði Evrópusambandsins. Rússar sögðu hingað og ekki lengra: Úkraína var stökkpallur Napoleóns og Hitlers inn í Rússland og við munum ekki leyfa ESB að leggja landið undir sig.

Nato er varnarbandalag Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Ætla mætti að Nato þjónaði sem hernaðarvægngur Evrópusambandsins í Úkraínu og gæti orðið stjórnvöldum í Kiev það sem Rússland er uppreisnarmönnum.

Nato er ekki skipulagt sem þjóðarher heldur stjórnstöð margra sjálfstæðra herja. Nato getur ekki starfað sem bakhjarl úkraínska hersins - en gæti á hinn bóginn staðið fyrir stórstríði gegn Rússum. Og þaðan kemur ótti þeirra rússnesku, sem vilja frekar heyja skæruliðastríð í Úkraínu í áravís fremur en að missa landið undir ESB/Nato.

Angela Merkel er sá stjórnmálamaður Evrópusambandsins sem hlustað er á. Verkefni hennar er að útskýra fyrir Bandaríkjamönnum að stríðið í Úkraínu er tapað annars vegar og hins vegar fyrir ESB-elítum að útþenslu í austur sé lokið um fyrirsjáanlega framtíð.

Alls óvíst er Merkel takist verkefnið. Ef henni mistekst verður meiri ófriður í Evrópu en nokkru sinni frá lokum seinna stríðs.

 

 

 


mbl.is Dró fram rússnesk vegabréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrimenn gefast upp á Samfylkingu

Stefán Ólafsson prófessor talar löngum fyrir vinstri væng Samfylkingar. Hann er búinn að fá nóg af flokki Árna Páls.

Helgi Hjörvar þingflokksformaður viðurkennir að Samfylkingin er heybrók í umgengni við fjármálakerfið og vísar þar beint til hve Árni Páll er hallur undir banka og fyrirtæki.

Illugi Jökulsson boðaði formannsframboð gegn Árna Páli en virðist hafa lagt upp laupana þegar til átti að taka.

Samfylkingin er öskuhugamatur þegar menn nenna ekki einu sinni að berjast um formennskuna í 12,9% flokknum.

 


Jón Gnarr með jesúkomplex

Jón Gnarr skrifar grein og segir

Grunngildi okkar eru þau sömu. Og þá verða yfirsjónir og afglöp annarra skiljanlegri og ásættanlegri. 

Það verður tilgangslaust að dæma aðra. Fólk hættir að fara í taugarnar á manni og maður á engan óvin í nokkurri manneskju því um leið og maður elskar sjálfan sig þá elskar maður aðra því allir aðrir eru hluti af manni sjálfum. Og maður lærir að fyrirgefa svo aðrir hafi ekki óþarflega mikla stjórn á lífi manns og líðan.

Jón gerir sig betur sem brandarakarl en sjálfmiðaður mannkynsfrelsari.

 


Vg ekki hugsjónaflokkur, heldur huglaus flokkur

Vg seldi Samfylkingunni frumburðarrétt sinn 16. júlí 2009 þegar þingmenn flokksins, þar á meðal núverandi formaður, samþykktu ESB-umsókn Össurar Skarphéðinssonar þvert á stefnu flokksins og nýgefin kosningaloforð.

Vg er flokkur hugleysingja sem ekki þora að horfast í augu við 16. júlí-svikin og reyna að sópa þeim undir teppið.

Evrópa brennur og Ísland er með umsókn um aðild að þeirri brennu vegna stuðnings Vg við ESB-umsóknina. Og hvað gerir Vg? Jú, flokkurinn er ekki með Evrópumál á dagskrá sinni.

Engin eftirspurn er eftir huglausum flokkum eins og Vg.


mbl.is VG stimplaðir sem „á móti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópa teiknuð upp á nýtt

Rússum verður ekki leyft að teikna Evrópu upp á nýtt, er haft eftir Joe Biden, vara­for­seta  Banda­ríkj­anna. En Evrópusambandið er einmitt að teikna álfuna upp á nýtt með því að leggja Úkraínu undir áhrifasvæði sitt.

Úkraína var hluti Sovétríkjanna eftir seinna stríð. Með upplausn kommúnismans, sem sameinaði Þýskaland, bjó til ný þjóðríki í Austur-Evrópu og frelsaði önnur undan oki dauðrar hugmyndafræði, komust valdahlutföll álfunnar í uppnám.

Evrópusambandið með Nato sem hernaðarvæng víkkuðu út áhrifasvæði sitt í austur og innbyrtu Eystrasaltsríkin, Pólland, Rúmeníu og Búlgaríu. Rússum stafaði ógn af þessari útþenslu og létu vesturlönd vita skýrt og ákveðið að öryggishagsmunum Rússlands væri ógnað með útþenslu ESB og Nato í austur.

John J. Mearsheimer rekur útþenslu ESB/Nato skilmerkilega í grein í Foreign Affairs og leggur ábyrðina á Úkraínudeilunni alfarið á herðar vesturveldanna.

Evrópa er í stríði í Úkraínu, skrifar fyrrum utanríkisráðherra Þýskalands, Joschka Fischer. Þegar sambandssinnar eins og Fischer nota orðið ,,Evrópa" eiga þeir við Evrópusambandið.

Úkraína var leið Napoleóns og Hitler inn í Rússland á tveim síðustu öldum. Engin rússnesk stjórnvöld gætu liðið að Úkraína yrði ESB/Nato-ríki með þeirri ógn sem sú staða yrði fyrir öryggishagsmuni Rússa.

Evrópusambandið er hallt undir landvinninga í austri enda vegur það upp á móti upplausnarástandinu innan landamæra ESB þar sem evru-kreppan klýfur samstöðuna. Í augum manna eins og Fischer og ýmissa álitsgjafa er vandamálið á hinn bóginn Pútin og hann gerður að hálfgerðum brjálæðingi.

Ófriðurinn í Evrópu verður ekki leystur í bráð. Deila ESB/Nato við Rússa í Úkraínu verður báðum aðilum dýrkeypt. Þjóðverjar eru óðum að átta sig á því að vopnavæðing úkraínskra stjórnvalda leysir ekki vandann heldur eykur hann.

Evrópusambandið er í Úkraínu komið út í ófæru sem mun hvorttveggja í senn stöðva framrásina í austur og eins hitt að magna upp vandamálin heima fyrir. Grikkir verða ekki þeir einu sem notfæra sér veikleikana sem Evrópusambandið sýnir í Úkraínudeilunni.

 


mbl.is Áttu „uppbyggilegan“ fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband