Frá hruni til stjórnleysis

Líkur eru á að sjö flokkar taki sæti á alþingi eftir þingkosningar á laugardag. Enginn flokkur fær meira en 30 prósent fylgi og allir, nema einn eða tveir, verða undir 15 prósentum.

Hvers vegna eru valkostirnir ekki skýrari?

Hrunið felldi ekki aðeins fjármálakerfið heldur einnig viðtekin stjórnmál. Fram að hruni voru viðtekin stjórnmál að Sjálfstæðisflokkurinn valdi sér samstarfsflokk í ríkisstjórn. Í tæp 20 ár, 1991 - 2009, starfaði móðurflokkurinn með tveim (þrem) öðrum: Alþýðuflokki, Framsóknarflokki og nýja Alþýðuflokknum (Samfylkingu).

Við hrunið riðluðust viðtekin stjórnmál. Kjölfestan losnaði og þjóðarskútan varð að rekaldi. Hásetarnir (Samfylkingin) gerðu uppreisn, ráku skipstjórann, Geir H. Haarde, og stefndu honum fyrir landsdóm eftir kosningasigur 2009. Til fylgilags fékk Samfylkingin flokkinn sem var stofnaður til að verða eilífur mótmælandi og óstjórntækur eftir því - Vg.

Sjálfstæðisflokkurinn riðaði til falls. Ættarskömm helstu fjölskyldu móðurflokksins stökk fram á sviðið og efndi til flokksnefnu með það eitt hlutverk að liggja undir Samfylkingu.

Kemur þá til sögunnar bjargvættur borgaralegra stjórnmála, Sigmundur Davíð. Kosningasigur hans 2013 tryggði tveggja flokka stjórn bæjaríhaldsins og framsóknarsveitarinnar.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Góða fólkið í vinstrinu komst í feitt þegar upplýst var að eiginkona Sigmundar Davíðs átti peninga á útlenskum bankareikningi fyrir hrun. Í boði RÚV var bjargvætturinn krossfestur. Sveitavargurinn, sérstaklega sporgöngumenn Haukdæla og Gissurar jarls, bætti um betur og felldi bjargvættinn af formannsstóli á meðan hann var negldur á RÚV-krossinum. En þrátt fyrir mótlætið brotnar hann ekki og er mættur til leiks á ný.

Eftir fall Sigmundar Davíðs-stjórnarinnar tók við stjórnarkreppa sem enn stendur. Kosningar 2016 og aftur á laugardag.

Í umróti stjórnleysis er að finna skrautlega fugla. Ættarskömmin, sem vill veðsetja fjölskyldusilfrið til Brussel; sniffandi stelpuglennu sem leikur sjóræningja; upploginn stærðfræðing með perraáráttu; hassreykjandi ráðherra; mannorðsmorðingi að norðan; sauðdrukkinn kverúlant úr Skagafirði og kúlulánadrottning úr Hafnarfirði.

Stjórnmál án kjölfestu eru óreiða. Eftir tvo daga getum við aukið á óreiðuna eða dregið úr henni. Valið er okkar. En aðeins í einn dag.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Snilldar samantekt og verður ekki betur lýst.

Sigurður Kristján Hjaltested, 27.10.2017 kl. 00:02

2 Smámynd: Haukur Árnason

Góð lýsing, en ekki gæfuleg.

Haukur Árnason, 27.10.2017 kl. 00:12

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Jedúddamía!

Wilhelm Emilsson, 27.10.2017 kl. 00:18

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kann að vera að íslensk stjórnmál séu ekki gæfuleg. En þarf orðbragðið til þess að lýsa þeim að vera á enn lægra plani?

Ómar Ragnarsson, 27.10.2017 kl. 01:15

5 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Ef orðbragði og rætnum árásum ólíkra afla í pólitík, á Íslandi, væri sett í samhengi, mun sennilega ýmislegt koma í ljós og ekki ólíklegt að vinningshafinn lenti vinstra megin við miðju, Ómar.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 27.10.2017 kl. 02:08

6 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Þakka góðan pistil, Páll.

Halldór Egill Guðnason, 27.10.2017 kl. 02:09

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Þegar allt um þrýtur er listilega samsett orðbragð líklegra til að hrífa frekar en skyrpið úr grófu áttinni frá vinstri. spjótslag Páls meiðir meira fyrir bragðið og helgast af máltækinu,"Að duga eða drepast" ... Áfram Ísland. 

Helga Kristjánsdóttir, 27.10.2017 kl. 05:01

8 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Vonandi ertu ekki að segja að þegar stjórnleysinu sleppir þá komi hrunið aftur.

Jósef Smári Ásmundsson, 27.10.2017 kl. 06:57

9 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta orðbragð kemur mér á óvart, úr þessari átt.

Ertu nokkuð fullur Páll?

Þorsteinn Siglaugsson, 28.10.2017 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband