Meistari Óskar

Ævisaga Snorra Sturlusonar er í höndum Óskars Guðmundssonar aldarspegill íslenskra miðalda, söguleg valdastúdía og nákvæmasta greining, sem heimildir leyfa, á lífshlaupi mesta höfundar sem Ísland hefur alið.

Óskar var vel nestaður þegar hann hóf Snorraleiðangur sinn. Hann hafði sökkt sér í miðaldatexta við útgáfu á  minnisverðum tíðindum frá  landnámi til fimmtándu aldar og verið meðritstjóri að útgáfu sögu biskupsstólanna. Ekki síður notadrjúg er reynsla Óskars af stjórnmáladeilum samtímans en hann er höfundur átakasögu Alþýðubandalagsins (1987). Óskar var handgenginn Ólafi Ragnari þegar Alþýðubandalagið logaði stafnanna á milli í átökum sitjandi forseta lýðveldisins og aðalsamningamanns Icesave-deilunnar, Svavars Gestssonar. Þar á eftir var Óskar utanumhaldari Jóhönnu Sigurðardóttur á Þjóðvakatímabilinu og þar í kjölfarið.

Innsæi aðferðafræði stjórnmálanna, t.d. hvernig menn klæða persónulegan metnað í málefnalegan búning, er forsenda fyrir því að skilja valdastreitu hvort heldur hún er á miðöldum eða samtímanum.

Óskari fyrirgefst að reyna stöku sinnum að gera norrænan menningarheim evrópskari en efni standa til.

Stíll Óskars hæfir efninu vel. Látlaus og hæfilega fyrnskur án þess að verða tilgerðarlegur. Hér er dæmi þar sem ræddar eru ástæður þess að nýkvæntur Snorri gerir sér ekki bú á Vesturlandi þar sem er föðurarfleifðin heldur sunnanlands hjá Oddaverjum sem fóstruðu hann.

...drengur sem alinn hafði verið upp innan um bækur á Suðurlandi en ekki kropið um lyng fyrir vestan.

Bókin um Snorra er höfundarverk Óskars en hann fékk liðstyrk til að sitja við skriftir. Gamall samherji hans úr Alþýðubandalaginu og áhugamaður um Sturlungu reyndist góður liðsmaður við að ná í þær bjargir sem gerðu rannsóknavinnuna mögulega. Árið í ár hefur verið Einari Karli Haraldssyni mótdrægt. Hann getur þó sem forseti Snorrasambandsins stoltur sagt 2009 merkisár og verið ánægður með sinn hlut; þá kom út Snorri Sturluson eftir Óskar Guðmundsson.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Hermannsson

Af þessari skemmtilegu færslu má ráða að stjórnmálavafstur Óskars hafi verið svona ámóta farsælt og það sem að lokum varð meistara Snorra að aldurtila.

Baldur Hermannsson, 26.12.2009 kl. 11:55

2 identicon

Önnur bók í jólaflóðinu vakti athygli mína, eða öllu heldur titillinn: „ENGINN RÆÐUR FÖR; reisubók úr neðra“ eftir Runólf Ágústsson. Mín fyrstu viðbrögð voru hvort þetta væri saga Samfylkingarinnar.

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 26.12.2009 kl. 13:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband