Steingrímur J. fattar allt, nema aðalatriðið

Steingrímur J. kom feikilega vel undirbúinn í Kastljósviðtalið í kvöld og þuldi upp lögfræðisamanburð á gjaldþrotalögum aðskiljanlegra Evrópuríkja. Taugaveiklað fitl við minnisblöð var eina vísbendingin um að fjármálaráðherra væri ekki rótt. Eftir lögfræðirulluna kom Steingrímur J. með stórskotaliðið: Hvað haldiði að gerist í haust ef við samþykkjum ekki frumvarpið? Bretar og Hollendingar koma sækja á tryggingasjóðinn...

...og fjármálaráðherra botnaði ekki hótunina. Mælskumeistari þingsins ætlaði áhorfendum að draga sínar ályktanir. Og niðurstaða hnípinnar þjóðar í vanda væri að leggja upp laupana og treysta orðheldna ráðaherra sínum.

En bíðum við. Hvað myndi í raun gerast ef gengið yrði á sjóðinn sem á tryggja innistæður? Jú, hann er galtómur og yrði lýstur gjaldþrota. Og þá opnast ótal pólitískar og lagalegar spurningar um götótt regluverk Evrópusambandsins.

Við vorum þvinguð í ferli Icesave-samninga þegar bankakerfi Evrópu riðaði til falls. Eins og flokkssystir Steingríms J., Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sagði sem utanríkisráðherra í þarsíðustu stjórn var lausn Icesave-reikninganna nátengd spænskum og frönskum sparifjáreigendum.

Aðstæður eru breyttar í dag. Við eigum að fella frumvarp Steingríms J. og semja upp á nýtt. Fjármálaráðherra veit að það þýðir endalok ráðherradómsins og líklega fær hann ekki þann frama í nýja flokknum sínum, Samfylkingunni, sem hann hafði í þeim gamla. Það skýrir taugaveiklunina.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta viðtal Sigmars í kastljósinu við Steingrím J. var pínlegt fyrir fjármálaráðherrann. Hann reyndi sitt besta að mæta vel undirbúinn til leiks. Hafði lagt gamla uniforminu og kominn í svört jakkaföt og hvíta skyrtu. Það fór Steingrími ekki vel. Tweed jakkinn er betri.

Viðtalið allt var ein hörmung fyrir fjármálaráðherrann. Hann talaði löngum stundum eins og hann væri blaðafulltrúi breskra og hollenskra sparífjáreigenda. Ef fjármálaráðherra ætlar að gæta hagsmuna skattborgaranna jafn vel í öðrum málum og hann er að gera í þessu, þá getur fólk alveg eins hent sparibauknum í ruslatunnuna. Þá er þetta búið mál.

Óttaglampinn og vonleysið skein úr augum Steingríms. Hann var engan veginn sannfærandi í sínum rökum. Þetta var allt í þessum

"ef við samþykkjum ekki, verður allt ónýtt  og hvað þá?"

Stílnum. Það vantar alla röggsemi í manninn. Ég treysti honum ekki. Þessi ríkisstjórn þarf öll að fara frá. Það þarf utanþingsstjórn og það strax áður en fólkið í landinu hlýtur meiri skaða af en orðið er af því fólki sem er að stjórna landinu í dag. Það er engan veginn starfi sínu vaxið.

joi (IP-tala skráð) 6.8.2009 kl. 22:36

2 Smámynd: hilmar  jónsson

Já, það var óneitanlega meiri reisn yfir Geir Harde Jarmandi: Guð blessi Ísland..

hilmar jónsson, 6.8.2009 kl. 22:39

3 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Þú segir semja upp á nýtt.  Ef við viljum minni afborganir og takmarkaða ríkistryggingu hvað heldur þú að Bretar og Hollendingar fari fram á?

1.  Þeir geta neitað og eða dregið að endursemja sem setur AGS lánin í stopp

2. Þeir fara fram á hærri vexti og styttri lánstíma

3. Þeir geta hótað viðskiptaþvingunum

Það er ekki gefið að við hljótum betri samning ef við endursemjum. 

 Svo má ekki gleyma að Steingrímur væri ekki í þessari stöðu ef stjórnmálamenn hinna flokkanna hefðu staðið sig á vaktinni síðustu 10 árin eða svo!

Björgunaraðgerðum verður ekki stjórnað af hugsjón!

Andri Geir Arinbjarnarson, 6.8.2009 kl. 22:57

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Steingrímur er pragmatískur valdastjórnmálamaður og spilar þessa skák.

Jóhanna er orðin öldruð og ræður á engan hátt við verkefnið sem hún skilur heldur ekki til fulls. Í Samfylkingunni er enginn kandídat augljós valkostur og þessi stóri flokkur er í raun ráðvilltur og  höfuðlaus flokkur sem hefur eitt svar við öllum vandamálum þ.e. ESB.

Sigurður Þórðarson, 6.8.2009 kl. 23:03

5 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Í dag er allt önnur staða uppi en þegar samningaferlið hófst. Afborganir eiga skv. fyrirliggjandi samningi að hefjast eftir sjö ár þannig að það er ekki eins og aðilar séu í tímahraki.

Ef Alþingi hafnar frumvarpinu en samþykkir jafnframt að semja upp á nýtt er harla ólíklegt að diplómatísk stórstyrjöld skelli á landi og þjóð. Sú kenning er hræðsluáróður fyrir ónýtum samningi.

Páll Vilhjálmsson, 6.8.2009 kl. 23:12

6 Smámynd: Jón Árni Bragason

Það er alveg merkilegt hvað menn nota hótanir og fortíðina til þess að fela sig á bakvið. Andri Geir segir að aumingja Steingrímur sé í þessari stöðu vegna þess hvernig fór og það var ekki honum að kenna. Umræðan snýst ekki um það hvernig fór eða hverju var að kenna, það er sérstakt umræðuefni; umræðan snýst um hvað er verið að gera NÚNA, hvernig þessi samingur er sem komið var með.

Svo talar Andri Geir um hótanir. Bretar og Hollendingar gætu hótað hærri vöxtum. ESB gæti hótað viðskiptaþvingunum. Þeir geta neitað að semja.

Og?

Við getum boðið Rússum og Kínverjum til viðræðna um herstöð á Keflavíkurflugvelli til 25 ára fyrir gjald. Við höfum áður tekið gjald fyrir aðstöðu þar. Það gjald gæti nægt til að borga Icesave nokkrum sinnum. Ég er ansi hræddur um að Bandaríkjamenn og þá jafnvel ESB sem vill verða stórveldi myndu hugsa sinn gang.

Þeir neita að semja og við myndum óska eftir því að málin færu fyrir dómstóla. Það hugnast ESB ekki vegna þess að lögin halda ekki vatni þegar heilt bankakerfi fellur. Við eigum líka spil á borðunum ef við bara þorum að nota þau.

En við getum ekki notað þau ef tilgangurinn með þessu öllu er að vonast til þess að komast skríðandi inn í ESB. Er það ekki bara mergur málsins alls?

Jón Árni Bragason, 6.8.2009 kl. 23:30

7 Smámynd: hilmar  jónsson

Það er ekkert harla ólíklegt Páll að diplómatísk styrjöld skelli á ef við drögum lappirnar.

Það liggur fyrir að margir virtir erlendir stjórnmálagreinendur hafa varað okkur sérstaklega við því..

hilmar jónsson, 6.8.2009 kl. 23:30

8 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Hverjir hafa varað okkur við, Hilmar?

Páll Vilhjálmsson, 6.8.2009 kl. 23:34

9 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Vanlíðan Steingríms í þessu viðtali, smitaðist út til áhorfenda, þannig að manni fór að líða verulegu illa fyrir hans hönd.

Á hinn bóginn er það farið að þreyta svolítið, hvernig hann sífellt og endalaust stagast á því "fórnarhlutverki" sem hann vinnur dag og nótt til að bjarga Íslandi.  Held að ekki nokkur lifandi sála velkist í vafa um þá gífurlegu ábyrgð sem fyrrverandi stjórnarflokkar bera á þessu hruni, svo Steingrímur þarf ekki að grípa í það, þegar einhverjir gagnrýna störf hans.

Fyrirspyrjandi í Kastljósi (sorry man ekki nafnið) stóð sig prýðilega í því að endurspegla það sannfæringaleysi Íslendinga fyrir því að Steingrímur sé að vinna fyrir þá en ekki Breta og Hollendinga.

Það er ekki heldur sannfærandi að "gamli refurinn" sé nú allt í einu að verja gjörðir fyrrverandi forsætisráðherra, sem samþykkti eitthvað undir gífurlegu andlegu álagi og nauðung (byssukjafti).  Lögfræðin hefur höfnunarákvæði fyrir þess konar þvingunarsamningum og ef allt blífur má lýsa stundarbrjálæði stjórnvalda þegar þeir samþykktu þetta.

Hefði viljað sjá svipuð varnarviðbrögð hjá honum og Jóhönnu í þessu máli eins og Eva Joly sýndi í frábærri grein í s.l. viku.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 7.8.2009 kl. 00:07

10 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Nákvæmlega kæri Páll. Steingrímur J'udas greypti einmitt á kýlinu.

Samþykkjum enga ríkisábyrgð á samninginn og gerum Sva var og er afturreka með hann. Þá fer eins og Steingrímur sagði einmitt í viðtalinu að Bretland og Holland munu stefna okkur. FÍNT ! Þá fæst úr þessu skorið fyrir dómi. Það er það sem þarf.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 7.8.2009 kl. 00:13

11 identicon

Andri Geir.  Svo geta þeir gert hernaðarárás á landið.

Þetta endalausa útburðarvæl í Stengrími um að menn eiga ekki að vera svona vondir að gagnrýna hann og alla frábæru samningamennina sem færðu okkur "glæsilega" landráðssamninginn, er komið út úr korti að hálfa væri nóg.  Er ekki augljóst að þeir hafa staðið sig hörmulega?  Hálfur þátturinn fór í endurtekið röflið, sem Sigmar hefði átt að stoppa strax þegar hann byrjaði í annað sinn.  Hann var alltof linur með að láta hann komast með að þæfa umræðuna í einhverjum tilgangslausum málalengingum á einhverju sem skipti ekki neinu máli.  Hann kann öll skítatrikkin.

 Mér leið á köflum eins og Sigmar væri að misþyrma fötluðu gamalmenni í hjólastól, og var jafnvel farinn að vorkenna raðlygaranum og atkvæðaþjófinum.  Það hvarf strax aftur þegar hann fór að kenna mér og mínum að bera ábyrgðina á IceSave glæpastarfseminni sem og öllum hinum.  Ég er einfaldlega búinn að fá nóg af slíkum ásökunum stjórnarliða. 

Ábyrgðina bera nokkrir þrælskipulagðir glæpamenn, sem hafað keypt sér aðgang að flestum ef ekki öllum stjórnmálamönnum landsins og fjármagnað spillingarflokkana.  Helmingaskipti stjórnarflokka hvers tíma hefur alltaf gillt og alsskonar klíku og sóðaskapur.  Líka þegar Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið hafa verið á stýrinu.  Spilling stjórnmála var ekki fundin upp um síðustu aldamót.  Hvers vegna vilja menn gera stjórnarandstöðuna algerlega stikfría varðandi alla ábyrgð?  Er hennar hlutverk ekki líka að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar?  Er hún ekki með sína fulltrúa meira og minna í öllum nefndum þingsins?

Ég og mínir, frekar en nánast öll þjóðina, berum ekki neina ábyrgð á þessum hörmungum.  Það gerir afturámóti stjórnmálalýðurinn og kostendur þeirra.  Þar er Steingrímur örugglega ekki undanskilinn.

Hlakka til viðbragða lögfræðinganna með Ragnar Hall í farabroddi eftir útreiðina sem jarðfræðingurinn veitti þeim og lögfræðikennsluna, þó varla geta þeir verið margir sem hafa keypt þetta bull í honum.  Enda ekki nema 4% þjóðarinnar jafn blind og hann hvað IceSave varðar.  Guði sé lof.

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 01:17

12 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Steingrímur sagði bara frá staðreyndum málsins.  Raunveruleikanum.

Merkilegur stjórnmálamaður.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 7.8.2009 kl. 01:32

13 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Ég var að horfa á Steingrím í Kastljósinu núna í endursýningu. Mér finnst Steingrímur hafa vaxið af starfi sínu sem fjármálaráðherra.

Ég er ekki sammála honum almennt í pólitík en mér finnst hann hafa hafa tekið á IceSave málinu af festu og raunsæi. Við verðum að hafa í huga að gagnrýnendur hans sumir hverjir sjá IceSave sem verkfæri til að koma stjórninni frá völdum og láta sig þá engu skipta þó að heildarkostnaður þjóðarinnar af því að hafna IceSave sé mun hærri en að samþykkja.

Finnur Hrafn Jónsson, 7.8.2009 kl. 01:34

14 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Ég hafði miklar efasemdir um Steingrím og Jóhönnu fyrir kosningar.  Það er kostuleg staða sem ég er kominn í.  Ég gagnrýndi Steingrím og VG harðlega fyrir kosningar á móti flestum hér í bloggheimum en nú hefur taflið snúist við.

Það er ekki hægt að stjórnar björgunaraðgerðum út frá hugsjón einni saman.  Að halda því fram er barnalegt.  Það verður einhver að taka af skarið  og fást við raunveruleikann eins og hann er en ekki eins og við vildum hafa hann.  

Ég segi "sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum"  Eru betri og hreinni menn í hinum flokkunum.  Ef svo er, hvað heita þeir?

Andri Geir Arinbjarnarson, 7.8.2009 kl. 07:13

15 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Ámátlegt kattarvæl sem ég og aðrir erum orðin þreytt á. Steingrímur er ennþá að reyna að klína ábyrgðinni af þessum samningi yfir á fyrri ríkisstjórn. Sú ríkisstjórn sá ágætlega um sín klúður en þetta er alfarið Steingríms. Vonlaus og illa skipuð samninganefnd sem gerði ein stærstu mistök Íslandssögunnar. Þetta var maður sem er farinn að átta sig á að þjóðin mun aldrei kyngja þessum samningi. Það er fyrir neðan virðingu Steingríms og félaga að reyna að upplýsa eina menntuðustu þjóð heims um að þetta sé góður samningur. Þeir þurfa að fara að sætta sig við að þessi samningur fer aldrei í gegn óbreyttur.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 7.8.2009 kl. 07:57

16 identicon

Rakst á þetta hér í athugasemdum við blogg Bjarnar Harðar:

Margrét Tryggvadóttir Borgaraflokksþingmaður og fulltrúi flokksins í fjármálanefnd, var að lýsa því í útvarpsviðtali að því meira sem hún kynnir sér IceSave samninginn því verra lítur hann út, sem og því meira kæmi í ljós hversu gróflega samtengdur hann er EBS inngöngunni og beinum afskiptum AGS sem augljóslega er notaður af Bretum og Hollendingum sem innheimtustofnun þeirra.

Jafnframt að formaður fjármálanefndarinnar, Guðbjartur Hannesson Samfylkingarmaður, fari með staðlausa stafi þegar hann fullyrti um helgina í fjölmiðlum að Bretar og Hollendingar geti ekki gengið að auðlindum þjóðarinnar og ríkiseignum ef að ekki tekst að standa við gerðan samning. Það eina sem hægt væri að túlka í þá áttina sagði hún er að mögulega geti þeir ekki gengið að eignum ríkisins sem væru ekki lífsnauðsynlegar þjóðinni til að þjóðfélagið gæti starfað áfram.

Hún sagðist vera sannfærð um að samningurinn hafi verið tilbúinn fyrir kosningar, enda hefur allur farsinn í kringum hann þess eðlis og að hann hafi verið gerður á 2 dögum svo með eindæmum, að hálfa væri nóg. Allt bendir til að hann hafi verið gerður einhliða af Bretum og íslenska samninganefndin (sem hafði ekki neina reynslu af alþjóðasamningsgerð ef mér skjátlast ekki?) samþykkt hann í algeri undirgefni, enda með ordrur um að þeim væri ekki heimilt að hafna honum.

Grútur (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 10:33

17 identicon

Er ekki "aðalatriðið" að Samninganefnd ríkisstjórnarinnar gerði samning fyrir hönd hennar og okkar þjóðarinnar við deiluaðila okkar um Icesave málið?

Er það ekki ríkisábyrgðin á efndum samningsins, frekar en samningurinn sjálfur sem, formlega séð , er til umfjöllunar í Alþingi?

Auðvitað er þjóðin reið, æst og í uppnámi en ef það er rétt hjá Öddu Þorbjörgu að við séum "ein menntaðasta þjóð í heiminum"  ættum  við þá ekki að nota skynsemina frekar en tilfinningarnar til að  nálgast vandann?

Mér finnst fráleitt að gagnrýna fjármálaráðherrann fyrir að hafa komið "feikilega vel undirbúinn í Kastljósviðtalið .." Mér finnst það gæti hugsanlega sýnt meiri virðingu fyrir  fjölmiðlum lýðveldisins og notendum þeirra en við erum vön  af valdhöfum okkar.                                                                 Mér fannst ráðherrann vera að reyna að  útskýra vandann sem við þjóðinni blasir í dag í sambandi við Icesave innistæðureikningana og aðdraganda málsins. Mér fannst hann tala "mannamál". vera rökfastur, kurteis og varkár í dómum sínum um ábyrgð annara á stöðu okkar í dag.

Við getum sjálfum okkur kennt um hvar við erum stödd  og verðum sjálf að "skafa skítinn á milli axlablaðanna".

Agla (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 13:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband