Þórður Snær og dularfulla erindið til umboðsmanns

Blaðamannafélag Íslands pantaði lögfræðiálit um að ekki mætti kalla blaðamenn til skýrslutöku vegna sakamálarannsóknar lögreglu. Hér er um að ræða byrlunar- og símastuldsmálið þar sem fimm blaðamenn eru sakborningar. Flóki Ásgeirsson lögmaður tók að sér verkefnið.

Fyrir hönd Blaðamannafélags Íslands sendi Flóki formlegt erindi til Umboðsmanns alþingis 31. október 2022 þar sem hvatt er til frumkvæðisathugunar á sakamálarannsókn lögreglu, þar sem blaðamenn eru sakborningar.

Fjölmiðill sakborninga, Kjarninn nú Heimildin, sló upp lögfræðiálitinu og erindinu til umboðsmanns. Í fréttinni er sérstök athygli vakin á að Þórður Snær Júlíusson ritstjóri og sakborningur hafi verið spurður í skýrslutöku hjá lögreglu um fréttavinnslu á gögnum sem komu úr síma skipstjórans.

Eitt atriði sem lögreglan vildi upplýsa er hvort Þórði Snæ hafi verið ljóst 21. maí 2021, þegar hann birti fyrstu fréttina upp úr síma Páls skipstjóra Steingrímssonar, hvort gögnin hafi verið fengin með byrlun og þjófnaði. Í lögfræðiálitinu, sem Blaðamannafélagið pantaði, segir ekkert um vinnulag blaðamannanna. Aftur er í gögnum málsins lögregluskýrsla um yfirheyrslu yfir Þórði Snæ, tekin 11. ágúst 2022.

Þórður Snær hringdi í Pál skipstjóra þegar fyrsta fréttin var tilbúin til að fá viðbrögð hans. Þetta gerði hann til að uppfylla þá kröfu blaðamennskunnar að bera ásakanir undir þann sem er ásakaður. Í yfirheyrslunni 11. ágúst 2022 segir Þórður Snær að símtalið hafi verið ,,sérstakt". Í framhaldi er haft eftir Þórði Snæ

að mögulega hafi Páll sagt eitthvað sem vísaði til veikinda hans en tók fram að hann hafi ekki almennilega skilið það sem Páll sagði.

Í tilvitnaðri setningu í lögregluskýrslu viðurkennir Þórður Snær vitneskju um veikindi Páls, sem stöfuðu af byrlun. Jafnframt segist hann ekki hafa almennilega skilið hvað Páll skipstjóri sagði. En Páll var aðalefni fréttarinnar. Samt birti Þórður Snær fréttina, vitandi um veikindin og skilningslaus á hvað frumheimildin sagði. Ekki beinlínis fagleg vinnubrögð.

En aftur að erindi Flóka Ásgeirssonar lögmanns til Umboðsmanns alþingis. Útgáfa Blaðamannafélags Íslands, Press.is, birti umfjöllun um erindið, líkt og Kjarninn. Starfsmaður BÍ, Auðunn Arnórsson, bróðir sakborningsins Þóru Arnórsdóttur, er höfundur fréttarinnar.

Síðan eru engar fréttir af málinu. Umboðsmaður hlýtur að hafa svarað erindi Flóka lögmanns BÍ fyrir nokkrum mánuðum. En það er ekkert að frétta.

Þórður Snær veit hvað úr varð, umboðsmaður alþingis hafnaði erindinu. En Þórður Snær birtir ekkert um málið enda velur hann fréttaefni í samræmi við sína hagsmuni en lætur fréttagildi lönd og leið, rétt eins faglega blaðamennsku.

Í spjallþætti á Samstöðinni, uppgjöri blaðamanna við árið sem er að líða, er Þórður Snær mættur til leiks. Hann segir (36:03) að umboðsmaður alþingis megi ekki taka til skoðunar mál sem eru til rannsóknar annars staðar. Þetta vissi Þórður Snær allan tímann. Hann og BÍ bjuggu til áróðursfrétt fyrir sjálfa sig með keyptu lögfræðiáliti og tilefnislausu erindi til umboðsmanns alþingis.

(Innan sviga neðanmáls: spjallþáttur Samstöðunnar er upplýsandi um stöðu blaðamennsku á Íslandi; pólitík en ekki upplýsingamiðlun).

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband