Orð og efndir Evrópu í Úkraínu

Við munum ekki berjast við Rússa í Úkraínu, segir Boris Johnson forsætisráðherra Breta og bætir við: það er ekki á dagskrá.

Vestur-Evrópskum mannslífum verður ekki fórnað í stríði bræðraþjóðanna, sem báðar rekja ættir til Kænugarðs-Rússa frá víkingatíma. Evrópskur almenningur, og nánast heimsbyggðin öll, krefst aðgerða gegn innrás Rússa. En það eina sem bresk stjórnvöld og ESB-ríki bjóða er refsiaðgerðir, vopnasendingar og flóttamannaaðstoð til Úkraínu.

Stjórnvöld í Vestur-Evrópu segja það ekki upphátt, en þau haga sér eins og Úkraínudeilan sé borgarastyrjöld. Bandaríkin láta eins og um sé að ræða evrópska innansveitarkróníku fremur en að heimsfriðurinn sé í hættu.

Áherslan í fréttaflutningi vestrænna fjölmiðla breytist er stríðsdögum fjölgar. Fyrstu dagana snerust fréttir um hetjudáðir úkraínska hersins, sbr. atvikið á Snákaeyju, sem reyndist falsfrétt. Nú beinist kastljósið að flóttamannastraumi til Vestur-Evrópu.

Salome Zourabichvili forseti Georgíu, sem Rússar réðust inn í 2008, var til viðtals á alþjóðaútgáfu France 24 í gær. Forsetinn fordæmdi framferði Rússa í Úkraínu en varð svarafátt þegar fréttamaður stöðvarinnar spurði eftirfarandi: mun það ekki aðeins auka á eymd úkraínsku þjóðarinnar að vestrænar þjóðir skaffi fleiri vopn?

Úkraína sótti um hraðferð inn í Evrópusambandið um helgina. Umsóknin var sett í skúffu í Brussel. Neyðin kennir ekki nöktu skrifræðinu í ESB að spinna heldur hika, tefja og drepa á dreif. Í áðurnefndu viðtali við Salome Zourabichvili forseta Georgíu sagðist hún líka vilja að landið sitt fengi hraðferð inn í ESB. Það mun hvorki gerast í bráð né lengd. Táknræn dygðaflöggun, hjálpar engum segir þýskur dálkahöfundur.

Úkraína er fórnarlamb atburðarásar sem verður ekki stöðvuð með orðum. Aðeins efndir á yfirlýsingum gætu breytt ástandinu. En efndir fælu í sér stigmögnun stríðsins, meiri hörmungar. Stjórnvöld í Vestur-Evrópu vita hverjum klukkan glymur ef þau breyta orðum þegna sinna í hernaðaraðgerðir. Þeim sjálfum. Evrópa, eins og hún er skipulögð, er vanhæf til að heyja stríð. Nató er stjórnað af Bandaríkjunum sem töpuðu stríðslystinni í Írak, Sýrlandi og Afganistan.

Engin leið er að spá um rás atburða næstu daga. En það eru meiri líkur á þrýstingur aukist á úkraínsk stjórnvöld að leita samninga við Rússa en að alþjóðlegar refsiaðgerðir gegn Rússum aftri þeim frá stríðsmarkmiðum sínum.

Eitt má þó bóka. Um leið og stríðinu í Úkraínu linnir, vonandi sem fyrst, munu þær raddir þagna í Brussel og höfuðborgum meginlandsins sem fjálglega tala um fullveldi og sjálfstæði þjóða. Evrópusambandið stendur fyrir önnur gildi en þjóðmenningu og frjáls fullvalda ríki.

 


mbl.is Ákveða frekari þvinganir á næstu dögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband