Tvísvindlað á þjóðinni

Samfylkingin og þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem vilja keyra Ísland hraðleið inn í Evrópusambandið ætla að tvísvindla á þjóðinni. Fyrra svindlið var bankahrunið og aðdragandi þess. Svindlið fólst í því að framkvæmdavaldið, þ.e. ríkisstjórnin og eftirlitsstofnanir, leyfðu auðmönnum að fara á svig við reglur og stunda fjárplógsstarfsemi handan heilbrigðra viðskiptahátta. Í skugga bankahrunsins er ætlun sumra að blekkja okkur til að trúa að lausn efnahagsvandans sé að segja okkur til sveitar hjá Evrópusambandinu. Það er seinna svindlið.

Nær allir sem látið hafa í ljós skoðun á aðild að Evrópusambandinu, bæði þeir sem eru með og á móti, eru sammála um að innganga sé stærsta pólitíska álitamál sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir í áratugi.

Af þeirri staðreynd er sú ályktun nærtæk að umræða og aðdragandi aðildarumsóknar sé ekki í skugga stærstu fjármálakreppu sem dunið hefur á þjóðinni.

Sanngjörn og eðlileg krafa er að almennar þingkosningar fari fram áður en aðildarumsókn er send til Brussel. Í þingkosningum og aðdraganda þeirra, þegar framboð eru ákveðin og raðað á lista, fer fram pólitísk umræða um landsins gagn og nauðsynjar.

Þeir sem áhuga hafa á inngöngu, einstaklingar, félög og pólitískt samtök, geta í þingkosningum aflað fylgis við málstaðinn.

Við síðustu kosningar, fyrir hálfu öðru ári, var enginn stjórnmálaflokkur með ESB-aðild í forgrunni. Aðeins Samfylkingin getur vísað til texta um að Ísland ætti að huga að aðild. Í kosningabaráttunni sjálfri dró flokkurinn í land með þeim orðum formannsins, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, að fyrst enginn annar flokkur vildi aðild væri til lítils fyrir Samfylkinguna að setja aðild á dagskrá.

Í lok janúar hefst landsfundur Sjálfstæðisflokksins þar sem tekin verður afstaða til hugmynda um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þótt einstakir þingmenn iði í skinninu að kveikja evrópubál í íslenskum stjórnmálum, til að þurfa ekki að ræða afleiðingar bankahrunsins, verður því ekki trúað að stjórnmálaflokkur með sögu og arfleifð Sjálfstæðisflokksins gangi fyrir björg.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

Þinn flokkur bauð upp á bankahrunið. Takk fyrir það. Þinn flokkur býður upp á tvöfalt svindl. Þinn flokkur er að klofna. Sjálfstæðisflokkurinn er ábyrgur fyrir öllu ruglinu. Samkvæmt því mun hann að spinga í loft upp á landsfundinum í janúar.  Verður ekki allt í beinni? Ég hlakka til!

Björn Birgisson, 29.12.2008 kl. 00:51

2 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

þakka þér góðan pistil. Það væri í raun níðingsverk að draga þjóðina inn í ESB við þessar aðstæður. Hef ekki verið sérlega andsnúin inngöngu en það er MJÖG vitlaust að huga að inngöngu NÚNA.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 29.12.2008 kl. 01:11

3 identicon

Gísli: Kannanir sem ég hef séð hafa einungis sagt að flestir Íslendingar séu tilbúnir til að skoða hvað innganga í ESB feli í sér, ekki að allir séu sammála því.

That being said, þá finnst mér þessi samsæriskenning frekar langsótt. Mun líklegra(og léleg viðbrögð ríkisstjórnar undirstrika það) að við höfum einfaldlega algjörar beyglur á Alþingi sem hafa verið of uppteknar að gefa öllum þeim sem traðka á alþýðunni haus til að sjá ástandið fyrir. Þetta á við bæði um Samfylkingu og Sjálfstæðisflokkinn(getum skellt Framsóknarflokkinum inn þarna líka, en enginn kýs hann anyway).

Stjórnarandstaðan fær minni sök á ástandinu, en ekki samt saklaus því með sterkara starfi hefði hún getað vakið okkur og hugsanlega einhvern ráðherrann af þeim svefni sem var við lýði.

Og að lokum sé ég ekki fram á betri framtíð í ESB. Það má kanna inngöngu og það er bara rökrétt að við gerum það, en eins og ég sé hlutina munum við fara að færast tilbaka til fisksins allavega fyrst um sinn, svo að gefa Englendingum og öllum þeim 'vina'þjóðum sem studdu við Englendinga fiskinn okkar á silfurfati er ekki það sem mér finnst skynsamlegast í stöðunni.

Gunnar (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband