Bandalag fullvalda ríkja við NV-Atlantshaf

Á fundum fulltrúa Heimssýnar með norskum stjórnmálamönnum hefur bandalag fullvalda ríkja við NV-Atlantshaf borið á góma. Grænland, Ísland, Færeyjar og Noregur eiga aðkomuleiðina að norðurslóðum sem Evrópusambandið ásælist vegna auðlinda sem þar er að finna.

Fullveldin fjögur hafna aðild að Evrópusambandinu, að Samfylkingunni á Íslandi undanskilinni. Noregur hafnaði aðild að ESB í tvígang, 1972 og 1994. Grænland er eina landið sem hefur komist upp með að segja sig úr Evrópusambandinu. Færeyjar voru undanskyldar í aðild Dana að ESB.

Ásmundur Einar Daðason þingmaður Vg og formaður Heimssýnar hefur leitt viðræður samtakanna við norska stjórnmálamenn og pólitísk samtök. Aðrir þátttakendur eru Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Vígdís Haugsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins.

Þremenningarnir eru hluti af sendinefnd Heimssýnar á landsfundi Nei til EU sem fagnar 15 ára afmæli sigursins í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1994.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Græland var nýlenda Danmerkur þegar þeir sögðu sig úr ESB. Sem slík, þá sögðu þeir sig ekki úr ESB sem þjóð, heldur nýlenda. Þetta vita allir sem hafa skoðað þetta mál nánar.

Það er ennfremur ekkert nema hræsni að tala um bandalag ríkja eins og gert er hérna, og á sama tíma tala á móti ESB. Sérstaklega í ljósi þess að ESB er ekkert nema bandalag ríkja um efnahagsmál og stjórnmál, og önnur hagsmunamál sem skipta þessi 27 aðildarríki ESB máli.

Jón Frímann (IP-tala skráð) 28.11.2009 kl. 01:29

2 Smámynd: Jón Daníelsson

Heill Páll.

Hugmyndin um bandalag Noregs, Færeyja, Íslands og Grænlands er skemmtileg. Ég velti fyrir mér hugleiðingum pípulagningamanns um þetta efni í litlum pistli fyrir nokkru. Reyndar ekki síst til aðvekja athygli á því að heili pípulagningamanna vinnur alveg jafnvel og háskólamenntaðir heilar - og svo sem allir aðrir heilar.

Við gætum líka velt fyrir okkur bandalagi Grænlendinga, Íslendinga og Færeyinga, sem yrði óneitanlega nokkur ógn fyrir bæði Norðmenn og Evrópusambandið.

Það var óneitanlega gaman að sjá eina athugasemd við þessar hugleiðingar. Athugsemdin var svohljóðandi: "Þetta er vitlausasta hugmynd sem ég hef heyrt."

Lifðu heill og haltu áfram að skrifa af krafti eigin sannfæringar.

Jón Daníelsson, 28.11.2009 kl. 02:44

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Jón Frímann lifir í draumi, eða réttara sagt martröð. Enda skilst mér að hann lesi fátt annað en heimasíðu fyrirheitna landsins og telji allt það sem þar kemur fram heilagan sannleika :) Allavega rökstyður hann víst allar sínar fullyrðingar með því að vitna í þá síðu sem seint verður nú talin hlutlaus :D

Hjörtur J. Guðmundsson, 28.11.2009 kl. 15:27

4 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Fín hugmynd hjá Noregsförum. Ekki vantar kraftinn og hugmyndaauðgina í Ásmund Einar að vanda.

Væri ekki fínt að breikka þetta bandalag og gera það öflugra með því að taka allan Norðurkragann eða hattinn þ.e. bæta við Kanada í vestri og í austri Rússlandi og Japan enn austar. Öll eiga þessi ríki margt sameiginlegt og ef vel tækist til yrði þetta gífurlega öflugt bandalag. Mætti kalla Norðurríkin með frægri tilvísun.

Jón Baldur Lorange, 28.11.2009 kl. 22:15

5 identicon

Alltaf er jafn gaman að lesa pistlana hans Páls. Nú eru semsagt Færeyjar og Grænlendingar orðnar fullvalda þjóðir -- janfvel þótt danskir skattgreiðendur greiði allstóran hluta ríkisútgjalda þeirra beggja -- en Frakkar og Þjóðverjar hafa aftur á móti glatað sjálfstæðinu til ESB. Þetta þykir mér röksemdafærsla í lagi! Já og ekki er Jón Baldur síðri. Við skulum endilega mynda stórt "Norðurbandalag" og bæta Kanada, Rússlandi og Japan -- þurfum ekki einu sinni að spyrja þá um leyfi, enda bíður allur heimurinn auðvitað spenntur eftir kallinu frá Íslandi. Allir vilja vera með okkur því að við erum ekki bara svakalega flínk í bankastarfseminni, heldur einnig fræg fyrir að sýna sanngirni í samningum. Um það vitnar löng samskiptasaga okkar og Noregs, enda brenna Norðmenn alveg í skinninu að vinna með okkur að sameiginlegum hagsmunum í fiskveiðimálum. Þar tölum við jú alltaf einni röddu, sbr. Smuguna um árið. Hlakka til að fá meira að heyra.

Sigurður Guðmundsson (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 08:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband