Pútín tekur fyrstu sneiðina af Úkraínu

Obama, þáverandi Bandaríkjaforseti, sagði vorið 2014, fyrir átta árum, að Rússland væri miðlungsríki sem hefði nokkur áhrif í næsta nágrenni en væri búið að vera sem stórveldi. Núna biður Biden Bandaríkjaforseti um fund með Pútín til að forða Evrópu, og heiminum öllum, frá stórstyrjöld. Biden er áhorfandi að atburðarás þar sem Pútín ræður framvindunni. Enda frestaði Pútín fundinum.

Ef Rússland væri miðlungsríki, eins og Frakkland og Þýskaland, þyrfti ekkert að ræða við Pútín. Honum yrði einfaldlega sagt að hypja sig annars hlyti hann verra af. En það er öðru nær. Pútín tók tvö austurhéruð Úkraínu í gær, yfirleitt kölluð Donbass, og vantar aðeins önnur tvö til til að ná landtengingu við Krímskaga sem hann hirti af Úkraínu fyrir átta árum - þegar Obama sagði Rússland miðlungsríki.

Pútin tók við völdum í Rússlandi um aldamótin. Í tuttugu ár hefur hann undirbúið að Rússland fái á ný viðurkenningu sem stórveldi. Hann sigraði Bandaríkin í Sýrlandi 2016, með því að styðja Assad forseta gegn uppreisnarmönnum studdum af vesturlöndum.

Bandaríkin urðu fyrir hrakförum í Írak 2003-2010 og niðurlægingu í Afganistan á síðasta ári eftir lengsta stríð í sögu Bandaríkjanna. Þótt Bandaríkin séu enn risaveldi taka hörmungar síðustu áratuga sinn toll af pólitísku þreki og valdaásýnd. Risinn í vestri veit ekki sínu viti í utanríkismálum (innanríkismálum ekki heldur) og er óstöðugur í framgöngu.

Pútín lítur svo á að Úkraínudeilan snúist um að vesturveldin taki tillit til öryggissjónarmiða Rússlands. Frá lokum kalda stríðsins er stöðug útþensla í austurátt af hálfu Nató og ESB með bandarískum stuðningi.

Eftir lok kalda stríðsins stækkuðu Bandaríkin og vesturveldin Nató til að þrengja að Rússum. Þegar árið 1994 var Póllandi, Tékklandi, Slóvakíu og Ungverjalandi boðin aðild. Þessi ríki höfðu verið í Varsjárbandalagi Sovétríkjanna. Tíu árum síðar var Eystrasaltslöndum boðin innganga. Þau höfðu verið hluti Sovétríkjanna.

Rússum var þvert um geð að næstu nágrannar sínir í vestri yrðu aðilar að hernaðarbandalagi stefnt gegn sér. Þegar innlimun Úkraínu og Georgíu í Nató kom til tals þegar leið á fyrsta áratug aldarinnar sögðu Rússar og Pútín njet, hingað og ekki lengra.

Síðan hefur verið Úkraínudeila, mismikið í fréttum þó. Vesturveldin steyptu af stóli Jakúsjenkó forseta Úkraínu árið 2014. Hann þótti of vinveittur Rússum. Í framhaldi tóku Rússar Krímskaga af Úkraínu, sem fékk skagann gefins frá Krútsjoff á sovéttímanum. Uppreisnarmenn hliðhollir Rússum tóku völdin í austurhéruðum Úkraínu, Donbass. Núna verða þau innlimuð í Rússland. Líklega er það aðeins byrjunin. 

Vesturlönd gerðu mistök eftir sigurinn í kalda stríðinu. Í stað þess að efla vináttu, viðskipti og menningarsamskipti fóru vesturlönd þá leið að viðhalda Rússagrýlunni frá kalda stríðinu. Mistökin stafa af drambi, sem er falli næst.

Hnignun vesturveldanna er auðsæ. Bandaríkin, ESB og Nató hafa gefið út að þau munu ekki styðja Úkraínu í hernaði. Eftir hrakfarir í miðausturlöndum og Afganistan eru vesturlönd vanmáttug. Pútín er kominn með kínverskt skotleyfi á Úkraínu. Þurfti aðeins að hinkra fram yfir Ólympíuleikana í Peking.

Miðlungsríkið Rússland teiknar upp ný landamæri í Austur-Evrópu. Vesturlönd hóta viðskiptaþvingunum en geta samt ekki verið án rússneskrar orku. Sum stríð eru töpuð fyrirfram.     


mbl.is Pútín viðurkennir sjálfstæði svæðanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þormar

Rússland er "stórveldi" að flatatmáli og vegna þess að Rússar eiga kjarnorkuvopn, að öðru leyti er það miðlungsríki.

Reyndar má ekki gleyma að Úkraína áttu víst þriðja stærsta kjarnorkuvopnabúr í heimi eftir fall Sovétríkjanna, þ.e. næst á eftir Bandaríkjunum og Rússlandi. Þeir gáfu vopnin bræðrum sínum, Rússum, gegn loforði um að landamæri Úkraínu væru tryggð. Það vita allir hvernig það loforð var haldið.

Hörður Þormar, 22.2.2022 kl. 14:08

2 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Það er all mikið annað hvort ríkjunum var boðin aðild eða hvort þau sósttust eftir aðild og óskuðau hennar jafnvel marg ítrekað og formlega einmitt til að vera varin gegn hernámi Rússa — ef að jafnvel þegar Rússar hefðu endurreist herafla sinn og stjórnarfar alræðisríkisins sem þeir virðast alltaf sækja í.

Þeir virðast sækjast eftir Zar sem sýnir mátt Rússlands og megin. O nokkur þeirra ríkja sem voru áður undir hæl USSR óskuðu og gnegu eftir inngöngu í NATO til að vera varin fyrir ágengi Rússa.

Úkraína hefur líka marg ítrekað óskað slíkrar aðildar og síðast fyrir nokkrum dögum — en ekki fengið.

Helgi Jóhann Hauksson, 22.2.2022 kl. 14:13

3 Smámynd: Gunnar Hólmsteinn Ársælsson

Páll, þú mærir hér mildilega Pútín, enda ertu hallur undir "stóra og sterka kalla“, sem gefa lítið í allt og alla.

Pútín er "bully“ - tuddi- hann er í einhverri allsherjar afneitun, getur ekki sætt sig við hluti sem gerðust fyrir áratugum, jafnvel árhundruðum saman. Spilar sig svo sem eitthvað fórnarlamb, "þið vilduð ekki vera vinir okkar“ o.s.frv.

Hann er líka lögbrjótur, hefur á undanförnum árum þverbrotið alþjóðalög og samþykktir, hrifsaði til sín landsvæði og hernumið svæði, mun sennilega gera það í Donetsk og Luhansk líka.

Úkraína er frjálst og fullvalda ríki, en því getur Pútín ekki kyngt, þess vegna aðgerðir sem þessar. En hann ræður því einn, enda er hann ekkert annað en einræðisherra og "Tsar", með ekkert ytra eftirlit, eins og í eðlilegum ríkjum.

Árið 2014 hristi almenningur af sér forseta sem var strengjabrúða Pútíns og sem átti að gera eins og Pútín vildi, vera áfram leppur og lúta stjórn Moskvu. Þess vegna var gerð bylting og Viktor Janúkóvits hrökklaðist úr landi. Pútín hræðist örlög sem þessi. Meirhluti íbúanna vill tengjast Evrópu, ekki Rússlandi.

Úkraínubúar vilja ekki tilheyra ríki þar sem bæði blaðamenn og stjórnarandstæðingar eru myrtir eða hnepptir í fangelsi. Þeir vilja ekki tilheyra hálf-fasísku, de facto einræðisríki, þar sem mannréttindu eru fótum troðin og nánast ógnarstjórn ríkir. Svo einfalt (og skiljanlegt) er það. Mjög vafasamt er að flokka Rússland sem lýðræðisríki.

Allt bræðraþel Pútíns var bara reykur, innihaldslaus orð. En hann er búinn að tapa Úkraínu, það eitt er víst. 

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, 22.2.2022 kl. 19:42

4 Smámynd: Guðmundur Böðvarsson

Rússar borga þó eftirlaun og örorku og eru duglegir við að halda skólum og sjúkrahúsum opnum.

Guðmundur Böðvarsson, 22.2.2022 kl. 19:54

5 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Hver er Óbama?

Guðjón E. Hreinberg, 22.2.2022 kl. 21:59

6 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Er ástæðan fyrir því að Úkraína hefur hvorki fengið inn í ESB eða NATO sú að þar er botnlaus spilling? Kosningasvik, mútur og bræðravíg. Menn ættu kannski frekar að kynna sér mannréttindabrot sem verið er að fremja í Kanada, þar sem friðsamir mótmælendur eru traðkaðir niður, lamið með kylfum og kýldir með hnjám. Atvinnutæki þeirra skemmd og bankareikningar frystir. Við sem munum óttann sem greip um sig hér í bankahruninu ættum að skilja tilfinninguna að vita ekki hver fjárhagsstaða verður næsta dag. Hvort maður á fyrir mat eða reikningum. 

Ragnhildur Kolka, 22.2.2022 kl. 22:26

7 Smámynd: Borgþór Jónsson

"Úkraínubúar vilja ekki tilheyra ríki þar sem bæði blaðamenn og stjórnarandstæðingar eru myrtir eða hnepptir í fangelsi."

Hversu áttavilltur getur einn maður orðið
Strax eftir valdaránið á Maidan voru tveir stjórnmálaflokkar bannaðir af Nasistunum.
Á síðasta ári lokuðu Úkrainsk stjórnvöld fjölda útvarps og sjónvarpsstöðva til að koma í veg fyrir að skoðanir mikils meirihluta landsmanna heyrðust.
Nú situr foringi eina stjórnarandstöðuflokksins í fangelsi og annar stjórnmálaleiðtogi er ranglega ásakaður um landráð.

Luhansk og Donetsk lýstu bæði yfir sjálfstæði fyrir nokkrum árum.
Íbúar þar hafa fullan rétt til þess, eins og kemur fram í dómi í máli Kosovo.
Nú njóta þessi tvö lýðveldi verndar Rússlands.
Sama gegnir um Krímskaga.
Það er vert að hafa í huga að þetta er lagatúlkun sem Vesturveldin börðu í gegn í Kosovomálinu. Nú er þetta orðið lagafordæmi sem aðrir geta nýtt sér

Ekkert af þessu hefði gerts nema fyrir gegndarlaust ofbeldi Úkraindkara stjórnvalda gegn Rússneskumæalandi fólki.
Nú er því miður frekar líklegt að ofsóknir gegn Rússneskumælandi fólki færist í aukana og fleiri landsvæði muni reyna að brjótast undan okinu.

Borgþór Jónsson, 23.2.2022 kl. 07:44

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ef þessi umræddu héröð eru full af Rússum, þá er ég viss um að annað hvort Pútín eða Stalín (mögulega Krúsjov þó mér þyki það ólíklegt) hafi plantað þeim þar.

Það er auðvelt fyrir einræðisherra / alræðisríki að planta íbúum sínum í leppríkin til að grafa undan hinum innfædda fólksfjölda eða þjóð. Svipað og verið er að gera á Vesturlöndum með hinu svokallaða flóttamannavandamáli.

Ef t.d. Akureyri heldur áfram þessari glórulausu stefnu í innflytjendamálum, yrði Kína ekki í miklum vandræðum með að smala saman 20 þúsund flóttamönnum (innan gæsalappa) og senda þá til Akureyrar.

Síðan eftir 20-30 ár þegar þeir hafa fjölgað sér sæmilega, gætu Kínverjarnir tekið sig saman, lýst  yfir sjálfstæði Norðurlands og klofið kjördæmið frá Íslandi.

Síðan viðurkennir Beijing hið nýja land (aftur innan gæsalappa) sem sjálfstætt ríki og sendir 10 þúsund hermenn þangað til að berja niður íslenska andstöðu. Myndum við sætta okkur við það?

Kannski kemur vera okkar í NATÓ í veg fyrir að svona gæti gerst, en þó veit ég það ekki. Ef við viðurkennum hernám Rússa og að þeir hirði sneiðar af nágrannaríkjum eftir geðþótta, yrðum við þá ekki að vera samkvæm okkur sjálfum og viðurkenna Norður-Kína, bara til að gæta jafnræðis.

Theódór Norðkvist, 23.2.2022 kl. 10:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband