Tístið og dauði litlu gulu hænunnar

Tíst er smáskilaboð, tvær til fjórar setningar, á samfélagsmiðli. Donald Trump Bandaríkjaforseti notar tístið til að koma pólitískum skilaboðum á framfæri. Í viðtengdri frétt mbl.is er vitnað í tíst forsetans um að þolinmæðin gagnvart kjarnorkuveldinu Norður-Kóreu sé á þrotum.

Fyrir nokkrum dögum tísti forsetinn háðsglósu um andlitsaðgerð spjallþáttstjórnanda sem hafði gagnrýnt hann. Það tíst er leiðaraefni stærsta dagblaðs Bandaríkjann, New York Times, sem birtir leiðarann efst á forsíðu vefútgáfunnar.

Fyrir daga tístsins, og rafmiðla yfirleitt, var dæmisagan, allegorían, notuð til að koma siðferðilegum og pólitískum skilaboðum á framfæri. Dæmisögur Jesú boðuðu náungakærleik, Dýrbær Orwells er pólitísk dæmisaga og Flugnahöfðinginn eftir Golding útskýrði pólitík og siðferði. Nýju fötin keisarans eftir H.C. Andersen er saga um trúgirni. Sagan um litlu gulu hænuna verðlaunaði iðni og setti ónytjunga í skammarkrókinn.

Í rit- og talmáli var efni dæmisagna heimfært upp á pólitískar og samfélagslegar aðstæður. Lesendur og áheyrendur vissu oftast hvað væri verið að fara og voru ýmist sammála eða ósammála líkingunni. Eins og gengur.

Tístpólitík rúmar hvorki dæmisögur né vísanir í þær. Tíst er smáskilaboð með fullyrðingum: ,,þolinmæðin á þrotun" - ,,misheppnuð andlitsaðgerð."

Efni dæmisagna býður upp á túlkun og staðfærslu. Tístið slengir fram staðhæfingum. Tístið og dauði litlu gulu hænunnar vitna um nýja tíma þar sem ígrundun lætur í minni pokann fyrir sleggjudómum.

 


mbl.is Þolinmæðin gagnvart N-Kóreu þrotin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ýmis orð og yfirlýsingar sem látnar eru falla í pólitískri umræðu í BNA eru ekki boðlegar siðuðu samfélagi. Við erum ekki enn komin á það stig, en ef maður lítur til fortíðar þá liggja allir straumar bandarískrar menningar hingað fyrr eða síðar.

Jón Þór Ólafsson steig fyrsta skrefið í pontu á Alþingi nú í vor.

Ragnhildur Kolka, 1.7.2017 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband