Trú, synd og sannindi

Trú gerir ráð fyrir eilífðarsannindum, það er sjálfur grunnur trúarbragða. Önnur umræða er hversu vel eða illa menn fara með sannindin í eigin lífi og í samfélagi við aðra.

Annað sameiginlegt trúarbrögðum er syndin. Í heiðni reiddust goðin misgerðum manna. Í kristni refsaði guð fyrrum en fyrirgaf syndurum þegar nær dró samtíma okkar. Engin trú er án mennskrar túlkunar, það gefur augaleið.

Við lifum guðlausa tíma. Algild sannindi eru leifar fortíðar. Sumir segjast trúa á vísindin, aðrir á manninn. Þær trúarjátningar eru mótsögn. Maðurinn er brigðull. Gildir um allar afurðir mannsins, vísindin meðtalin. Þau eru alltaf með fyrirvara um stöðu núverandi þekkingar. Vísindaleg sannindi gærdagsins úreldast með nýrri vitneskju. Eða öllu heldur; nýjum kenningum.

Þar sem trúin var áður eru sannindi sem má kenna við umræðuna. Sannindi umræðunnar eru þær staðhæfingar um lífið og tilveruna sem njóta mestra vinsælda hverju sinni. Enginn einhlítur mælikvarði er á umræðusannindin. En þeir eru margir sem ota þar sínum tota. 

Vinsælustu umræðusannindin eiga einatt syndina sameiginlega trúarbrögðum. Vinsæl umræðusannindi síðustu ára er að loftslag jarðar sé manngert. Þeir sem aðhyllast sjónarmiðið eru uppfullir af vandlætingu um syndir mannsins gagnvart loftslaginu. Fylgjendur hafa jafnvel komið sér upp frelsara. Sænskt stúlkubarn með fléttur minnir okkur á syndugt líferni höstugum rómi og boðar ragnarök sjáum við ekki að okkur.

Maðurinn hefur ríka þörf fyrir trú. Jesú bauð okkur himnaríki en Gréta helvíti. Það væri synd að segja það framfarir.


mbl.is „Til hamingju með þessa uppfærslu!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Godur, ad vanda.

Halldór Egill Guðnason, 16.10.2022 kl. 15:53

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Formaður Siðmenntar segir að Biblían sé ónothæf sem vegvísir í lífinu að því hún sé svo gömul. Það eru engin rök. Sólin er miklu eldri en 2000 ára og enginn hefur talað um að hún sé orðin úrelt.

Boðorðin og öll orð Biblíunnar munu standa, löngu eftir að formaður Siðmenntar hefur kvatt þennan heim. Sama hvað Þjóðkirkjan reynir að hræra í þeim.

Theódór Norðkvist, 16.10.2022 kl. 18:35

3 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Ég tek undir það sem Theódór segir. Að vísu er ég hluti af heiðna menningarheiminum að einhverju leyti, sem mikill áhugamaður um heiðna menningu og slíkt, en í því felst að virða boðorðin tíu sem eina helztu grunnstoðina undir allar lagasetningar á Vesturlöndum og meira að segja í Miðausturlöndum og víðar. Áhrif Abrahamstrúarbragðanna ná inní næstum alla afkima jarðarinnar nú til dags, öfugt við það sem áður var, á meðan til voru ósnortnir frumbyggjar einhversstaðar.

Þar af leiðandi, þáð eru eilífðarsannindi til, og meðal annars í því "þú skalt ekki mann deyða" og svo framvegis. Ef við plokkum eitt svona boðorð í burtu getum við alveg sagt að afgangurinn sé líka úreltur og mannanna verk í fortíðinni, enginn guð sé til, ekkert æðra manninum. Það er nú hættuleg braut eins og dæmin sýna. Kommúnisminn var guðlaus skepna sem kostaði miklar þjáningar og hreinsanir, fasisminn var ekki beint guðlaus, en hann setti samt menn í guðatölu einsog faraóana hér forðum.

Ég er ekki sammála síðuhafa þegar hann fjallar um hamfarahlýnunina og spámenn hennar, unga sem aldna, en hér eru nú samt mikilvæg korn sem læra má af.

Siðmennt eins og aðrir húmanistar setja manninn í Guðs stað. Það er nú þetta sem Bjarni Karlsson prestur kallaði ekki hroka í Silfrinu í dag, en margir kristnir menn gera það samt. 

Hvað verður um siðgæði okkar nútímamanna, landslögin og réttarkerfið ef við setjum femínisma og húmanisma ofar Boðorðunum tíu, einhverju sem er eilíft og óumbreytanlegt?

Tek undir með Theódóri. Siðmennt hverfur í tímans haf, ekki eilíf sannindi sem eru í trúarbrögðunum.

Ingólfur Sigurðsson, 17.10.2022 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband