Trump eða Sanders - pólitíska miðjan hrynur

Trump er orðinn líklegur forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins eftir stuðningsyfirlýsingu Söru Palin. Palin er fyrrum varaforsetaefni og sterk í kjarnaíhaldi miðríkjanna. Samtímis fréttist af forskoti nýsósíalistans Bernie Sanders á Hilary Clinton í lykilfylki forkosninganna.

Gangi það eftir að forsetakosningarnar í Bandaríkjunum standi á milli hægri harðlínumanns og nýsósíalista blasir við að pólitíska miðjan er hrunin.

Hvítt miðstéttarfólk bjó til pólitísku miðjuna í Evrópu og Bandaríkjunum áratugina eftir stríð. Velferðarkerfið, sem er til muna takmarkaðra vestan hafs en austan, er arfleifð hvítu millistéttarinnar.

Efnahagslegir þættir, s.s. stóraukin misskipting auðs, og menningarlegir, m.a. flóttamannastraumar frá öðrum heimsálfum, grafa undan veldi hvítu miðstéttarinnar sem leitar frá miðjunni út á kanta stjórnmálanna í leit að viðspyrnu.

Klofningur hvítu millistéttarinnar á milli harðlínuhægrisins og nýsósíalisma felur í sér að forræði þessa kjósendahóps yfir meginþróun stjórnmálanna er fyrir bí.

Þegar valdakerfi líða undir lok, jafnvel óformleg eins og hvítu millistéttarinnar, er iðulega tímabil upplausnar uns ný kerfi skapa kjölfestu.

Ómögulegt er að sjá fyrir hvaða valdakerfi tekur við af hvítu millistéttinni.

 

 

 


mbl.is Palin lýsir yfir stuðningi við Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband