Sunnudagur, 20. nóvember 2016
Ísland á bandarísku áhrifasvæði
Bandaríkjaher fékk aðstöðu á Íslandi í seinni heimsstyrjöld. Sumarið 1941 var gerður þríhliða samningur milli Íslands, Bandaríkjanna og Bretlands, sem hafði hernumið Ísland ári áður, um að Bandaríkjaher leysti breska setuliðið af hólmi.
Samningurinn sumarið 1941 er merkilegur í alþjóðlegu samhengi. Bandaríkin voru enn hlutlaus í stríði Breta við Þjóðverja, sem höfðu lagt undir sig alla Vestur-Evrópu og Noreg og Danmörku að auki. Stríð milli Bandaríkjanna og Þýskalands hófst ekki fyrr en eftir árás Japana, bandamanna Þjóðverja, á Perluhöfn í byrjun desember 1941.
Ísland komst með herverndarsamningnum 1941 undir bandarískt áhrifasvæði. Heimsókn Churchill forsætisráðherra Breta til Íslands í ágúst sama ár var táknræn viðurkenning að mesta flotaveldi Evrópu afsalaði sér áhrifum í þessum heimshluta til Bandaríkjanna.
Allt kalda stríðið, sem tók við af seinni heimsstyrjöld, var Ísland mikilvægur hlekkur í varnarkeðju vestrænu Nató-ríkjanna gegn útþenslu Sovétríkjanna. Eftir fall Sovétríkjanna myndaðist valdatómarúm á Norður-Atlantshafi. Bandaríkin töldu herstöðina í Keflavík óþarfa og lokuðu henni árið 2006.
Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, ræðir við Robert G. Loftis um brotthvarf Bandaríkjahers af Íslandi. Loftis var samningamaður bandarískra stjórnvalda gagnvart Íslandi. Í viðtalinu kemur fram sígilt sjónarmið stórvelda, að þau setja upp herstöðvar og loka þeim fyrst og síðast í þágu eigin hagsmuna. En jafnframt hitt að orðspor stórvelda skiptir máli. Ótímabær lokun Keflavíkurstöðvarinnar skaðaði orðspor Bandaríkjanna, sérstaklega gagnvart smáþjóðum sem treysta á vernd þeirra - t.d. Norðurlönd og Eystrasaltsríkin.
Ísland er enn á bandarísku áhrifasvæði. Helsta verkfæri Bandaríkjanna í öryggismálum Evrópu, Nató, stendur frammi fyrir óvissu í kjölfar valdatöku Donald Trump. Verkefni íslenskra stjórnvalda næstu árin er að lóðsa öryggishagsmuni okkar þannig að þau taki mið af pólitískum staðreyndum en skerði ekki fullveldi okkar til vinsamlega samskipta, t.d. við Rússland. Allra síst ættum við að leggja lag okkar við upplausnarástandið sem ber skammstöfunina ESB.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 19. nóvember 2016
Líkur á kosningum næsta vor
Jákvæður tónn er í viðræðum um fimm flokka ríkisstjórn. Ef tekst að halda þessum jákvæða tón út helgina og fram í næstu viku gætum við fengið yfir okkur sérkennilegustu ríkisstjórn seinni tíma.
Engar líkur eru á að fimm flokka ríkisstjórn haldi velli nema yfir bláveturinn. Í landinu er góðæri og flokkarnir fimm eiga marga munna að metta. Fyrir páska verður komið hallæri.
Ekki seinna en í maí 2017 göngum við á ný til þingkosninga.
![]() |
Það virkuðu allir mjög jákvæðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 19. nóvember 2016
Lygi vex með lausung
Net- og samfélagsmiðlar eru fjölmiðlabylting sem skellur á okkur um líkt leyti og samfélagssáttmáli síðustu áratuga er í uppnámi. Tvær lýðræðislegar hamfarir ársins 2016 færa okkur heim sanninn um að fjölmiðlabyltingin og rof samfélagssáttmálans leiða ekki til upplýstari umræðu heldur veldisvöxt lyginnar.
Í Brexit-umræðunni í Bretlandi smurðu bæði andstæðingar veru Bretlands í Evrópusambandinu og fylgjendur svo þykkt á staðreyndir að almenningur gat ekki með nokkru móti myndað sér hlutlæga skoðun. Engri hlutlægni var til að dreifa. Ýkjur og gróusögur um að Bretland yrði óþekkjanlegt, hvort heldur landið yrði áfram í ESB eða yfirgæfi sambandið, voru aðalréttirnir á matseðli umræðunnar.
Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum buðu upp á sömu umræðuna. Þar í landi er orðinn til heimilisiðnaður að afhjúpa lygar í fréttaflutningi. Sú skýring, að reglulegir fjölmiðlar standi sig ekki nógu vel að flytja sannar og hlutlægar fréttir, segir ekki nema hluta sögunnar.
Jonathan Freedland er dálkahöfundur vinstriútgáfunnar Guardian. Hann kennir linku vinstrimanna um Brexit og sigur Trump. Freedland segir vinstrimenn ekki nógu ósvífna í málflutningi sínum, þar hafi hægrimenn vinninginn. Hæpið er að þessi kenning standist. Skýring R.W. Johnson á sigri Trump í London Review of Books er meira sannfærandi. Nat Parry er líka með trúverðugri skýringu en Freedland.
Engu að síður er þeir margir, bæði til hægri og vinstri, sem telja nauðsynlegt að auka veg ýktra frétta, ef ekki beinna lyga, til að ná árangri í pólitískri umræðu.
Ástæðan fyrir því að ýkjur og lygar eiga jafn mikið upp á pallborðið og raun ber vitni er stóraukin eftirspurn. Net- og samfélagsmiðlar eru þrátt fyrir allt miðlar en ekki sjálfstæð uppspretta. Þeir sem fóðra miðlana, bæði hægri- og vinstrimenn, eyddu ekki fé og fyrirhöfn í framleiðsluna ef almenningur hlýddi ekki á.
Þegar grannt er skoðað hlýtur ástæða eftirspurnarinnar að vera sú að fólki finnst heimsmynd sín á hverfanda hveli. Fólk leitar eftir frásögnum sem staðfesta þá tilfinningu annars vegar og hins vegar bjóða upp á pólitískar lausnir. Heimsmynd kalda stríðsins og velferðarríkisins er liðinn. Tími frjálslyndis og stöðugs hagvaxtar er einnig liðinn. Við lifum á tímum lausungar og þar vex lygin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 19. nóvember 2016
ASÍ og þjófótta verslunin
ASÍ þjónar almannahagsmunum vel með verðlagseftirliti. ASÍ sýnir fram á að verslunin skilar ekki til neytenda styrkingu krónunnar. Viðskiptaráð er ósvífið verkfæri þjófóttrar verslunar og birtir ,,leiðréttingu" á niðurstöðum ASÍ.
Viðskiptaráð reynir að útskýra þjófnað verslunarinnar með vísun í launahækkanir. ASÍ svarar og bendir á launaliðurinn í versluninni er ekki nema 8 til 13 prósent.
Niðurstaða: verslunin stelur af neytendum með því að lækka ekki vöruverð til samræmis við styrkingu krónunnar - að teknu tilliti til launahækkana.
![]() |
Sterkt gengi ekki skilað sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 18. nóvember 2016
Samfylkingin í fjármálaráðuneytið
Í ríkisstjórn vinstriflokkanna gæti Samfylkingin fengið fjármálaráðuneytið. Færi svo yrðu Samtök fjármálafyrirtækja hoppandi kát enda nýr framkvæmdastjóri þeirra enginn annar en fyrrverandi fjármálaráðherra, Katrín Júlíusdóttir, sem þartil fyrir skemmstu var þingmaður Samfylkingar.
Katrín er núna hluti af baklandi Samfylkingar. Komist Samfylking í ríkisstjórn verður baklandið lifandi sem aldrei fyrr, jafnvel þótt um örflokk sé að ræða með 5,7 prósent fylgi.
Katrín gæti reynst nýjum vinnuveitendum sínum gulls ígildi. Samtök fjármálafyrirtækja ,,byggja upp heilbrigt og traust fjármálakerfi", eins og alþjóð veit. Á tímum útrásar höfðu samtökin forgöngu um gengistryggð lán, sem síðar reyndust ólögleg, og lögðust jafnframt á árarnar við að gera Íslendingum kleift að opna bankareikninga í útlöndum, til dæmis í Panama.
Katrínu er óskað velfarnaðar í starfi.
![]() |
Katrín ráðin framkvæmdastjóri SFF |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 18. nóvember 2016
Stjórnarmyndun er minnsta málið - baklandið er hættan
Stjórnmálaflokkar eru með sitt bakland, bæði formlegt s.s. flokksstofnanir og óformlegt sem eru ýmsir hópar með ítök - flokkseigendur, áhugahópar um afmörkuð málefni, hagsmunasamtök og svo framvegis.
Þingmenn styðjast við baklandið til að ná sæti á flokkslistum. Þegar þingmaður verður ráðherra er hann með tvöfalt bakland á herðum sér, sitt eigið, sem tryggir honum stöðu innan flokksins, og bakland flokksins í heild.
,,Nú getum við," er algengt viðhorf baklandsins þegar búið er að tryggja völdin með ríkisstjórnarþátttöku. Þá koma fram hverskyns kröfur um að þetta eða hitt málið fái þessa eða hina afgreiðsluna.
Ef baklandið fær ekki sitt er hætta á uppreisn og þá er staða viðkomandi flokks/þingmanns/ráðherra í uppnámi. Stjórnmálaflokkar læra af reynslu að finna jafnvægi milli almannahagsmuna og sérmála baklandsins. Að ímynda sér að nýir og óheflaðir flokkar eins og Píratar og Viðreisn séu þar í sömu stöðu og stjórnmálaflokkar sem eru eldri en lýðveldið er ekki stjórnmálafræði heldur lísu-í-undralandifræði.
![]() |
Telur að fimm flokka stjórn gæti náðst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 18. nóvember 2016
Jæja-Katrín og fúll á móti
Andófsflokkarnir fimm sem þykjast ætla smíða ríkisstjórn eiga eitt sameiginlegt: að vera á móti.
Viðreisn var búin til af fáeinum sjálfstæðismönnum sem urðu undir á landsfundi. Píratar eru mótamælahreyfing eftirhrunsins. Björt framtíð er afgangurinn af brandaraandófi Besta flokksins. Slagorð Samfylkingar er ,,ónýta Ísland". Vinstri grænir urðu til vegna þess að Steingrímur J. og Ögmundur höfnuðu hjónasæng Samfylkingar um aldamótin.
Andófsfólk gengur fyrir mótmælum, samanber uppákomur á Austurvell síðustu tvö kjörtímabil. Ein þau fáfengilegustu voru jæja-mótmælin, sem voru til þess eins að hittast við styttu Jóns Sigurðssonar og sýna fram á ,,áhrifarík mótmæli". Enginn málstaður, aðeins mótmæli.
Mótmælendur kunna ekki að stjórna; innsta eðli þeirra er að vera á móti. Þeir neita málamiðlunum enda sjaldnast hægt að henda reiður á hverju þeir eru fylgjandi. Fúll á móti getur ekki stjórnað, ekki einu sinni sjálfum sér hvað þá öðrum.
Katrín Jakobsdóttir er varla með svo lága pólitíska greindarvísitölu að hún haldi að fimm flokka mótmælastjórn lifi lengur en fáeina mánuði. Líklegast er að fimm flokka sýningin sé leikrit fyrir jæja-fólkið. Mótmælin liggja í loftinu og vinstriflokkarnir verða að gera eitthvað. Bara eitthvað.
![]() |
Bjartsýn en líka raunsæ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 17. nóvember 2016
Nató er í tilvistarkreppu sem bitnar á ESB
Bandaríkin og Evrópusambandið munu ekki halda áfram útþenslu í Austur-Evrópu. Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, fékk engin atkvæði út það gera Úkraínu að bandarísku áhrifasvæði. Bandarísk innanríkismál verða í forgangi Trump.
Ráðamenn í Evrópusambandinu veðjuðu á að útþensla í Austur-Evrópu myndi styrkja ESB. Hugsunin var að sameiginlegur óvinur, Rússland, myndi efla samstöðu ESB-ríkja. Útganga Breta, Brexit, og kjör Trump rústar þeirri von, eins og Ana Palacio, fyrrum utanríkisráðherra Spánar útskýrir.
Útþensla Evrópusambandsins í Austur-Evrópu var einnig valdefling Nató, sem skorti tilgang eftir lok kalda stríðsins fyrir aldarfjórðungi. Fyrrum starfsmaður bresku leyniþjónustunnar, Annie Machon, rekur skilmerkilega vandræðin sem Nató er komið í við landamæri Rússlands.
Bretland er með næst stærsta her ESB-ríkja. Útganga þeirra ásamt kjöri Trump, sem ætlar ekki að fjármagna Nató eins og hingað til, en Bandaríkin borga 70% af rekstrinum, girðir fyrir alla vaxtarmöguleika hernaðarbandalagsins. Og það er gott fyrir heimsfriðinn.
![]() |
Kjör Trump ekki endalok NATO |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 17. nóvember 2016
Málefni með 5,7% fylgi í ríkisstjórn
Samfylkingin var 0,8 prósentum frá því að þurrkast út af þingi fyrir þrem vikum. En næsta ríkisstjórn gæti orðið Samfylkingarstjórn. Samkvæmt orðum formanns 5,7 prósent flokksins:
Samfylkingin er til í að taka þátt í fimm flokka stjórn, segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Hann segir að ef málefni sem flokkurinn leggur áherslu á fá inni í slíku samstarfi sé flokkurinn til í stjórnarsamstarf.
Vinstristjórnin verður sem sagt ekki að veruleika nema málefni Samfylkingar verði í forgangi.
Jamm.
![]() |
Hreinskipt og gott samtal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 17. nóvember 2016
Pútín-fóbían og múslímskar miðaldir
Pútín-fóbían er ríkjandi viðhorf í valdamiðstöðvum vesturlanda í Washington, Brussel, London og Berlín. Fóbían gefur sér að Rússland sé á útþensluskeiði þegar sannleikurinn er sá að vesturlönd, með Nató sem verkfæri, eru frá falli Sovétríkjanna búin að raða upp herstöðvum við vesturlandamæri Rússlands.
Pútín-fóbían kemur í veg fyrir bandalag vesturlanda og Rússlands til að stemma stigu við ófriðarbálinu í miðausturlöndum. Í löndum múslíma er félags- og hagkerfi sem líkist helst því sem tíðkaðist í Evrópu á miðöldum.
Evrópa logaði í ófriði frá miðöldum og fram yfir frönsku byltinguna þegar hún tók stökkbreytingum og hristi af sér samfélagsgerð sem var úr sér gengin. Miðausturlönd eru í sömu sporum.
Enginn veit hvað kemur út úr fárinu sem nú geisar í miðausturlöndum. Hitt er augljóst að áratugir munu líða áður en friður kemst á og múslímski menningarheimurinn finnur nýtt jafnvægi.
Samfélagsgerðir vesturlanda og Rússlands eru sprottnar úr sama jarðvegi. Náttúrulegt bandalag ætti að vera á milli þessara aðila um að takmarka þann skaða sem ófriðurinn í miðausturlöndum veldur. En Pútín-fóbían kemur í veg fyrir þróun eðlilegra samskipta vesturlanda og Rússlands.
![]() |
Ráðleggja Trump frá því að viðurkenna innlimun Krímskaga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)