Bein svik

Aðild að Evrópusambandinu er ekki jaðarmál sem hægt er að versla með í pólitískum hrossakaupum. Aðildarsinnar og andstæðingar aðildar sammála að spurningin um aðild er höfuðmál stjórnmálanna. Af því leiðir að almenningur á þann skýlausan rétt að stjórnmálaflokkar geri grein fyrir afstöðu sinni til aðildar að Evrópusambandinu í aðdraganda kosninga.

Við kosningarnar vorið 2009 lagði Samfylkingin einn flokka áherslu á aðild að Evrópusambandinu. Flokkurinn hafði í kosningunum 1999, 2003 og aftur 2007 verið með sömu áherslu en alltaf slegið ESB-málin af þar sem augljóst var að ekki væri meirihluti, hvorki á þingi né með þjóðinni, fyrir aðild að Evrópusambandinu.

Samfylkingin fékk 29 prósent atkvæða vorið 2009. Innan við þriðjungur þjóðarinnar kaus sér þann flokk sem vildi án fyrirvara sækja um aðild að Evrópusambandinu. Samkvæmt hefðum og venjum stjórnmála ætti krafa Samfylkingarinnar um ESB-aðild að falla dauð niður - flokkurinn fékk ekki nægt fylgi.

Þau pólitísku hryðjuverk voru unnin vorið 2009 að Samfylkingin neitaði að mynda ríkisstjórn með Vinstrihreyfingunni grænu framboði nema forysta Vg gengi á bak orða sinna og sviki kjósendur sína og stefnuskrá. Krafa Samfylkingarinnar um að forysta Vg samþykkti að umsókn um aðild yrði send til Brussel var pólitísk fjárkúgun.

Forysta Vg lyppaðist niður. Kemst hún aftur á lappir?


mbl.is Fleiri taka undir áskorun á VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Sælir þarna hittir þú naglann á höfuðið eins og ég hef bent á! Þarna er á ferðinni flokksræði af versta toga því að þegar við kjósum þá kjósum við um málefni en þegar flokkanir taka saman eftir kosningar þá fer flokksræðið á fullt og þú verður að gefa eftir ef þú ert með færri atkvæði uppúr kosningum eins og í þessu tilfelli! Lýðræðið víkur fyrir flokksræðinu og afleiðingarnar eru mjög alvarlegar þegar upp er staðið!

Sigurður Haraldsson, 25.10.2010 kl. 08:05

2 identicon

Sælir Sigurður og Páll

hafið þið kynnt ykkur afstöðu Græningja í nágrannalöndunum til ESB? Það væri fróðlegt að vita hvort VG er á svipuðu róli og þeir.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 08:51

3 identicon

Af hverju fékk sá flokkur flest atkvæði í síðustu kosningum sem lofaði ESB umsókn?

Jafnvel þó að hann hafi verið viðriðinn hrunstjórnina sem var við völd í Október 2008.

Það er algjör bolsévismi að leyfa ekki almenningi að taka upplýsta ákvörðun þegar samningaferlið er búið. Það á að troða einhverri áróðursruglþvælu inn í hausinn á fólki og stoppa þetta ferli. Það vill einhver hópur með annarleg sjónarmið og annarlega hagsmuni.

Er þessi eldfjallaklettur í Norður-Atlantshafi alveg að sökkva í rembingi og fíflaskap?

Einar Hansson (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 10:14

4 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Samþykktin 16. júlí 2009, um að sækja um aðild, fékkst aðeins með klækjum og ofbeldi. Kalt og yfirvegað voru kjósendur Vg sviknir til að þjösna i gegn kröfu Samfylkingarinnar, sem fékk 29 prósent atkvæða nokkrum vikum áður.

Þeir sem krefjast lýðræðislegra kosninga í lok aðlögunarferlis eru í hlutverki brennuvargs sem heimtar brunatryggingar greiddar út í hönd.

Páll Vilhjálmsson, 25.10.2010 kl. 12:50

5 Smámynd: Rafn Gíslason

Einar af hverju fékk sá flokkur ekki fleiri atkvæði en raun varð ef það var svo einráður vilji og ósk þjóðarinnar að ganga í ESB, þér væri nær að hugleiða það. það hefði aldrei átt að fara í viðræður við ESB án þess að fyrst færi fram þjóðaratkvæðisgreiðsla um hvort slíkt ætti að eiga sér stað. Hvað varðar afstöðu VG til ESB þá er skemmst frá því að segja að flokkurinn er í gíslingu fámens hóps sem bæði vill ESB aðild og halda saman þessari ríkisstjórn sama hvað, þó það kosti að svíkja kjósendur og hunsa meirihluta félagsmanna VG, jafnframt því að stór hópur er að yfirgefa flokkinn vegna þess. Þar er á ferð forusta flokksins með formanninn í fararbroddi sem gerir allt til að hanga á hinum langþráða ráðherrastól og er honum þar ekkert heilagt.

Rafn Gíslason, 25.10.2010 kl. 13:01

6 identicon

Páll, gott að sjá að húmorinn er í lagi. Takk fyrir.

Ég man ekki betur en að gerð stjórnarsáttmálans hafi tekið langan tíma og þar var samið um að þessi ríkisstjórn skyldi sækja um aðild að ESB.

Ég er sannfærður um að ef Samfylkingin hefði reynt að mynda ríkisstjórn með flokki sem hefði algjörlega þvertekið fyrir að farið yrði í aðildarviðræður við ESB, þá hefðu þeir verið að svíkja kjósendur sína all herfilega (kosningaloforð #1).

Mér finnst gott að þetta mál skuli vera komið í þennan farveg, þar sem ESB er svo til óþekkt á Íslandi, nema ef vera skyldi af neikvæðum áróðri LÍÚ og þeirra bandamanna.

Núna fæst tækifæri til þess að kynna Evrópusambandið þokkalega vel, þó það verði náttúrulega alltaf einhver bjögun í gangi í gegnum andstæðinga sem endurtaka ómarktækar upphrópanir hér og þar að ástæðulausu.

Treystum þjóðinni að leikslokum til þess að kjósa það rétta í málinu.

Einar Hansson (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 13:08

7 identicon

Rafn, ég held að einfaldlega margir Íslendingar geti bara ekki hugsað sér að kjósa annan flokk en þann sem þeir hafa alltaf kosið. Hvað þá að færa sig frá "hægri" yfir til "vinstri" (eða öfugt). Sumir aðrir flokkar voru ekki með skýra, afgerandi stefnu í þessum málum, vildu greinilega einhverja tækifærismennsku.

Það var reyndar gerð einhver furðuleg samþykkt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem hræddi marga í burtu. Þó eru til þó nokkrir sjálfstæðismenn sem mundu vilja inngöngu í ESB. Ég kaus t.d. ekki Sjálfstæðisflokkinn í þetta skipti vegna þessa hringlandaháttar og svo vegna afgerandi aðildar hans á hruninu (eða aðgerðarleysi í aðdraganda þess).

Famsóknarflokkurinn var með yfirlýsta stefnu um það að ganga inn í ESB undir vissum kringumstæðum (sem munu sennilega verða uppfylltar þegar allt kemur til alls), þannig að þó nokkrir ESB sinnar hafa kosið hann af gömlum vana. Hreyfingin var sömuleiðis á því máli að skoða ætti hvað væri í boði, sem var síðan svikið seinna. Samkvæmt skoðanakönnunum hefur afstaða innan VG verið á bilinu 40/60 til 50/50 hvað varðar ESB/ekki ESB.

Það þarf enginn að segja mér hversu þægilegir ráðherrastólar eða Alþingissæti eru, finnst eins og það fari ekki eftir flokkum á Íslandi hvað fólk er fljótt að víkja úr þeim. Þannig að við skulum ekkert vera að reyna að metast um það.

Einar Hansson (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 13:28

8 Smámynd: Elle_

Einar, þú segir: Rafn, ég held að einfaldlega margir Íslendingar geti bara ekki hugsað sér að kjósa annan flokk en þann sem þeir hafa alltaf kosið.

Kannski, en held samt þú mættir íhuga það sem Páll, Rafn og Sigurður skrifuðu að ofan.  Og ég get vitnað um að ég kaus VG í fyrsta og síðasta sinn núna 09.  Hefði ég viljað inn í Evrópustórríkið, hefði ég örugglega ekki kosið VG, heldur eina flokksskrípið sem vildi þangað inn. 

Niðurstaðan varð þó að VG beinlínis stálu mínu lýðræðislega atkvæði og gáfu það hinum hættulega Jóhönnu-og Össurar-flokki!  Og ég hef oft heyrt svipaða sögu frá kjósendum VG, eins og frá Rafni að ofan.  Hann hætti í VG vegna beinna svika flokksins sem valtar yfir lýðræðið.  

Elle_, 25.10.2010 kl. 18:57

9 identicon

Elle, af hverju voru ekki allir flokkar með eins skýra afstöðu og hættulegasti flokkurinn í þessu mikilvægasta máli síðari tíma?

Pólitíkusar eru flestallir tækifærissinnar og margir hverjir gífurlegir lýðskrumarar, út á það gengur pólitíkin, ekkert annað.

Af hverju sagði VG, Framsókn, Sjálfstæðisflokkurinn ekki bara fyrir kosningar "ef við komumst í stjórn, þá verður alls ekki sótt um inngöngu í ESB"?

Svona lagað er greinilega eitthvað sem við, sem búum við lýðræði, verðum að sætta okkur við. Þetta mun ekki breytast svo fljótt, þetta er einfaldlega fylgifiskur lýðræðisins. Í lokin mun meirihlutinn ráða og minnihlutinn verður að vanda að bíta í það súra epli. Ég sem ESB sinni mun auðvitað virða þá niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í lokin og gefa Ísland upp á bátinn og sækja um ríkisfang í einu ESB ríki.

Held í rauninni að Ísland þýði ekki land íssins, heldur einfaldlega "isola", sem skýrir þennan takmarkaða, einangraða hugsanahátt margra eyjaskeggja.

Eða hvað er svo slæmt við það að þjóðin fái að leikslokum að taka upplýsta ákvörðun um það, hvort þetta sé rétta leiðin eða ekki?

Ég bara einfaldlega fæ það ekki skilið.

Einar Hansson (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 21:17

10 identicon

Bíddu nú við.

Sagði helvítis rottan hann steingrímur ekki fyrir kosningar að vg vildi henda ags úr landi og að flokkurinn vildi alls ekki sjá það að Ísland gengi í esb???

Geir (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 21:29

11 Smámynd: Elle_

Jú, það var þannig, Geir.  Hann laug eða hann sveik illilega eftir að hann komst til valda.  Og honum er alveg sama.  Einar, skil ekki hvað þið viljið þangað.  Og allt sem þið þurfið að gera er að lesa sáttmála EU við hin ríkin þar - við verðum engin undantekning, Einar.  EU mun alltaf hafa æðsta vald.  

Og ég skil alls ekki niðurlægjandi orðaforðann ykkar EU-sinna sem endalaust kallið okkur hin einangrunarsinna og ýmsu öðru eins og öfga-þjóðernissina.  Við erum ekki einangrunarsinnar eða öfga-neitt þó við viljum halda fullveldi lands okkar, Einar. 

Sem dæmi er ég ríkisborgari 2ja landa og kýs heldur að vera í frjálsu sambandi við önnur lönd, ekki miðstýringu EU, Einar.  Og erum ekki öll að berjast fyrir LÍÚ eða tengd LÍÚ á nokkurn hátt eins og hefur oft verið logið af EU-sinnum.  Við viljum bara ekki gefa upp fullveldi lands okkar fyrir neitt.

Elle_, 25.10.2010 kl. 22:00

12 identicon

Elle, ég sé bara akkúrat ekkert athugavert við það að ESB muni hafa æðsta vald í hinum ýmsu málum.

ESB stendur fyrir mannréttindi og rétt neytenda og veitir fyrirtækjum aðhald.

Sem sagt verndun neytenda gegn yfirgangi ríkisvalds og gráðugra fyrirtækja.

Það hafa allir lært sína lexíu af kreppunni og ESB er að setja saman reglugerðir fyrir bankana, sem er nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir að svona lagað gerist aftur. Það þarf greinilega reglugerðir til þess að koma í veg fyrir að almenningi verði misboðið vegna græðgi fyrirtækja eins og banka.

ESB til dæmis setti reglur um lágmark tveggja ára ábyrgð á vörum sem keyptar eru innan ESB og rétt neytenda til þess að skila vörum ef þær uppfylla ekki væntingar (eftir auglýsingum) eða kröfur um gæði.

Vegna þess að Íslendingar eru fyrir utan ESB, þurfa neytendur að jafnaði að borga tvöfalt verð fyrir neysluvörur eins og rafeindatæki, miðað við annars staðar í Evrópu. Þar væri hægt að nefna ýmis dæmi.

Ástæðan eru alls kyns vörugjöld og tollar og náttúrulega gífurleg álagning (einokun) hjá innflytjendum og smásölum.

Það eru einmitt þessir innflutningsaðilar sem berjast líka hart á móti ESB aðild. Allir útflutningsaðilar, nema LÍÚ eru hlynntir ESB aðild.

Ég er ekki að segja að allir þurfi t.d. að eiga sjónvarp. En ef einhvern verkamann sem þénar kannski 250þúsund á mánuði langar í segjum 40" sjónvarp, þarf hann að borga 200 þúsund krónur fyrir það á Íslandi, en 100 þúsund annars staðar í Evrópu. Þá er sendingarkostnaður minnsti hlutinn af kostnaðnum. Hann þyrfti ekki að nota yfirdráttarheimild eins mikið, þ.e.a.s. bankinn mundi ekki græða eins mikið á honum (ef hann væri ekki búinn að safna lengi fyrir þessu) og gæti varið afganginum af peningum sínum í að versla íslenskar vörur og þjónustu.

Það er engin gild ástæða fyrir því að vöruverð þurfi að vera eins hátt og það er á Íslandi. Ekki eru launin betri en annars staðar í hinum vestræna heimi.

Með lægra vöruverði almennt hefur lægsta stéttin það betra og millistéttin gæti farið að fjárfesta meira innanlands sem kemur sjálfkrafa af stað hagvexti.

Einar Hansson (IP-tala skráð) 26.10.2010 kl. 09:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband