Fimmtudagur, 21. janúar 2016
Samfylkingarpopúlismi
Samfylkingin trúir eigin áróðri um að verðtrygging sé höfuðmeinsemd á Íslandi. Jafnvel skráðir og skjalfestir jafnaðarmenn, t.d. hagfræðingurinn Jón Steinsson, súpa hveljur yfir lýðskruminu:
Hvað gerist þegar það kemur gott íslenskt verðbólguskot (eins og alltaf gerist með reglulegu millibili) og vextir á óverðtryggðum lánum hækka upp úr öllu valdi? Þá munu menn óska þess að geta jafnað þann skell yfir lánstímann. En það er einmitt það sem verðtryggð lán gera. [...] Úff hvað það er pirrandi að vera íslenskur jafnaðarmaður.
Samfylkingin eltir skottið á sjálfri sér í leit að einhverju að bíta í. Með skottið í kjaftinum étur flokkurinn sig upp að innan.
![]() |
Vilja afnema verðtrygginguna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 21. janúar 2016
Gallup mátar Baldur Þórhalls við Bessastaði
Varaþingmaður Samfylkingar fyrrum, ESB-sinni og prófessor við HÍ, Baldur Þórhallsson og maki eru mátaðir við Bessastaði í skoðanakönnun Gallup. Spurningin er svohljóðandi:
Ert þú jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) gagnvart því að dr. Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði verði næsti forseti Íslands og setjist ásamt maka sínum Felix Bergssyni á Bessastaði?
Fyrir utan venjubundna svarmöguleika, þ.e. hversu jákvætt eða neikvætt fólk er gagnvart forsetaframboði Baldurs, er boðið upp á: ,,Veit ekki hver dr. Baldur Þórhallsson er."
RÚV, sem iðulega flaggar Baldri, hlýtur að hlaupa til og koma honum í fréttirnar á meðan könnun Gallup stendur yfir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 21. janúar 2016
Bótafólkið, Marx og kvótinn á lífsgæði
Karl Marx, samtíðarmaður Jóns Sigurðssonar forseta, kenndi að yfirbyggingin sé fall af skipulagi framleiðslunnar. Ráðandi hugmyndir í hverju samfélagi séu afleiðingar af valdahlutföllum í efnahagskerfinu.
Á dögum Jóns Sigurðssonar réðu bændur efnahagskerfinu og mótuðu ráðandi hugmyndir. Eftir lýðveldisstofnun og útfærslu landhelginnar urðu útgerðarmenn öflugir og létu eftir því til sín taka í þjóðfélagsmálum.
Síðasti þriðjungur síðustu aldar skóp aðstöðu í efnahgaskerfinu fyrir tvo nýja hópa, bótafólkið og starfsfólk stóriðju.
Bótafólkinu óx fiskur um hrygg á tímum útrásar enda hrundu brauðmolar af nægtarborði auðmanna til bótafólksins, sem annars lifir einkum á opinberum styrkjum. Bótafólkið er áberandi í þjóðfélagsumræðunni og vill fá valdastöðu enda með framlag til þjóðarframleiðslunnar, eins og rithöfundur benti á nýverið.
Bótafólkið herjar á starfsfólk stóriðju með því að segja þau störf andstæð hagsmunum Íslands og þó sérstaklega íslenskrar náttúru. Skeleggur talsmaður starfsmanna stóriðju las bótafólkinu pistilinn í bloggfærslu. Óðara fékk hann yfir sig vammir og skammir.
Marxísk greining á valdastöðu bótafólksins annars vegar og hins vegar starfsmanna stóriðju er kristaltær: forræðið er allt þeirra síðarnefndu.
Bótafólkið er á hinn bóginn tunguliprara og stendur öðrum hópum samfélagsins framar í textaframleiðslu. Bótafólkið telur sig í krafti stöðu sinnar í fjölmiðlun geta skenkt öðrum hópum lífsgæðum og mótað ráðandi hugmyndir um hvert þjóðin skuli stefna.
Marx gat vitanlega ekki séð fyrir áhrif bloggheima á valdahlutföllin í samfélaginu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 21. janúar 2016
Úkraína, olían og alþjóðakreppan
Lækkandi olíuverð ætti að hækka hlutbréf í öllum öðrum fyrirtækjum en þeim sem stunda olíuvinnslu. En markaðir í ársbyrjun hríðfalla, m.a.s. á Íslandi, þar sem engir olíuhagsmunir eru í veði.
Ástæðan fyrir svartsýni markaða er undirliggjandi spenna milli stórveldanna, Bandaríkjanna og Rússlands. Vegna þessarar spennu er engin lausn fyrirsjáanleg í miðausturlöndum þar sem Bandaríkin styðja Sáda og súnna en Rússar sjíta og Írani en hryðjuverkasamtök eins og Ríki íslams fitna eins og púkinn á fjósabitanum. Afleiðingin er m.a. milljónir flýja miðausturlönd og lama stjórnmál í Evrópu.
Úkraína er uppspretta spennunnar milli Bandaríkjanna og Rússlands. Fyrir tveim árum studdu Bandaríkin og ESB-ríkin stjórnarskipti í Úkraínu. Forseti hliðhollur Rússum, Viktor Janúkovítsj, var settur af en við tók stjórn hliðholl vesturveldunum. Í framhaldi hirtu Rússar Krímskaga af Úkraínu og rússneskir uppreisnarmenn yfirtóku austurhéruðin. Ríkisstjórnin í Kiev er gerspillt og getur ekkert gert nema með fulltingi vesturveldanna.
Úkraínudeilan er um það bil að leysast. Fyrir nokkrum dögum voru lögð drög að pakkalausn stórveldanna með fundi utanríkisráðherra landanna. Frekari fundir hafa farið fram sem og símtöl á milli forsetanna Obama og Pútíns.
Takist að leysa Úkraínudeiluna er komin forsenda fyrir sameiginlegri nálgun stórveldanna á ástandinu í miðausturlöndum. Og þar með verður friðsamlegra um að litast í henni veröld.
![]() |
Olían lækkar og lækkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 20. janúar 2016
Útsala á ríkiseigum verður ekki fyrirgefin
Salan á Borgun fól í sér að ríkisbanki gaf útvöldum 20 milljarða króna. Salan fór fram á bakvið luktar dyr.
Íslenska ríkið á Landsbankann, stóra hluti í öðrum bönkum og fær í fangið aðrar eigur, upp á tugi milljarða króna, sem lið í uppgjöri föllnu bankanna.
Reynslan af sölunni á Borgun ætti að kenna ríkisstjórninni að ganga varlega um gleðinnar dyr þegar kemur að sölu ríkiseigna. Landsbankann ætti að taka strax af söluskrá, svo að enginn velkist í vafa um að Framsóknarflokkur Sjálfstæðisflokkur lærðu sínu lexíu af hruninu 2008.
Þjóðin mun ekki sýna þeim neina miskunn vorið 2017 sem gefa útvöldum almannaeigur. Enda veit þjóðin að gjafagjörningum fylgir hrun.
![]() |
Þolum ekki sömu mistökin aftur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 20. janúar 2016
Trump eða Sanders - pólitíska miðjan hrynur
Trump er orðinn líklegur forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins eftir stuðningsyfirlýsingu Söru Palin. Palin er fyrrum varaforsetaefni og sterk í kjarnaíhaldi miðríkjanna. Samtímis fréttist af forskoti nýsósíalistans Bernie Sanders á Hilary Clinton í lykilfylki forkosninganna.
Gangi það eftir að forsetakosningarnar í Bandaríkjunum standi á milli hægri harðlínumanns og nýsósíalista blasir við að pólitíska miðjan er hrunin.
Hvítt miðstéttarfólk bjó til pólitísku miðjuna í Evrópu og Bandaríkjunum áratugina eftir stríð. Velferðarkerfið, sem er til muna takmarkaðra vestan hafs en austan, er arfleifð hvítu millistéttarinnar.
Efnahagslegir þættir, s.s. stóraukin misskipting auðs, og menningarlegir, m.a. flóttamannastraumar frá öðrum heimsálfum, grafa undan veldi hvítu miðstéttarinnar sem leitar frá miðjunni út á kanta stjórnmálanna í leit að viðspyrnu.
Klofningur hvítu millistéttarinnar á milli harðlínuhægrisins og nýsósíalisma felur í sér að forræði þessa kjósendahóps yfir meginþróun stjórnmálanna er fyrir bí.
Þegar valdakerfi líða undir lok, jafnvel óformleg eins og hvítu millistéttarinnar, er iðulega tímabil upplausnar uns ný kerfi skapa kjölfestu.
Ómögulegt er að sjá fyrir hvaða valdakerfi tekur við af hvítu millistéttinni.
![]() |
Palin lýsir yfir stuðningi við Trump |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 20. janúar 2016
Dönsk svín í múslímskum matardeilum
Múslímar borða ekki svínakjöt af trúarástæðum. Múslímar í Danmörku hafa náð þeim árangri að ryðja svínakjöti af matseðlinum á sumum opinberum stöðum. Danir, sem eru stórframleiðendur svínakjöts, telja danskri matarmenningu standa ógn af áhrifum múslíma og grípa til gagnráðstafana.
Guardian segir að bæjarfélagið Randers hafi gefið út verklagsreglu um að mötuneyti á vegum sveitarfélagsins skuli bjóða danskan mat, svínakjöt meðtalið.
Ákvörðun Randers er liður í baráttu Dana fyrir danskri matarmenningu andspænis þeirri múslímsku. Það eitt að bæjarfélag þurfi að gera sérstaka samþykkt um að hversdagslegur matur skuli á boðstólum segir sína sögu um styrkleikahlutföllin í dönsku samfélagi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 19. janúar 2016
Landsbanki trygging gegn öðru hruni
Einkaframtakið keyrði Glitni, Kaupþing og gamla Landsbankann í gjaldþrot og olli þar með hruninu 2008. Tveir endurreistir bankar, Arion og Íslandsbanki, eru í eigu útlendinga og fara bráðlega á markað - sem sagt í hendur einkaframtaksins.
Landsbankinn er ríkisbanki og ætti að vera það um ófyrirséða framtíð sem trygging gegn öfgum einkaframtaksins.
Landsbankann ætti ekki að selja fyrir en markaðsöflin sýna að þau kunni að reka banka. Eðlilegur reynslutími er 15 til 20 ár.
![]() |
Liggur ekkert á að selja bankann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 19. janúar 2016
Morð og ríkisfyrirgefning
Á fyrstu öldum byggðar á Íslandi voru manndráp einkamál. Hugmyndin um ríkistryggða mannhelgi kom með konungsvaldi. Í stað hefndardrápa milli fjölskyldna, og eftir atvikum sátta þeirra á milli, tryggði ríkisvaldið samfélagsfriðinn með því að gera manndráp að opinberu refsimáli.
Í þágu samfélagsfriðarins látum við ríkisvaldinu um að rannsaka, dæma og refsa í manndrápsmálum.
En það er ekki ríkið sem líður fyrir morð heldur fjölskylda fórnarlambsins. Það er ekki siðlegt að ríkið fyrirgefi morðingja, með uppreist æru, án þess að spyrja aðstandendur hins myrta.
![]() |
Heyrði þetta fyrst í fréttum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 19. janúar 2016
ESB hvorki né samband
Bretar kjósa um útgöngu úr ESB. Hvorki Bretar né Pólverjar eða aðrir ESB-þjóðir láta sér til hugar koma að taka upp gjaldmiðil ESB, evruna, enda hún uppskrift að hörmungum bæði í Grikklandi og Finnlandi.
Evrópusambandið er of víðtækt og samfléttað hagkerfum aðildarríkja til að það líði undir lok í bráð. Að sama skapi er það of veikt og sjálfu sér sundurþykkt til að sambandið geri gagn við úrlausn brýnna vandamála, samanber flóttamannastrauminn til Evrópu.
Evrópusambandið starfar áfram án sannfæringar, líkt og stórveldi með útrunninn dagsstimpil.
![]() |
Telur að ESB gæti liðið undir lok |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)