Þjóðpeningakerfi Frosta í Telegraph

Breska dagblaðið Telegraph segir frá skýrslu Frosta Sigurjónssonar um þjóðpeningahagkerfið og hvernig það kæmi í veg fyrir kreppu og sóun sem jafnan fylgir brotaforðakerfinu.

Brotaforðakerfið, sem við búum við í dag, leyfir einkabönkum að búa til peninga í formi útlána. Reynslan sýnir að bankar þjóna illa samfélagslegum hagsmunum með því að þeir ýkja hagsveiflur. Á tímum þenslu auka bankar útlán, þ.e. búa til peninga, og blása lofti í blöðruhagkerfið. Þegar blaðran springur kippa bankar að sér hendinni og dýpka þar með kreppuna sem kemur í kjölfar þess að eignir falla í verði og atvinna minnkar.

Brotaforðakerfið er hagstjórnarfyrirkomulag frá miðöldum og syndsamlega vont fyrir almannahag. Þjóðpeningakerfi Frosta, sem hann staðfærir úr erlendri umræðu, byggir á því rökrétta innsæi að peningar eru aðferð samfélagsins til að miðla verðmætum. Og þegar viðskiptabankar eru í þeirri stöðu að búa til verðmæti, með útlánum, þá fylgir því sóun - að ekki sé sagt siðleysi.

Þjóðpeningakerfið gerir ráð fyrir að samfélagið sjálft, í gegnum seðlabanka og þing, búi til þá peninga sem þarf til að miðla verðmætum samfélagins. Peningamagnið ræðst ekki af spákaupmennsku heldur yfirveguðu mati.

Þjóðpeningakerfið hefur hvergi verið reynt og þegar af þeim sökum er hvergi nærri sjálfsagt að það reynist vel í framkvæmd. Þjóðpeningahagkerfi gæti t.d. falið í sér stöðnun þar sem dýnamískt samband tilraunastarfsemi í atvinnulífinu við spákaupmennsku er rofið. Sóun myndi minnka og kreppur hjaðna en kannski á kostnað framþróunar, sem í kapítalísku samfélagi verður ekki stunduð nema með skapandi eyðileggingu.

Tíminn vinnur með Frosta og þjóðpeningakerfinu. Stórfellt tilraunastarf stærstu seðlabanka heims, t.d. þess bandaríska, evrópska, japanska og kínverska, að prenta peninga og lána þá á núllvöxtum mun grafa undan trúverðugleika brotaforðakerfisins.

Eftirspurn verður eftir peningakerfi sem ekki eykur efnahagslegt misrétti, veldur ekki kreppu og byggir ekki á miðaldahagspeki. Þjóðpeningahagkerfið er tvímælalaust umræðunnar virði.

 


mbl.is Eins og að nota fallbyssu á rjúpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband