Stjórnarmyndun er minnsta málið - baklandið er hættan

Stjórnmálaflokkar eru með sitt bakland, bæði formlegt s.s. flokksstofnanir og óformlegt sem eru ýmsir hópar með ítök - flokkseigendur, áhugahópar um afmörkuð málefni, hagsmunasamtök og svo framvegis.

Þingmenn styðjast við baklandið til að ná sæti á flokkslistum. Þegar þingmaður verður ráðherra er hann með tvöfalt bakland á herðum sér, sitt eigið, sem tryggir honum stöðu innan flokksins, og bakland flokksins í heild.

,,Nú getum við," er algengt viðhorf baklandsins þegar búið er að tryggja völdin með ríkisstjórnarþátttöku. Þá koma fram hverskyns kröfur um að þetta eða hitt málið fái þessa eða hina afgreiðsluna.

Ef baklandið fær ekki sitt er hætta á uppreisn og þá er staða viðkomandi flokks/þingmanns/ráðherra í uppnámi. Stjórnmálaflokkar læra af reynslu að finna jafnvægi milli almannahagsmuna og sérmála baklandsins. Að ímynda sér að nýir og óheflaðir flokkar eins og Píratar og Viðreisn séu þar í sömu stöðu og stjórnmálaflokkar sem eru eldri en lýðveldið er ekki stjórnmálafræði heldur lísu-í-undralandifræði. 

 


mbl.is Telur að fimm flokka stjórn gæti náðst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Páll, þessi greining þín brýtur greinilega í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar að "Alþingismenn eru eingögngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum."
Ekki er það eftirsóknarvert hlutverk þingmanns að þurfa að glíma við "þríhöfða"; flokksstjórnina, kjósendur og sjálfan sig!

Kolbrún Hilmars, 18.11.2016 kl. 14:32

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Jú, Kolbrún, greiningin gerir ráð fyrir að alþingismenn glími við fleira en samviskuna þegar þeir taka ákvarðanir. Greiningin byggir á reynslu höfundar af stjórnmálastarfi. En stjórnarskráin er engu að síður með fallegan og brýnan boðskap.

Páll Vilhjálmsson, 18.11.2016 kl. 14:39

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er þarfur pistill um mál, sem sjaldan er krufið til mergjar. Við búum við fulltrúalýðræði, sem á að tryggja að vilji kjósendanna nái fram að ganga. 

En vegna þess að skoðanir eru skiptar og meirihlutinn ræður, verða ævinlega til hópar kjósenda, sem verða að sætta sig við það að gerðar séu málamiðlanir eða jafnvel að hverfa frá ákveðnum atriðum, í bili að minnsta kosti. 

Sem dæmi má nefna stórt og mikið bakland herstöðvaandstæðinga og andstæðinga NATO-aðildar Íslands í Alþýðubandalaginu sem varð að sætta sig við það að aðalmál þeirra náði aldrei að komast í framkvæmd í ríkisstjórnum frá 1956 til þessa dags.

Þingmenn verða því að sannfæra bakland sitt um að málamiðlun sem feli í sér meira eða minna fráhvarf frá óskaðri stefnu í einstökum málum, sé illskárri en að lenda utan stjórnar.

Ég hef heyrt því lýst að eitthvert ömurlegasta hlutverk sem stjórnmálamaður geti lent í, sé að vera þingmaður í stjórnarandstöðu.  

Ómar Ragnarsson, 18.11.2016 kl. 15:03

4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Hjá Pírötum er það baklandið sem ræður afstöðu fulltrúa/talsmanna. Þangað sækja fulltrúar umboð sitt.Þetta er held ég skýringin á tregðu Pírata til að taka þátt í ríkisstjórnarmyndun núna. En án þeirra verða Vinstri Grænir að semja við Sjálfstæðismenn og það verður erfiður biti að kingja fyrir "baklandið" 

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 18.11.2016 kl. 15:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband