Fjölbreytileiki skoðana

Skólameistari FG tilkynnti mér fyrir sl. helgi að erindi hefði borist frá heilsunefnd FG vegna skoðana minna. Erindið yrði lagt fyrir skólanefndarfund, sem haldinn var í gær. Skólameistari bauð mér að svara. Eftirfarandi er skriflegt svar mitt við erindi heilsunefndar: 

Einstaklingsfrelsi er að hver og einn hefur fullt leyfi til að skilgreina sjálfan sig á hvaða veg sem er. Aldrei hvarflar að mér að skipta mér af hvaða sannfæringu nemendur hafa né hvaða hópum þeir tilheyra. Það er einfaldlega einkamál nemenda. Þá sjaldan að persónuleg sannfæring nemenda ber á góma sýni ég fyllstu tillitssemi. Í 14 ára starfi við skólann eru ekki dæmi um að kastast hafi í kekki milli mín og nemenda vegna ólíkra skoðana á lífsins álitamálum.

Heilsunefnd FG segir í erindi dags. 30. mars 2022 að skoðanir mínar valdi ,,vanlíðan nemenda og starfsmanna." Það kemur mér spánskt fyrir sjónir.

Í erindi nefndarinnar er ekki tilgreint hvaða skoðanir um er að ræða. En ég gef mér að varla eru það sjónarmið mín um einstaklingsfrelsi er valdi vanlíðan. Einstaklingurinn er minnsti minnihlutinn. Ef gætt er að frelsi einstaklingsins er í leiðinni slegin skjaldborg um réttindi að tilheyra hópum.

Skoðanir Páls Vilhjálmssonar eru settar fram á einkabloggi sem auðvelt er að sniðganga, valdi þær vanlíðan. Á kennarastofu er ég fremur fámáll ólíkt sumum sem hafa skoðanir á flestu milli himins og jarðar og hafa þær í frammi.

Erindi heilsunefndar FG gefur til kynna að óæskilegt sé að kennarar hafi einhverjar ótilgreindar skoðanir. Nefndin þarf að útskýra hvaða skoðanir átt er við. Þá er eðlilegt að spyrja nefndina hvernig eftirliti er háttað með skoðunum kennara s.s. á kennarastofu, samfélagsmiðlum, bloggi eða fjölmiðlum.

Í ráðningarsamningi kennara er enginn áskilnaður um skoðanir. Ef heilsunefnd FG vill breyta fyrirkomulaginu ætti hún að leggja fram tillögu þess efnis - væntanlega með lista yfir óæskilegar skoðanir.

Um 30 kennarar FG vísa í tilfallandi blogg Konur, trans og raun sem ástæðu undirskriftarsöfnunar um að skoðanir Páls Vilhjálmssonar séu óæskilegar og beri að fordæma. Fyrirsögnin á visir.is er ,,Telja skrif Páls hafa svert ímynd skóla sem standi fyrir fjölbreytileika."

Í mínum huga nær fjölbreytileiki til fjölbreyttra lífsviðhorfa. En það er bara mín skoðun.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þetta er viðkvæmt mál í nútímanum. Það hlýtur þó að vera nauðsynlegt að vera með gagnrýni og opin skoðanaskipti, ekki bara eina skoðun. Búast má við að sumir nemendur og foreldrar séu mjög róttækir. 

Einn alvinsælasti bloggari landsins lendir í meira skítkasti en aðrir, sé hann ekki sammála herskáum femínistum, sem hafa farið með fræði sín inní skólana. Þó finnst mér hann yfirleitt hafa verið málefnalegur. Það er smekksatriði auðvitað. 

Okkar land er laust við ofbeldi í þessum málaflokk að mestu. Ef þöggun á að ríkja er hætt við að í skemmtanalífinu geti sú bæling komið út sem ofbeldi, útrás sem ekki fær öðruvísi framgang.

Samfélagið er og verður alltaf summa ólíkra einstaklinga og skoðana.

Ingólfur Sigurðsson, 6.4.2022 kl. 08:00

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Hverslags fyrirbæri er eiginlega heilsunefnd? 

Ragnhildur Kolka, 6.4.2022 kl. 08:33

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Jæja á bara að reka kallinn

Halldór Jónsson, 6.4.2022 kl. 12:02

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Í þessu tilfelli, sem og víða annars staðar, þessa ömurlegu úthreinsunarplágudaga 21. aldarinnar, er þetta heilsunefndar-fyrirbæri, Ragnhildur, sennilega skylt fyrirbæri sem fram að valdatöku nasista í Þýskalandi 1933 hét "Deutschland Erwache!" (Þýskaland vakni upp!) og hafði sem markmið að gera þýskumælandi fólk og múgmannfjölda "meðvitaðan" um sameiginelg "auðkenni" og "gildi" ("samfélagsins"). Á ensku er þetta í dag kallað að vera "Woke", "vaknaður" eða "vakinn". Og þegar þú ert orðinn vakinn þá ertu e. "Woke".

Það er þetta sem er í gangi þarna. Nýir alræðistilburðir. Hvorki meira né minna.

Þú hefur alla mína samúð Páll og ég vona að þú verðir aldrei "vakinn".

Halda mætti að árið 1933 sé að reyna að renna upp á ný. Að árið það sé orðið "Woke" á ný. En alla daga ársins fram til 1940 var vakinn Adolf Hitler dáður sem þjóðhetja og hefði fengið heiðursútför hefði hann dáið áður en árið 1940 rann upp. Um er að ræða sjö ára "vökutíma".

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 6.4.2022 kl. 12:07

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Held þú sért að misskilja grundvallaratriðið í málinu, Páll. Þetta snýst ekki um þig eða skoðanir þínar, heldur líðan nemenda þinna og samstarfsmanna. Ef kennari veldur nemendum sínum og samstarfsfólki vanlíðan, má þá ekki segja að komnar séu faglegar forsendur fyrir því að segja honum upp störfum?

Eða hvað, hafa nemendur þínir og samstarfsmenn bara gott af því að fá að kenna á alminlegu, popúlísku erki-íhaldi og ættu að nota tækifærið og tvíeflast gegn því?

Mér hefur lengi fundist að frá siðferðilegu sjónarhorni gildi í skólastarfi umfram allt það skilyrðislausa skylduboð Kants að manni beri alltaf að koma fram við aðra eins og þeir séu markmið í sjálfum sér. Þetta hef ég skilið þannig að manni beri skylda til að taka hverjum og einum eins og hann er. Það er ekki alltaf auðvelt fyrir mann, sumt fólk er jú einfaldlega óþolandi. En þarna stendur upp á mann sjálfan (sérstaklega ef maður er kennari gagnvart sér yngri nemendum) að bera hallann. Það er roluskapur að varpa byrðinni yfir á aðra.

Kristján G. Arngrímsson, 6.4.2022 kl. 13:18

6 Smámynd: Hörður Þormar

Eitt er að hafa skoðanir, annað er hvernig maður orðar þær. Menn geta haft andstæðar skoðanir án þess að uppnefna andstæðinginn eða vera með niðrandi ummæli um hann. Slíkt þótti jafnvel vart við hæfi í "Gaggó vest".

Hörður Þormar, 6.4.2022 kl. 13:24

7 Smámynd: Grímur Kjartansson

Til er máltæki um að vera kaþólskari en páfinn

en sá góði maður hefur löngum haft í sínum höndum að bannfæra fólk

þetta bannfæringarvald virðist í dag vera komið yfir til Twitter og þar með alkyns öfgahópa

Grímur Kjartansson, 6.4.2022 kl. 14:43

8 Smámynd: Stefán Örn Valdimarsson

 Kristján: Er ekki einhver mótsögn í að vera með óvinælar skoðanir og vera jafnfram popúlískur? Ef líðan samstarfsmanna á að ráða því hver fær að halda starfi sínu og hver ekki fer þá málið ekki að vandast. Mér líður ílla yfir skoðunum sumra samstarfsmanna minna og þeim líður hugsanlega ílla yfir mínum. Hver á þá að víkja? Á kannski að vera kosning á hverjum ári um hver hefur óvinsælustu skoðanirnar?  En er ekki líka einhver mótsögn í þessari nálgun. Er ekki stöðugt verið að tala um að fagna eigi fjölbreytileikanum? Á það ekki við fjölbreytileika í skoðunum? Er þetta ekki fordómar ganvart þeim sem hafa aðrar skoðanir og verður fólk ekki bara að ná þeim þroska að þola öðruvísi skoðanir.

Stefán Örn Valdimarsson, 6.4.2022 kl. 15:59

9 Smámynd: Stefán Örn Valdimarsson

 Kristján: Er ekki einhver mótsögn í að vera með óvinælar skoðanir og vera jafnframt popúlískur? Ef líðan samstarfsmanna á að ráða því hver fær að halda starfi sínu og hver ekki fer þá málið ekki að vandast. Mér líður ílla yfir skoðunum sumra samstarfsmanna minna og þeim líður hugsanlega ílla yfir mínum. Hver á þá að víkja? Á kannski að vera kosning á hverjum ári um hver hefur óvinsælustu skoðanirnar?  En er ekki líka einhver mótsögn í þessari nálgun. Er ekki stöðugt verið að tala um að fagna eigi fjölbreytileikanum? Á það ekki við fjölbreytileika í skoðunum? Er þetta ekki fordómar ganvart þeim sem hafa aðrar skoðanir og verður fólk ekki bara að ná þeim þroska að þola öðruvísi skoðanir.

Stefán Örn Valdimarsson, 6.4.2022 kl. 16:00

10 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Jú, Stefán, það þarf eins og ég sagði þroska og mikið umburðarlyndi til að umbera sumt fólk. Þar held ég að skólameistari og samstarfsfólk Páls sýni gott fordæmi, enda hefur enginn verið jafn duglegur að verja rétt Páls til skoðana og einmitt skólameistarinn, sem segir eins og Voltaire: Ég fyrirlít skoðanir þínar en ég skal gera allt sem ég get til að tryggja rétt þinn til að tjá þær.

En Páll veit ég ekki hvort getur talist sýna þann sama þroska, og því verður nú að segja að það blasir við að þegar hann talar um að virða eigi fjölbreytileikann þá hljómar það nú ekki beint eins og af heilindum. Frekar eins og passívt agressívt.

Þetta með hver eigi að víkja snýst nú ekki í þessu tilviki um hver eigi meiri rétt, heldur hver sé tillitssamari við náunga sinn. Sennilega gildir þarna þetta með að sá vægi sem vitið hefur meira.

Kristján G. Arngrímsson, 6.4.2022 kl. 16:39

11 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hafi heilsunefnd FG starfað í þau 14 ár sem Páll hefur sinnt kennslu og og skólinn útskrifað nemendur sem hafa spjarað sig vel i framhaldsmenntun allan tímann,er þá einhver ný viðhorf í gangi? Má ég hafa eftir Gunnar Rögnvaldsson? Aðrir /nyir alræðistilburðir, 

Helga Kristjánsdóttir, 7.4.2022 kl. 03:57

12 Smámynd: Gunnar Hólmsteinn Ársælsson

Fyrirgefðu Páll, ert þú núna s.s. orðinn fórnarlambið og Heilsunefndin skúrkurinn? Það er enginn að segja að þú eigir sökótt við nemendur, en upplifun þeirra er raunveruleg. Skrif þín eru raunveruleg og viðbrögðin við þeim líka. Við, ég og þú erum búnir að vinna nákvæmlega jafnlengi í FG. Skrif þín eru  reglulega í fréttum, yfirleitt vegna þess að fólki mislíkar það sem þú skrifar. Ekki vegna þess að því finnst það svo æðislegt. Leitt að segja þetta en það er bara stundum eins og þú megir ekkert aumt sjá, þá verður þú að sparka í það. Þú ert kennari Páll, þú ert fyrirmynd! Þú kennir ekki bara og fræðir. Ég held að þú sért að misskilja hlutverk þitt illilega.

Svo ertu þarna á toppnum á blog.is og vilt eflaust vera þar sem einn af „vinsælustu bloggurum“ landsins. Þessvegna þarftu alltaf að vera að blammera, fá „ratings“. Þú værir ekki á toppnum ef skrif þín snerust bara um veðrið eða kökuuppskriftir.

Mér sýnist líka að þú sért orðinn „nojaður“, gefur í skyn að það sé eitthvað „eftirlit“ með þér. Fólk les það sem birtist í fjölmiðlum og á netinu, þar er fólk og þar ert þú, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Meira eftirlit er það nú ekki.

Mér finnst þessi færsla þín með eindæmum ósmekkleg og get ekki betur séð en að hún sé ákveðin stríðsyfirlýsing. Langar þig virkiilega að hafa það þannig á þínum vinnustað að þú sért sniðgenginn, fólk sé hætt að tala við þig og þess háttar? Því þannig er staðan hjá mörgum. Mér finnst virkilega dapurlegt að skrifa þetta, en ég get ekki á mér setið.

Vona svo að þú njótir páskanna og páskaeggsins sem FG gaf okkur í vikunni, við eigum það þó sameiginlegt. Kv,GH.

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, 7.4.2022 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband