Davíðsfóbía Samfylkingarinnar

Davíð Oddsson var áhrifamesti stjórnmálamaðurinn í Samfylkingunni. Forysta flokksins og þinglið kenndi formanni Sjálfstæðisflokksins um ófarirnar í fyrstu þingkosningum Samfylkingarinnar árið 1999 þegar breiðfylking vinstrimanna náði aðeins 26,8 prósent atkvæða.

Sameining Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Kvennalista átti að leiða til stórra breytinga íslenskum stjórnmálum, sambærilegum þeim sem urðu við sigur R-listans í höfuðborginni 1994. Vonbrigðin með niðurstöðuna skáru inn að beini. Miklu hafði verið kostað til, flokkar með langa og merka sögu voru komnir á öskuhaugana, forystumenn féllu útbyrðis og klofningsdraugur vinstrimanna gekk aftur með stofnun Vinstri grænna.

Undir þessum kringumstæðum var hætta á borgarastyrjöld innan Samfylkingarinnar ef flokkurinn hefði tekið sjálfan sig til endurmats að loknum kosningum sumarið 1999. Traust á milli manna risti grunnt, enda höfðu þeir þar til fyrir skemmstu skipst í þrjá flokka og eldað grátt silfur. Einfaldara og sársaukaminna var að kenna Davíð Oddssyni forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins um kosningaósigurinn. Í samfylkingarkreðsum var sögunum um ofríki Davíðs haldið á lofti og völd hans ýkt úr hófi til að ríma við kenninguna um að hann bæri höfuðábyrgð á niðurlægingu Samfylkingarinnar. Rauður þráður í samsæriskenningunni var að Davíð hefði hamast á Samfylkingunni í kosningabaráttunni en látið vel að Vinstri grænum.

Minnst af umræðunni kom upp á yfirborðið í blaðagreinum eða umræðum á opnum fundum. Orðræðan um tapið í kosningunum var sjálfhverft hópefli og grýlan sem hélt flokknum saman var formaður Sjálfstæðisflokksins. Skortur á sjálfsgagnrýni og stöðumati að loknum kosningum leiddi flokkinn úr einu klúðrinu í annað.

Þegar kom að kosningum vorið 2003 fór Samfylkingin ekki í framboð til að fá umboð frá kjósendum til að fara með landsstjórnina heldur fór hún í framboð gegn Davíð Oddssyni.

Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur 9. febrúar skilgreindi kosningabaráttuna. Ingibjörg Sólrún var forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, eftir framsóknarmenn og vinstri grænir boluðu henni úr stól borgarstjóra þegar hún ákvað með skömmum fyrirvara að taka sæti á lista Samfylkingarinnar.

Í Borgarnesræðunni líkti Ingibjörg Sólrún stöðu Samfylkingarinnar við Kvennalistann 1983 og Reykjavíkurlistann 1994. ,,Og núna liggur eitthvað í loftinu og það er okkar verkefni í Samfylkingunni að breyta því úr óræðum væntingum í orð og athafnir," sagði hún en tókst ekki að fylgja eftir ætlun sinni um að túlka nýja framtíðarsýn félagshyggjufólks. Flokkshugsunin var henni of töm, minningin um tapið 1999 of sár.

Þjóðfélagsgreiningin sem forsætisráherraefni Samfylkingarinnar lagði upp var endurómur af þráhyggju flokksins gagnvart Davíð Oddssyni. ,,Finnst [fólki] nóg komið af afskiptum stjórnarráðsins af fyrirtækjum og fjármálastofnunum landsmanna?," spurði oddviti breiðfylkingar vinstrimanna líkt og það væri brýnt viðfangsefni félagshyggjuflokks bera blak af kaupsýslumönnum og bönkum. Sérstakt faðmlag frá Ingibjörgu Sólrúnu fengu þrjú fyrirtæki: Kaupþing, Norðurljós, sem þá var í eigu Jóns Ólafssonar, og Baugur. Ástæðan fyrir dálætinu var að Davíð hafði gagnrýnt þessi fyrirtæki. Norðurljós og Baugur sættu á þessum tíma opinberri rannsókn vegna fjármálamisferlis og Ingibjörg Sólrún dró í efa að málefnalegar ástæður lægju að baki. Bæði þá og síðar fer Ingibjörg Sólrún býsna nálægt því að segja embættismenn lögreglu- og skattayfirvalda spillta sem vinni ekki rannsóknir faglega og með rökstuddan grun að leiðarljósi heldur láti Davíð Oddsson segja sér fyrir verkum.

Gegn átakastjórnmálum tefldi Ingibjörg Sólrún fram samráðsstjórnmálum. Í því samhengi lauk hún lofsorði á póstkosningu Samfylkingarinnar um Evrópusambandið sem fór fram haustið 2002. Kosningarnar sættu gagnrýni innan flokksins, þar sem andstæðingum aðildarumsóknar var kerfisbundið haldið utan kynningarfunda. Spurningin sem send var til flokksmanna var villandi þar sem þrem spurningum var pakkað saman í eina. Spurt var hvort Íslendingar ættu að skilgreina samningsmarkmið gagnvart Evrópusambandinu, hvort gengið skyldi til aðildarviðræðna og að hugsanlegur samningur yrði lagður fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Allt þrennt var sett saman í eina spurningu í stað þess að fara heiðarlega fram og spyrja flokksmenn hvort þeir vildu að flokkurinn stefndi að inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Framkvæmdin braut gegn meginreglum um leynilegar kosningar. Þáverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, Karl Th. Birgisson, sendi út tölvupóst þar sem þingmenn og prófkjörsframbjóðendur flokksins voru hvattir til að bera út atkvæðaseðla og hitta í leiðinni kjósendur, væntanlega til að gefa þeim leiðbeiningar um hvað ætti að kjósa.

Evrópukosningarnar voru ekki í anda samráðsstjórnmála og stóðust ekki lágmarkskröfur um gagnsæi og jafnræði.

Samfylkingin rétti sinn hlut í kosningunum 2003, bætti við sig rúmum fjórum prósentustigum og fór í 31 prósent. Flokkurinn komst ekki í ríkisstjórn, samstarf við Sjálfstæðisflokkinn var útilokið eftir það sem á undan var gengið og Framsóknarflokkurinn var ekki tilkippilegur.

Ingibjörg Sólrún náði ekki kjöri á þing og í hönd fór tímabil þar sem hún var á milli vita, borgarstjóraárin að baki en þingseta ekki í sjónmáli. Össur Skarphéðinsson var kjörinn fyrsti formaður Samfylkingarinnar og endurkjörinn á landsfundi haustið 2003. Ingibjörg Sólrún mat stöðuna þannig að ekki væri tímabært að leggja til atlögu við formannsembættið þar sem hún væri utan þings. Varaformannsembættið sem Ingibjörg Sólrún var kjörin í hélt henni í nálægð við framlínuna og hún tilkynnti snemma að á næsta landsfundi stefndi hún á formennskuna.

Össur varð formaður í Samfylkingunni eftir kosningarnar 1999 þegar enginn þingmanna flokksins treysti sér í embættið. Hann var aldrei óskoraður leiðtogi. Jón Baldvin Hannibalsson sendiherra og fyrrum formaður Alþýðuflokksins mátti ekki sjást á götum Reykjavíkur að ekki væri rætt um að hann leysti Össur af.

Össur ól með sér þá draumsýn að geta orðið alvöru formaður. Hann var tilbúinn að veðja á að innistæðan sem Ingibjörg Sólrún átti hjá samfylkingarmönnum hefði skroppið nógu mikið saman að hann ætti möguleika á að sigra hana í kosningum. Ingibjörg fékk tvo þriðju hluta atkvæðanna.

Þrátt fyrir góða kosningu var veganestið rýrt sem nýkjörinn formaður fékk frá félögum sínum. Ingibjörg Sólrún er sá stjórnmálamaður félagshyggjuflokkanna ótvíræðast hefur sýnt og sannað forystuhæfileika sína með því að sigra þrennar borgarstjórnarkosningar. Himinn og haf skilur á milli hennar og Össurar þegar kemur að mikilvægum eiginleikum stjórnmálamanna, svo sem trúverðugleika. Það eitt að efna þurfti til kosninga milli Ingibjargar Sólrúnar og Össurar bendir til að ekki sé allt með felldu í Samfylkingunni. Ekki síst sé haft í huga að margir úr forystuliði flokksins studdu Össur.

Davíð Oddsson þjónar enn því hlutverki að vera grýlan sem Samfylkingin sameinast gegn. Ef Samfylkingunni tekst að fella Davíð úr stól Seðlabankastjóra er í leiðinni búið að mála Sjálfstæðisflokkinn út í horn. Aðalheimildin fyrir forsíðufrétt Fréttablaðsins er Össur Skarphéðinsson sem hefur lekið upplýsingum um bókun Samfylkingarinnar til blaðsins.

Núna þurfa sjálfstæðismenn að spyrja sig: Hver ber ábyrgð á því að Sjálfstæðisflokkurinn tók Samfylkinguna í faðm sér eftir síðustu kosningar?


mbl.is Samfylking afneitar Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Það vita allir.

Spurningunum verður vonandi svarað á næsta Landsfundi.

Sem nú er að verða brýnna að efna til fyrr en reglan segir til um.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 2.11.2008 kl. 15:38

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég er sammála Bjarna Kjartanssyni um að flýta verður landsfundi, því það stefnir í kosningar með vorin eða í síðasta lagi í haust.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.11.2008 kl. 17:14

3 Smámynd: Matthias Freyr Matthiasson

Hvernig getur þú Páll Villjálmsson fullyrt það að aðalheimildarmaður fréttablaðsins sé Össur Skarphéðinsson? Og hvernig getur þú fullyrt það að hann hafi lekið þessum upplýsingum?

Reyndar er það svo að þingflokksformaður Sjallanna neitar því á visi.is í dag að nokkur svona bókun hafi verið lögð fram.

Matthias Freyr Matthiasson, 2.11.2008 kl. 17:16

4 identicon

Það má benda ykkur fínu herrum á þá staðreynd að í umræddri Borgarnesræðu sagði Ingibjörg að nauðsynlegt væri að setja fyrirtækjum landsins leikreglur. Þessar leikreglur hefðu sennilega komið í veg fyrir að við værum í þessum kreppudansi sem við erum í þessa stundina. Davíð Oddsson og félagar hlógu þessa ræðu út af borðinu, enda kom það Sjálfstæðisflokknum vel að geta montað sig yfir því hve einkavæðingin hafði gengið vel.

Þessi persónudýrkun á Davíð Oddsyni er vægast sagt undareg. Maðurinn er búinn að vera alla sína starfsævi með tóma jámenn í kring um sig, sem alla daga hafa ekki gert neitt annað en að segja honum hvað hann væri æðislegur. Þetta er engum manni holt og tími til komin að opna augun fyrir þessu. 

Valsól (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 12:18

5 identicon

Það vita allir hver kom Samfylkingunni í faðm Sjálfstæðisflokksins eftir síðustu kosningar.  Það var Þorgerður Katrín.  Hún er í raun krati og lengi hefur verið kært á milli hennar og Ingibjargar Sólrúnar.

Hún hefur sagt Geir að sætasta stelpan á ballinu væri hrifin af honum og að þessi stelpa væri góð stelpa.  Geir beit á agnið.  Það er að koma illilega í bakið á Sjálfstæðimönnum núna.  Um leið og Samfó komst í stjórn, var strax farið að tala um Evru og ESB án þess að þau máli væru á dagskrá.

Um leið og Samfó komst í stjórn var það eins og að opna öskju Pandóru.  Allt varð vitlaust, Evrópuumræðan komst á fullt án þess að nokkur væri tilbúinn í það nema Samfó.  Öll önnur mál í þjóðfélaginu komust ekki að og eru ýmist hálfkláruð eða ókláruð.

Einar Þ. Gunnþórsson (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband