Sunnudagur, 8. maí 2022
Pólsk innrás í Úkraínu líkleg
Rússar ætla sér að innlima suður- og austurhluta Úkraínu. Nafnið Nýja-Rússland er komið á flot í umræðunni. Á meðan vestrænir fjölmiðlar flytja fréttir af sigrum Úkraínumanna sækja Rússar fram hægt en örugglega í suðri og austri. Pólverjar eru líklegir til að hugsa sér til hreyfings í vesturhluta Úkraínu.
Tilgátan um að pólskur her færi inn í Galisíu-héraðið, í kringum borgina Lviv, fékk tilfallandi kynningu fyrir viku og þá sem langsótt samsæriskenning. Vika í stríði er eins og vika í pólitík, getur breytt rás viðburða. Pólverjar misstu Galisíu í lok seinna stríðs og eru áhugasamir um endurheimt héraðsins. Tækifærið virðist núna.
Úkraína er, að áliti þeirra sem til þekkja, á hraðri leið að verða eyðiland, ónýtt ríki. Ástæðan er tvíþætt. Í fyrsta lagi tapar úkraínski herinn fyrir þeim rússneska. Mannfallið er líklega einn á móti fjórum; fyrir hvern einn rússneskan hermann deyja fjórir úkraínskir. Rússar er þrisvar sinnum fjölmennari þjóð en Úkraínumenn. Myndir af föllum hermönnum sýna miðaldra karla sem voru borgarar síðustu jól. Þeir eiga ekki roð við atvinnuhermönnum.
Í öðru lagi er bandarískur og vestrænn stuðningur við stjórnina í Kænugarði skilyrtur við að engir samningar verði gerðir við Rússa. Bandaríski varnarmálaráðherrann sagði það skýrt: Úkraínumenn eru vestrænt fallbyssufóður til að veikja hernaðarmátt Rússa. Selenskí forseti og stjórn hans standa og falla með vestrænni aðstoð. Þess vegna verður ekki samið.
Án samninga heldur Úkraína áfram að glata herliði og landsvæði. Enginn veit markmið Rússa. Kunnugir gefa sér að Rússar hafi áhuga á 30-50 prósent Úkraínu. Líklega stefna þeir á að taka Ódessu í suðvestri en við það yrði stjórnin í Kænugarði landlukt.
Á hinn bóginn. Ef pólskur her færi inn í vesturhluta Úkraínu, undir formerkjum friðargæsluliðs, með vitund Bandaríkjanna og e.t.v. vilyrði stjórnarinnar í Kænugarði, myndi það hafa fælingaráhrif á Rússa. Pólland er Nató-land og þvældist ekki inn í Úkraínu án þegjandi samkomulags við Rússa. Pæling Pútín og félaga gæti verið að ný víglína í vestri gerði þeim auðveldara fyrir á austurvígstöðvunum. Óðara myndu einhverjir úkraínskir þjóðernissinnar vilja berjast við Pólverja - burtséð frá hvað Selenskí forseti segir.
Annað og stærra hangir á spýtunni fyrir Rússa. Pólsk innrás í Úkraínu staðfesti kenninguna um að staðan fyrir 24. febrúar síðastliðinn, þ.e. fyrir innrás Rússa, var ekki sjálfbær. Úkraína var of stórt land til að verða Nató-ríki, séð frá hagsmunum Rússa, og það er of stórt til að verða í heild sinni eign Rússlands, séð frá bandarískum Nató-sjónarhóli.
Pólsk innrás þjónaði hagsmunum Rússa. Þeir gætu jafnvel sleppt að ráðast á Ódessu, sem er suður af Galisíu, og látið Pólverja og stjórnina í Kænugarði bítast um borgina.
Reuters hafði eftir rússneskum leyniþjónustuforingja að pólsk innrás væri í bígerð. Falsfrétt, var sagt á vesturlöndum. Gonzalo Lira, gúrú í augum þeirra sem ekki trúa vestrænum fjölmiðlum, og þeim fer fjölgandi, segir að áætlun um pólskar aðgerðir í Galisíu sé fyrir hendi. Hann fullyrðir að Medvedev, sem var staðgengill Pútín um hríð, hafi gefið Pólverjum grænt ljós.
Bandaríkin og Nató myndu tapa pólitískt á pólskum aðgerðum í Úkraínu en styrkjast hernaðarlega. Af þeirri ástæðu getur orðið bið á að áætluninni verði hrint í framkvæmd. En eftir því sem Úkraína minnkar í austri verður brýnna fyrir Nató-ríkin að styrkja sig í Vestur-Úkraínu. Það verður ekki gert nema með pólskri aðstoð.
Að tjaldabaki er plottað um framtíð Úkraínu. Á vígvellinum deyja menn í hrönnum. Sorglegt er að hugsa til þess að með samningum hefði mátt koma í veg fyrir ósköpin. Úkraína hefði getað orðið hlutlaust land á milli Nató-blokkarinnar og Rússlands.
![]() |
300 yfirgefa verksmiðju í Maríupol |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Laugardagur, 7. maí 2022
Þögn á alþingi um Þóru og RÚV
Þóra Arnórsdóttir yfirmaður á RÚV er með stöðu sakbornings í rannsókn lögreglu á byrlun Páls skipstjóra og stuldi á síma hans. Hún var boðuð til yfirheyrslu 14. febrúar, fyrir nær 3 mánuðum. Hún fer alla lagakróka að komast hjá heimsókn til lögreglu að gefa skýrslu. Síðasta útspilið felur í sér að ríkisstofnunin RÚV krefst dóms um að önnur ríkisstofnun, lögreglan á Akureyri, sé vanhæf. Þetta eru nýmæli og tíðindi til að ræða og greina. En það ríkir dauðaþögn á alþingi.
Byrlun Páls og stuldur á síma hans var forsendan fyrir umfjöllun um ,,skæruliðadeild" Samherja fyrir ári síðan. Þá var málið tekið upp á alþingi og fóru sumir þingmenn hamförum.
Svokölluð skæruliðadeild Samherja var aldrei sökuð um nokkurn glæp og engin lögreglurannsókn stendur yfir á athöfunum meintra liðsmanna hennar. En samt var hún á dagskrá alþingis, tóku þingmenn stórt upp í sig og ráðherrar fordæmdu.
Þrír blaðamenn hið minnsta, auk Þóru, eru grunaðir um saknæmt athæfi. Á meðal málsgagna, sem hafa verið gerð opinber, er skýrsla lögreglunnar fyrir héraðsdómi 28. febrúar. Þar segir m.a.
Hafa ber í huga að í síma einstaklinga í dag er allt líf þeirra skráð. Þar er að finna mikið af upplýsingum um einkalíf þeirra, einkasamtöl við fjölskyldu, vini og kunningja og jafnvel lækna, sálfræðinga, lögfræðinga ofl. Þar er að finna ljósmyndir og myndskeið, jafnvel sjúkraupplýsingar og aðrar persónuupplýsingar.
Þóra fékk allar upplýsingarnar sem voru í síma Páls skipstjóra. Segir í lögregluskýrslunni: ,,þeir sem afrituðu símann hafa þurft að skoða allt sem í símanum var...". Hún hafði allt einkalíf Páls í hendi þér. Skýrsla lögreglunnar ber með sér að Þóra deildi á aðra fjölmiðla einkamálum Páls. En hún birti sjálf ekki stafkrók, ekki eina einustu frétt. Þóra getur ekki borið við að hún hafi verið að afla frétta. Eitthvað annað og verra bjó að baki en að afla frétta og upplýsa almenning.
RÚV er á fjárlögum sem alþingi lögfestir. RÚV er opinber stofnun. Hvers vegna spyr enginn þingmaður hvernig því víkur við að yfirmenn RÚV eru grunaðir í lögreglurannsókn á alvarlegum glæp? Varla telst það sjálfsagt mál í siðuðu samfélagi.
Hvers vegna er ráðherra ekki spurður um háttsemi RÚV, að stunda glæpi og flytja afraksturinn í aðra fjölmiðla, Stundina og Kjarnann, til birtingar? Ráðherra ber ábyrgð á RÚV gagnvart þingheimi.
Hvers vegna er Stefán útvarpsstjóri ekki kallaður á fund þingnefndar og spurður hvað hann hafi gert til að upplýsa málsaðild starfmanna stofnunarinnar? Hvers vegna létu Rakel Þorbergsdóttir, Einar Þorsteinsson og Helgi Seljan skyndilega af störfum í haust og vetur? Greiðir RÚV lögfræðikostnað Þóru?
Stefán er fyrrum lögreglustjóri. Finnst honum eðlilegt að starfandi yfirmaður á RÚV krefjist dóms um vanhæfi lögreglunnar á Akureyri að rannsaka sakamál? Ein ríkisstofnun stundar málarekstur gegn annarri ríkisstofnun og hvorki heyrist hósti né stuna frá alþingi.
Er það svo að gjörvallur þingheimur er undir járnhæl RÚV, þorir hvorki að æmta né skræmta, þegar Efstaleiti líkist meira skipulögðum glæpasamtökum en þjóðarfjölmiðli?
Þingmenn sperrtu sig og reigðu þegar Páll skipstjóri nýtti sér tjáningarfrelsið en þegar hann verður fyrir byrlun og gagnastuldi er enginn þingmaður sem spyr hverju sæti. Hversdags-Páll er tekinn á beinið fyrir að tjá sig en Þóra sakborningur fær friðhelgi í umræðunni.
Óttast þingmenn að fara á bannlista RÚV ef þeir vekja máls á að ekki sé allt með felldu á Efstaleiti?
Föstudagur, 6. maí 2022
Trump, páfinn, Úkraína og heimsþorpið
Það er bein lína milli samsæriskenninga frjálslyndra og vinstrimanna að Pútín Rússlandsforseti hafi tryggt Trump sigur 2016 og stríðsvilja þeirra í Úkraínu.
Á þessa leið er greining fréttamannsins Tucker Carlson sem er með hvað mest áhorf fréttatengdra þátta í Bandaríkjunum. Hægt er að vera sammála eða ósammála þeim bandaríska, en kenningin er komin á flot.
Annað í bakgrunni greiningarinnar segir stærri sögu. Carlson sýnir myndbönd af heimsóknum bandarískra áhrifamanna til Selenskí forseta í Kænugarði. Stjórnmálamenn koma reyndar í flugvélaförmum til Kænugarðs að fá augnablik í sviðsljósinu, - svo það er ekki fréttnæmt.
Aftur er orðræða bandarísku stjórnmálamannanna áhugaverð. Þeir segja Úkraínu heyja stríð fyrir ,,okkur" og eiga við Bandaríkin/vesturlönd. ,,Við" erum heimsþorpið í stríði hið illa, sem Pútín er holdgervi fyrir.
Heimsþorpið er sú hugmynd að öll séum við af sama kyni. Gens una sumus, eins og það heitir í skáheiminum. Heimsþorpið er óopinbert slagorð alþjóðahyggjunnar.
Saga þorpsins hefst eftir síðustu ísöld þegar maðurinn lagði af veiðimennsku og hóf fasta búsetu. Sögur af þorpum, t.d. í Evrópu á miðöldum eða nýöld, geyma frásagnir um gyðingafjölskylduna í útjaðri þorpsins sem þurfti að grýta af því hún mengaði vatnsbólið. Einnig af gömlum konum, einstæðingum, sem varð að brenna fyrir galdra. Þorpið fóstrar með sér goðsagnir og trú á hindurvitni. Innan þorpsins takast á ólík öfl. Frægasta þorpið í fornöld, Róm, átti sína patríarka en líka plebba. Það er minnihluti, stundum í fleirtölu, og það er meirihluti, jafnan í eintölu.
Heimsþorp meirihlutans fær þörf fyrir illmenni, raunveruleg eða skálduð. Forsenda fyrir samheldni meirihluta heimsþorpsins er að eiga óvin og gera hann ómennskan.
Góðu heilli eru til einstaklingar í áhrifastöðum sem skipta ekki heiminum í rétt og rangt. Raunsæir vita að guð og djöflar eiga bústað í hverjum manni. Í hverju þorpi er bæði gott og illt.
Frans páfi í Róm fordæmir stríðið í Úkraínu. En hann spyr einnig: hvað var Nató að gelta við dyrastaf Rússa? Páfinn er til í að heimsækja Kænugarð. En fyrst vill hans heilagleiki sækja Pútín heim í Kreml.
Raunsær maður, Frans páfi. Enginn þorpari.
Fimmtudagur, 5. maí 2022
Blaðamenn hótuðu Páli skipstjóra og vinkonu hans
Í síma Páls skipstjóra Steingrímssonar var myndband af honum og konu sem hann átti vingott við eftir skilnað. Síma Páls var stolið fyrir ári að undirlagi RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, RSK-miðlum. Blaðamenn afrituðu öll gögn úr símanum. Skipstjórinn var meðvitundarlaus vegna byrlunar þegar símanum var stolið.
Páll kærði stuldinn 14. maí sl. ár. Eftir að lögreglurannsókn hófst gripu blaðamenn RSK-miðla til þess ráðs að hóta dreifingu á myndskeiði er sýndu atlot hans og ónafngreindrar konu.
Samkvæmt gögnum sem þegar hafa birst, vegna málarekstrar blaðamanna gegn lögreglu, verða blaðamennirnir ákærðir fyrir brot á friðhelgi einkalífs og að hóta birtingu á efni af kynferðislegum toga. Tilgangur hótunar blaðamannanna var að kúga Pál skipstjóra að falla frá kæru á símastuldi.
Að minnsta kosti fjórir blaðamenn RSK-miðla eru með stöðu grunaðra í lögreglurannsókn en líklega eru þeir fleiri. Þeir neita að mæta til yfirheyrslu. Það sem meira er: þeir þegja þunnu hljóði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðum. Það er af sem áður var.
Gögn sem birt voru fyrir héraðsdómi 23. febrúar sýna að lögreglan er með tölvupósta og símtöl blaðamanna RSK-miðla að leggja á ráðin um hvernig og hvenær yrði látið til skarar skríða gegn Páli og vinkonu hans. Blaðamenn og fjölmiðlar sem skipuleggja allsherjarárás á einkalíf fólks til að komast sjálfir undan réttvísinni er nýlunda, ekki aðeins á Íslandi heldur í sögu vestrænnar blaðamennsku.
Um áramótin birtist frétt í Stundinni, sem unnin var upp úr gögnum Páls. Tilgangur fréttarinnar var að vekja athygli skipstjórans á því að RSK-miðlar sætu á upplýsingum sem þeir myndu nota sæi skipstjórinn sig ekki um hönd og afturkallaði kæruna frá 14. maí.
En með atferli sínu grófu blaðamennirnir eigin gröf. Lögreglan var komin á sporið og fylgdist með aðgerðum þeirra að kúga Pál til að falla frá kærunni.
Blaðamennirnir, fjórir eða sex, og fjölmiðlar þeirra kaupa lögfræðiþjónustu í gríð og erg til að komast hjá skýrslutöku lögreglu. Þeir vita sem er að eftir skýrslutökuna verður þeim birt opinber ákæra og málið fer fyrir dómstóla. Í þeim málarekstri koma fram efnisatriði sem RÚV, Stundin og Kjarninn vilja ekki að vitnist. Blaðamenn og fjölmiðlar lifa á orðsporinu. Ef trúverðugleikinn fer í ruslflokk er úti um afkomuna.
Almenningur stendur í þeirri trú að blaðamennska og glæpaiðja sé ekki sama starfsgreinin. Dómsmálið yfir blaðamönnum RÚV, Stundarinnar og Kjarnans mun veita innsýn í óþekkta starfshætti fjölmiðla. Ekki verður það falleg sjón.
![]() |
Boðinn friður gegn því að draga í land |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 4. maí 2022
Kata Jakobs í bandarísk stjórnmál
Forsætisráðherra Íslands skellir sér í bandarísk stjórnmál með twitter-færslu á ensku. Tilefnið er væntanlegur úrskurður hæstaréttar í Washington um fóstureyðingar. Málið er enn í drögum, engin niðurstaða komin. En Katrín er komin á kaf í umræðuna. Í Bandaríkjunum.
Séð frá Íslandi er málefnið bandarískt innanríkismál. Engar líkur eru að réttur kvenna til fóstureyðinga í Bandaríkjunum skipti máli hérlendis. Ekki frekar en að bandarísk afstaða til kristni skipti máli á Fróni. Pólitískar hefðir eru ólíkar. Við sækjum fremur fyrirmyndir til Norðurlanda og Bretlandseyja en vestur um haf.
Ef bandarískur stjórnmálamaður skipti sér af íslenskum sérmálum þætti okkur það óviðeigandi og myndum biðjast undan slettirekunni.
Hvað rekur forsætisráðherra að taka afstöðu til bandarískra innanríkismála? Eru íslensk stjórnmál orðin svo ómerkileg að óþarfi sé að eyða orðum að þeim?
Ef rök Katrínar eru þau að henni renni til rifja möguleg skerðing á réttindum kvenna þar vestra hlýtur sú spurning að vakna hvers konur í múslímaríkjum eigi að gjalda. Mannréttindi múslímskra kvenna eru hartnær engin í samanburði við stöðu kynsystra þeirra á vesturlöndum.
Ekki fer vel á því að forsætisráðherra Íslands hagi sér eins og bandarískur aðgerðasinni. Nema að Katrín sé á frumlegan hátt að tilkynna brotthvarf úr íslenskum stjórnmálum, - og með augastað á frama innan þeirra bandarísku.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 3. maí 2022
Eitt ár frá byrlun Páls skipstjóra
Að kveldi 3. maí fyrir sléttu ári drakk Páll skipstjóri Steingrímsson örlagaríkan bjór á heimili sínu á Akureyri. Bjórinn var beiskari en skipstjórinn átti að venjast. Beiskjan var það síðasta sem hann mundi þennan maídag í fyrra.
Þegar Páll rankaði við sér nokkrum dögum síðar hafði hann legið á milli heims og helju. Börnum hans var sagt að ekki væri víst að hann kæmist lifandi úr öndunarvél.
Á meðan skipstjórinn var meðvitundarlaus var síma hans stolið. Samkvæmt fyrirfram skipulögðum aðgerðum var síminn afhentur í höfuðstöðvar RÚV á Efstaleiti. Þar var innihaldið afritað. Eftir það var símanum komið fyrir í pússi Páls.
Þegar Páll komst til meðvitundar vaknaði með honum grunur að ekki væri allt með felldu við símann. Við skoðun virtist hafa verið hringt úr símanum þá daga sem Páll var óvígur á sjúkrabeði. Páll veit sitthvað um tæknimál. Hann slökkti á símanum til að upplýsingar úr ferilsskrá tækisins eyddust ekki. Þann 14. maí fór Páll með símann til lögreglunnar og kærði. Síminn varð eftir hjá lögreglunni en skipstjórinn fékk sér annað símtæki.
Sex dögum síðar fékk Páll óvænt tvö símtöl með tíu mínútna millibili. Símtölin voru frá Þórði Snæ ritstjóra Kjarnans annars vegar og hins vegar frá Aðalsteini Kjartanssyni á Stundinni. Félagarnir voru með efni úr síma Páls til birtingar daginn eftir. Formsins vegna hringdu þeir í skipstjórann - til að geta sagt lesendum að fréttaefnið hefði verið borið undir fórnarlambið.
Fréttirnar í Kjarnanum og Stundinni eru keimlíkar enda settar saman eftir forskrift frá Efstaleiti. ,,Skæruliðadeild" er fyrirsögn beggja fjölmiðla. Ritstýring á fréttastofu RÚV miðaði við hávaða en ekki upplýsingagildi. Nú skyldi hlaða í bálköst á samfélagsmiðlum. Kjarninn og Stundin birtu það sem RÚV aflaði með byrlun og þjófnaði.
Samræmda atlagan að Páli skipstjóra þjónaði þeim tilgangi að koma höggi á Samherja. Reis reiðibylgja í samfélaginu, eins og til var stofnað. Samherji gaf út yfirlýsingu níu dögum eftir aðgerðir RÚV, Stundarinnar og Kjarnans (RSK-miðla) og baðst afsökunar á vörnum fyrirtækisins vegna umfjöllunar RSK-miðla um Namibíumálið svokallaða.
Páll skipstjóri baðst aldrei afsökunar. Enda hafði hann ekkert til að fyrirverða sig fyrir. Eina sem hann gerði var að gagnrýna blaðamenn fyrir fréttir er byggðu meira á óskhyggju en staðreyndum. Það má í lýðfrjálsu landi.
Byrlun og símastuldur er upphafið að lögreglurannsókn þar sem fjórir blaðamann að minnsta kosti eru sakborningar. Þeir eru á flótta undan réttvísinni, beita öllum brögðum til að mæta ekki í skýrslutöku hjá lögreglu. Það er efni í annað tilfallandi blogg.
Álitamál dagsins er aftur þetta: drekkur skipstjórinn enn bjór?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 2. maí 2022
Blaðamenn sem hóta málssókn
Blaðamenn, bæði á Fróni og erlendis, verða stundum fyrir hótunum um málssókn eða fá á sig stefnu vegna vinnu sinnar. Í frétt mbl.is er fyrirbærið útskýrt:
Svokallaðar Slapp-málsóknir (e. Strategic Lawsuits Against Public Participation), sem eru skipulagðar málsóknir gegn þátttöku almennings, eru oft styrktar af auðugum einstaklingum eða stórfyrirtækjum til að þagga niður gagnrýnisraddir í samfélaginu.
Blaðamenn ættu að fagna ef skorður eru reistar við ritskoðunartilburðum með slapp-málssóknum.
En sumir blaðamenn eru þannig innréttaðir að þeim finnst við hæfi að hóta málssókn þegar aðrir, t.d. tilfallandi bloggarar, segja frásögn sem blaðamenn vilja ekki að almenningur heyri.
Blaðamenn með þöggunartilburði hafa gefist upp á umræðunni og leita til dómstóla að rétta hlut sinn. Töpuð umræða breytist ekki í sigur með dómsmáli til þöggunar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 1. maí 2022
Hættulegar konur fá haturspóst
Rithöfundurinn J.K. Rowling skipulagði fund nokkurra hættulegra kvenna sem reglulega fá hatursfull skilaboð um að vera óalandi og óferjandi í mannlegu samfélagi. Blaðamaðurinn Suzanne Moore skrifaði fundargerð.
Hver er glæpur kvennanna? Hvers vegna eru þær hundeltar með hatursorðræðu? Jú, þær andmæla innreið karla í kvennarými undir formerkjum trans. More skrifar: kyn skiptir máli. Konur skipta máli. Kvennarými skipta máli. Kvennaíþróttir skipta máli.
Tvær kvennanna á fundinum, Maya Forstater og Kathleen Stock, hafa komið við tilfallandi sögu. Báðar misstu þær vinnuna fyrir að viðra þá skoðun að kyn er líffræðileg staðreynd, ekki hugarfóstur. Glæpurinn var ekki stærri.
Önnur kona, Abigail Shrier, bandarískur blaðamaður, hefur getið sér orð fyrir sömu sjónarmið og bresku konurnar.
Þeir sem hafa áhuga á trans-umræðunni ættu að slá upp sjónarmiðum og skoðunum hættulegu kvennanna. En svo má ábyggilega sleppa því og einfaldlega krefjast þess að hengja á hæsta gálga þann sem vogar sér að segja kynin tvö og að líffræði en ekki hugarfar ráði hver sé hvort kyn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 30. apríl 2022
Um hvað er barist í Úkraínu?
Rússar kalla stríðið í Úkraínu ,,aðgerð" til að frelsa rússneskumælandi borgara undan kúgun og áþján ríkisstjórnarinnar í Kænugarði, er höll sé undir nasisma. Að öðru leyti miðist aðgerðir Rússa við afvopnun, afnasistavæðingu annars vegar og hins vegar að Úkraína gangi ekki í hernaðarbandalag gegn Rússlandi - og er þar átt við Nató. Þetta er um það bil afstaða Rússa.
Úkraínumenn kalla meintar aðgerðir Rússa stríð, ef ekki þjóðarmorð, sem hófst með innrás 24. febrúar síðast liðinn.
Til að flækja málin er yfirstandandi aðgerð/stríð framhald af stjórnarbyltingu í Kænugarði á fyrri hluta árs 2014, fyrir átta árum, þegar forseta sem þótti hliðhollur Rússum var steypt af stóli með vestrænni aðstoð. Rússar tóku þá Krímskaga af Úkraínu. Rússneskumælandi aðskilnaðarsinnar í austurhéruðum landsins, sem kallast Donbass, höfnuðu yfirvaldi nýrra valdhafa í Kænugarði og fengu vernd frá Rússlandi.
Til að flækja málin enn frekar líta vesturlönd svo á að innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar sl. sé til marks um að þeir ætli sér að endurreisa rússneska keisaraveldið, sem stjórnaði Úkraínu, ef ekki sjálf Sovétríkin sem réðu yfir allri Austur-Evrópu og hálfu Þýskalandi eftir seinna stríð.
Það er sem sagt margt í mörgu, eins og kerlingin sagði.
Staðan núna er að rússneskur her sækir inn í suður- og austurhluta Úkraínu. Þar er barist nótt sem nýtan dag, með manntjóni beggja fylkinga og almennra borgara. Nató-ríkin senda vopn til Úkraínu en engan mannskap, nema kannski fáeina málaliða. Nató býr sig undir stærra hlutverk á alþjóðavettvangi, sbr. ræðu Liz Truss utanríkisráðherra Breta. Það gæti þýtt að Nató-hermenn yrðu þátttakendur með tilheyrandi stigmögnun átaka.
Ýmsar samsæriskenningar eru á floti um framhaldið. Til að gefa lesendum smjörþefinn kemur hér ein: Pólverjar eru áhugasamir að ná til sín vesturhéruðum Úkraínu, sem Stalín hirti af þeim í lok seinna stríðs. Pólsk hugmynd er að fara inn í héraðið í kringum borgina Lviv, þar sem íslenskur stórmeistari rekur banka, og ,,verja" svæðið frá stríðsátökum. Samsæriskenningin gerir ráð fyrir að Pólverjar fari inn í Úkraínu sem þjóðarher, en ekki Nató-her, en með vestrænu vilyrði. Á bakvið tjöldin verði gert samkomulag við Pútín um að Rússar fá austurhluta Úkraínu og hluta af svæðinu ofan Krímskaga gegn því að vesturhlutinn verði pólskur og þar með Nató-væddur. Afgangurinn af Úkraínu yrði hlutlaus og utan Nató. Þetta er samsæriskenning, vel að merkja, en lýsir óvissunni.
Burtséð frá pælingum er dagsatt að 9. maí nálgast. Í Rússlandi er þetta stórhátíðardagur, líkt og 17. júní Íslendingum. Dagurinn markar sigur yfir Hitler í seinna stríði. Fáar þjóðir keyptu þann sigur dýrara verði en einmitt Rússar.
Þeir sem telja sig vita eitthvað um rússneskt hugarfar fullyrða að í aðdraganda 9. maí muni Rússar gera eitthvað stórt í Úkraínu, til að fagnaðardagurinn standi undir nafni. Sömu heimildir staðhæfa að Úkraínumenn geri sitt ítrasta að spilla gleðinni, t.d. með árás á Transnistíu, rússneskumælandi sjálfsstjórnarhéraði í Moldavíu, vestur af Úkraínu. Borgin Ódessa er eins og lús milli tveggja nagla. Vestan er Transnistía, á áhrifasvæði Rússa, en austan er óvígur rússneskur her í Kherson-héraði. Falli Ódessa Rússum í skaut er Úkraína orðið landlukt, kemst hvergi að sjó. Í aðdraganda 9. maí gæti orðið hvellur á þessum slóðum.
Eðlilega spáir stjórnin í Kænugarði í frið þegar landið skreppur saman er heyrir undir gömlu víkingaborgina. Snilldargreining kemur frá ráðgjafa Selenskí forseta í viðtali við þýsku útgáfuna Die Welt. Hann er spurður um möguleika á úkraínskum sigri:
Það fer eftir því hvernig maður skilgreinir sigur [...] Sigurvegarinn er sá sem nær markmiðum sínum. Okkar markmið er að varðveita landsvæði sem tilheyrir okkur. Okkar markmið er að sýna að þjóð, sem telst sigruð, geti samt sem áður verið sterk.
Sterk þjóð en sigruð, sem sagt, í aðeins minna landi en hún átti fyrir rússnesku aðgerðina/innrásina 24. febrúar. Hljómar raunsætt, en ógerlegt í framkvæmd.
Ef Úkraínumenn lytu samstæðu ríkisvaldi og þyrftu ekki að hafa áhyggjur að innbyrðis ósamþykki eða afstöðu Nató væri sennilega hægt að semja fyrir hádegi. En ríkisvaldið í Kænugarði er veikt. Óvinurinn, Pútín, sameinar í stríði en sundrar í friði. Í ofanálag vill Nató að stríðið haldi áfram til að veikja rússneska herinn. Þegar margir í senn heimta blóð er langt í friðinn.
Stjórninni í Kænugarði eru allar bjargir bannaðar að semja frið. Rússum er fullkunnugt um þráteflið. Þeir segjast í Úkraínu berjast við síðnýlendustefnu Nató. Þann 9. maí gæti Pútín tekið af silkihanskann og gefið út stríðsyfirlýsingu. Við það yrði heimsfriðurinn í hættu. Hvorki meira né minna.
![]() |
Hvetja Pútín til að lýsa yfir stríði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 29. apríl 2022
Verðbólga: krónan betri en evran
Verðbólgan á Íslandi er 7,2%. Í stærsta hagkerfi Evrópusambandsins, Þýskalandi, er verðbólgan 7,4%. Á Íslandi er búist við að toppi verðhækkana sé náð. Þjóðverjar búast við stærra verðbólguskoti.
Á Íslandi er atvinnuleysi innan við 5 prósent en nálægt 7 prósentum á evru-svæðinu.
Krónan er betri en evran.
![]() |
Verðbólgan komin í 7,2% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)