Ofbeldi, trú og ríki

Noregur varð að einu ríki á elleftu öld þegar Ólafur Haraldsson lauk því verki sem nafni hans Tryggvason hóf, að kristna landið. Báðir Ólafarnir voru herkonungar sem notuðu trú í þágu pólitískra markmiða. Snorri Sturluson lýsir í Heimskringlu verklagi Ólafs Haraldssonar sem fékk viðurnefnið ,,helgi" eftir Stiklastaðafund.

Hann rannsakaði að um kristnihald manna og þar er honum þótti ábótavant kenndi hann þeim rétta siðu og lagði svo mikið við, ef nokkurir væru þeir er eigi vildu af láta heiðninni, að suma rak hann brott úr landi, suma lét hann hamla að höndum eða fótum eða stinga augu út, suma lét hann hengja eða höggva en engi lét hann óhegndan þann er eigi vildi guði þjóna. Fór hann svo um allt það fylki. Jafnt hegndi hann ríka og óríka. Hann fékk þeim kennimenn og setti þá svo þykkt í héruðum sem hann sá að best bar.

Orðræða og aðferðir múslíma að stofna nýtt kalífadæmi fyrir botni Miðjarðarhafs eru að breyttu breytanda sambærileg við háttsemi norsku herkonungana. 

En þar sem ein þúsund ár eru liðin frá trúarpólitískri sameiningu Noregs með tilheyrandi ofbeldi finnst manni þessir múslímar óþarflega fornir í háttum.


mbl.is Lýsa yfir stríði gegn 120 milljónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

ISIS samtökin krossfestu nýlega átta múslima sem þóttu of hófsamir, segir í frétt frá Reuters, þannig að það er ekki von á góðu.

Lýsing Kiljans í Gerplu á Ólafi Haraldssyni er óborganleg. Þegar Ólafur kemur til sögunnar er hann einn af „litlu körlunum" í liði Þorkells háva, sem herjar á Aðalráð ráðlausa Englandskonung. Þorkell hávi fyrirskipar pyntingar á gíslum:

„Kveður nú Þorkell til þá menn úr skipaherinum er best vóru til fallnir að fara með ali, teingur, skæri, hnífa og smáar öxar; réð þar fyrir pyndíngum úngmenni eitt úr Noregi, af Vestfold; þessi sveinn var bleikur yfirlitum, lágur vexti en ákaflega feitur og hlaunameiri en flestir menn, svo að hann kjagaði í spori. Hann nefndist Ólafur Haraldsson og var af skipamönnum kallaður hinn digri."

Svo byrjar Ólafur að pynta gíslana, menn og konur, og „báru flest flestir klerklegan búníng." Síðar varð Ólafur digri, Ólafur helgi.

Wilhelm Emilsson, 1.7.2014 kl. 21:17

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Það er aldrei að þið hampið menningunni,sem betur fer slapp maður frá þessum hrotta sem skyldulesningu. Heldur huggulegra hjá okkur tánings stelpum í den,að laumast í Bósasögur. Bósi er minn maður!!!

Helga Kristjánsdóttir, 2.7.2014 kl. 01:26

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Bósi var mikið kvennagull :) Sagan um hann er náttúrulega hluti af menningararfi Íslendinga.

Um kveldit var þeim fylgt at sofa með góðum umbúningi. Bóndi lá í lokrekkju, en bóndadóttir í miðjum skála, en þeim fóstbræðrum var skipat í stafnsæng við dyrr utar. En er fólk var sofnat, stóð Bósi upp ok gekk til sængr bóndadóttur ok lyfti klæðum af henni. Hún spyrr, hverr þar væri. Bósi sagði til sín.

"Hví ferr þú hingat?" sagði hún.

"Því, at mér var eigi hægt þar, sem um mik var búit," ok kveðst því vilja undir klæðin hjá henni.

"Hvat viltu hér gera?" sagði hún.

"Ek vil herða jarl minn hjá þér," segir Bögu-Bósi.

"Hvat jarli er þat?" sagði hún.

"Hann er ungr ok hefir aldri í aflinn komit fyrri, en ungan skal jarlinn herða."

Wilhelm Emilsson, 2.7.2014 kl. 02:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband