Valdablokk vinstriflokka er sniðganga lýðræðis

Stjórnmálaflokkar sem bjóða fram lista lýsa þar með yfir að þeir standa fyrir pólitísk málefni sem aðrir flokkar gera ekki - annars væru þeir ekki að bjóða fram. Kjósendur gera upp á milli ólíkra kosta í kosningum og eftir þær fá 63 þingmenn á alþingi það hlutverk að mynda starfhæfan meirihluta. Þetta er kjarni þingræðisins.

Tilraun Pírata að setja saman valdablokk fyrir kosningar er sniðganga þess lýðræðis sem Íslendingar hafa stundað frá stofnun lýðveldis. Ríkisstjórnarmyndun fyrir kosningar kallar á spurninguna: hvers vegna buðu Píratar ekki sameiginlega fram með öðrum flokkum?

Valdablokk vinstriflokkanna undir forystu Pírata verður ekki að veruleika. Aðeins Samfylking þekkist boð Pírata. En tilraunin til að mynda ríkisstjórn fyrir kosningar sýnir að virðing fyrir lýðræðishefðum þjóðarinnar er engin.


mbl.is Afgerandi útspil Pírata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég spyr aftur: Þegar Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkkur buðu fram 1963, 1967 og 1971 með loforði um að mynda ríkisstjórn eftir kosningar ef þeir næðu meirihluta, voru þeir "að sniðganga lýðræðið" og sýna með því "að virðing fyrir lýðræðishefðum væri engin" hjá þeim?

Ómar Ragnarsson, 17.10.2016 kl. 13:51

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er til lausn á þessu vandamáli: persónukjör. Með því væri hægt að ná fram afnámi 4flokkakerfisins og kjósendur gætu kosið fulltrúa sína á grundvelli verðleika þeirra í stað flokksskírteina og sérhagsmuna.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.10.2016 kl. 14:25

3 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Við búum við þá hefð að á 4ra ára fresti eða skemur eru almennar kosningar. Fyrir daga lýðveldisins voru reyndar persónukosningar. Gallinn á þeim er að þingræði krefst meirihluta á alþingi og þegar allir eru þar kosnir sem persónur, en ekki af listum, er hætt við glundroða - að ekki séu nefnd yfirgengileg hrossakaup.

Ómar spyr hvort gamla viðreisn sniðgekk lýðræðið með óformlegu kosningabandalagi. Til að meta það þarf ræða rökin fyrir kosningabandalaginu. Ómar, þú kemur með fyrsta innleggið.

Páll Vilhjálmsson, 17.10.2016 kl. 15:34

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Persónukjör útilokar ekki möguleikann á að frambjóðendur myndi með sér bandalög og bjóði jafnvel fram undir sameiginlegri stefnu. Enn fremur útilokar það ekki að 32 eða fleiri þingmenn myndi með sér meirihluta til þess að standa á bak við þá ríkisstjórn sem forseti skipar. Lykilatriðið er hinsvegar að þau gætu kjósendur valið sér fulltrúa en ekki flokka, sem kæmi mun betur heim og saman við það stjórnarskrárbundna fyrirkomulag að einstaklingar skuli fara með atkvæðisrétt á Alþingi en ekki flokkar.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.10.2016 kl. 15:40

5 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Þú leggur sem sagt til, Guðmundur, að forseti skipi ríkisstjórn og síðan verði fundinn meirihluti. Venjan er sú að oddviti lista fái umboð til að mynda stjórn. Leiðin sem þú boðar er uppskrift að baktjaldamakki.

Flestir framboðslistar eru valdir í prófkjöri. Þar gefst flokksmönnum, og jafnvel utanflokksmönnum, að kjósa sér fulltrúa. Ef persónukjör yrði til alþingis myndu flokkar myndast á þingi eftir kosningar, út frá sjónarmiðum sem ekki var hægt að þekkja til fyrir kosningar. Við værum verr sett eftir slíkar breytingar.

Páll Vilhjálmsson, 17.10.2016 kl. 18:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband