Hugmyndafræðin og Úkraína

Hvað græða vesturlönd ef svo ólíklega færi að Úkraína sigraði Rússland? Minna en ekki neitt. Pútin yrði velt úr sessi, óreiðuástand tæki við þar sem óljóst væri hver stjórnaði ríki með gnótt kjarnorkuvopna. Ástand í ætt við villta vestrið í kjarnorkuríki er martröð. Tap Rússa þýddi að ófriðarlíkur í heiminum ykjust stórlega.

Engin von er að rússneskur ósigur fæddi af sér lýðræði og stöðugleika þar eystra. Þannig gerast ekki kaupin á eyrinni. 

Ef Úkraína tapar, sem er líklegri útkoma, yrði það niðurlægjandi fyrir vesturlönd. Líkt og tapið í Afganistan. Sumir segja að Pólland og Eystrasaltslönd yrðu næst á matseðli Pútin. En húsbóndinn í Kreml hefur ekki sýnt minnstu viðleitni að leggja undir sig Eystrasaltslönd. Þetta eru lítil ríki sem ógna ekki Rússlandi. 

Úkraína ógnaði aftur Rússlandi með hugmyndum um að ganga í Nató. Allt frá Búkarest-fundi Nató árið 2008 svífur yfir vötnum innganga Úkraínu í Nató. Í 14 ár, eða fram að innrás Rússa 24. febrúar sl., var hægt að bera klæði á vopnin með yfirlýsingu um að Úkraína yrði ævarandi hlutlaust ríki utan hernaðarbandalaga.

Yfirstandandi stríðshörmungar í Úkraínu eru, í ljósi aðdraganda þeirra, ekki fagur vitnisburður um hæfni vestræna alþjóðakerfisins að leysa ágreining friðsamlega.

Hvers vegna þróuðust mál sem raun varð á?

Vestræn heimsskipan, sem grunnur var lagður að eftir seinna stríð og varð einráð við sigurinn í kalda stríðinu, með falli Sovétríkjanna 1991, virtist um aldamótin ætla að leggja undir sig heiminn.

Nató bólgnaði út í Austur-Evrópu, fékk til sín gömul bandalagsríki Sovétríkjanna. Samhliða stækkaði Evrópusambandið í austur. Í miðausturlöndum (Írak, Líbýa, Sýrland) og Afganistan var reynd vestræn umbreyting á múslímskum ríkjum. Umbreytingin mistókst vegna andstöðu heimamanna sem gripu til vopna.

Úkraína var vestrænt verkefni á landamærum Rússlands. Valdhafar í Moskvu máttu vita að þegar ekki þýddi lengur að ræða málin yrðu vopnin látin tala. Eins og í miðausturlöndum og Afganistan. Spurningin var aðeins hvor aðilinn yrði fyrri til. Svarið kom 24. febrúar. ,,Sannleikurinn í stríði birtist á vígvellinum," segir í þýskri umræðu. En það átti aldrei að koma til þessa stríðs. 

Sigrandi hugmyndafræði, sú vestræna, þekkti ekki sín takmörk. Kennisetningin, um að vesturlönd byggju að alheimsuppskrift fyrir samfélagsskipan, stóðst ekki próf veruleikans. Það lá fyrir löngu áður en kom til stríðsátaka í Garðaríki.

Sigur vestrænnar hugmyndafræði í Úkraínu-Rússlandi fæli í sér óreiðuástandi í næst stærsta kjarnorkuríki veraldar. Vestrænt tap þar eystra er til muna betri kostur fyrir heimsfriðinn en sigur.

Hvað næst fyrir Úkraínu? Fyrrum forseti landsins stingur upp á að Pólland og Úkraína sameinist. Stríð búa til ný ríki með tortímingu á þeim sem fyrir eru.

Hvað næst fyrir vestræna hugmyndafræði? Tja, hugmyndafræði á síðasta söludegi fer á útsölu. Áhugaverðasta spurningin er: hvað kemur næst? Tilfallandi gisk er að það verði ekki aukið frjálslyndi. Tilboði um vopnum klætt vestrænt frjálslyndi var hafnað í Bagdad, Kabúl og Moskvu.

 


mbl.is Vill eyða pening í „örugga skóla“ frekar en í Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Evrópa er komin að fótum fram vegna refsiadgerðanna. Ukraiski herinn í Donbas einnig. Mórallinn í ræsinu og brotthlaup ríkjandi því hermenn telja sig svikna. Fall Mariupol, Lyman og Popanskya sáu um það.

NYT og WAPO eru farin að tala um friðarviðræður ogg þau stjórn á umræðunni. Búið ykkur undir að heyra annað hljóð úr stokknum. 

Ragnhildur Kolka, 29.5.2022 kl. 16:53

2 Smámynd: Jónatan Karlsson

Það er kaldhæðnislegt að álit þitt á þessum volksturm Selenskís njóti ekki almenns skilnings annara en örfárra kynlegra kvista á borð við páfann, Trump og Henry Kissinger, auk auðvitað hins þögla (meiri)hluta sem dirfist ekki alla jafna að láta í ljós forboðnar skoðanir sínar.

Jónatan Karlsson, 29.5.2022 kl. 17:06

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég heyri álengdar strokur strengjahljóðfæra að stilla þau fyrir flutning 10,undu sinfóníu Ludwig van Beethoven,sem uppgötvast í gömlu safni. Birtist í eilífri trú. 

Helga Kristjánsdóttir, 29.5.2022 kl. 18:45

4 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Fólk verður ekki almennilega pirrað fyrr en það kemst að því hvað gerist vegna þess að áburðurinn fékkst ekki frá Rússlandi á réttum tíma.

25-30% minni uppskera verður áberandi.

Hvað ætla yfirvöld að segja?  Borðið bara kökur?

Ásgrímur Hartmannsson, 29.5.2022 kl. 20:03

5 Smámynd: Grímur Kjartansson

Svo er þetta með sannleikann.
Það eru stór alþjóðafyrirtæki sem stýra verðinu á áburði og korni ekki forseti Úkraínu né Pútín þó vel geti verið að hann eigi í þessum fyrirtækjum

En ef við lítum okkur nær þá mundi RUV aldrei leyfa okkur að sjá þessa frétt
Út­lendinga­stofnun vísar frá­sögn flótta­konu frá Úkraínu á bug - Vísir (visir.is)

Grímur Kjartansson, 29.5.2022 kl. 20:29

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Páll, þetta eru ótrúlegar ranghugmyndir. Ertu að láta þér detta í hug að Úkraína lýsi yfir hlutleysi gagnvart heimsveldi sem hefur gert allt sem í þess valdi stendur til að tortíma þeim sem þjóð? Eða að láta Rússland ákveða utanríkisstefnu Úkraínu?

Auk þess ef sterkar hervarnir eins lands eru ógn við öryggi annars lands, er þá ekki Rússland mesta öryggisógnin? Ef það er raunverulega skoðun þeirra, þá ættu þeir að skala niður sinn eigin her í fjórðung af núverandi styrkleika.

Theódór Norðkvist, 30.5.2022 kl. 11:39

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þú ert kennari Páll.

Lestu færsluna þína, kannski áttar þú þig á þversögnunum í henni. Fengi sennilega E ef þú værir að gefa einkunn fyrir hana á prófi.

Gunnar Heiðarsson, 30.5.2022 kl. 14:31

8 Smámynd: Kristinn Bjarnason

Ég held að þetta sé rétt mat að betra sé fyrir heiminn að Úkraína tapi þessu stríði. Vesturveldin eru farin að sýna ótrúlegan hroka gagnvart öðrum þjóðum og í evrópðusambandinu er greinilega enginn fullorðinn, þetta er eins og hópur af geltandi hvolpum. Hversu erfitt var það að lýsa Úkraínu hlutlaust ríki og hætta efnavopnakrukki í túnfætinum hjá Rússum og sleppa stríðinu? Það virðist augljóst að vesturveldin vilja að stríðið haldi áfram með því að moka vopnum í Úkraínumenn. Vesturveldin hafa engann áhuga á friðarviðræðum svo skrítið sem það er.

Kristinn Bjarnason, 30.5.2022 kl. 17:38

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Hvaða rök eru fyrir því að skylda Úkraínu til að vera hlutlaus? Á þá ekki alveg eins að skylda Rússland til að vera hlutlaust gagnvart Úkraínu? Hvernig skilgreinirðu hlutleysi og aftur, hvernig geturðu verið hlutlaus gagnvart þeim sem er að reyna að drepa þig?

Þjóðarmorð Rússa á Úkraínumönnum hófst ekki 24. febrúar, eins hræðilegir og augljósir öllum stríðsglæpir þeirra eru síðan þá, nema kannski rússadindlum. Rússar hafa verið að reyna að afmá Úkraínu sem þjóð, bæði menningarlega og með beinum morðum í 300 ár. Stalín drap 4-5 milljónir Úkraínumanna.

Kristinn (og Páll) ættu að lesa grein Bjarna Jónssonar, þar er maður sem talar af viti um þessi mál, ólíkt 5. herdeild Pútíns hér á landi. Já og ásakanir um efnavopnakukl eru uppspuni ættaður frá Kreml og ekki svaraverðar.

Theódór Norðkvist, 30.5.2022 kl. 22:20

10 Smámynd: Kristinn Bjarnason

Aðalatriðið er að vesturlönd vildu ekki semja við Rússa heldur nánast gáfu Rússum grænt ljós og gáfu í skyn að þeir myndu ekki aðhafast neitt. Eftir að þeir ganga í gildruna þá fáum við allann heiminn gegn Rússum og kennum þeim um allt sem aflaga fer. Við erum hræddir við Rússana og vonandi verður þetta þeirra banabiti. Bónusinn er að enginn talar um eiturbóluefnin núna og við þurfum líklega ekki að gera þau upp. Almenningur á vesturlöndum er algjörlega varnarlaus gegn heilaþvætti og einnrætingu, hefur enga hæfni lengur til að draga ályktanir sjálfur. Það eru vesturlönd sem bera fulla ábyrgð á þeirri miklu ringulreið og hættuástandi sem skapast hefur í heiminum með fyrirsjáanlegri kaupmáttarrýnun og fátækt en Rússunum verður kennt um.

Kristinn Bjarnason, 31.5.2022 kl. 08:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband