Alþjóðavæðing færir okkur fátækt, Trump og Brexit

Alþjóðavæðing í viðskiptum og fólksflutningum átti að auka velmegun, bæði í þróuðum iðnríkjum sem og vanþróuðum ríkjum þriðja heimsins. Hugmyndafræði alþjóðavæðingar má rekja til sígildra kenninga frá 18. og 19. öld um ábata frjálsrar verslunar.

Á síðustu árum og misserum er vaxandi efi um ágæti alþjóðavæðingar. Andóf gegn alþjóðavæðingu birtist í ýmsum myndum, t.d. úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, Brexit, og stuðningi bandarískra launþega við Donald Trump.

Nóbelshagfræðingurinn Joseph E. Stiglitz dregur saman í grein tölfræði sem sýnir að almennir launþegar í Bandaríkjunum og Evrópu hafa tapað á alþjóðavæðingu síðustu áratuga. Aðeins þeir ríkustu, t.d. ríkustu tíu prósent Bandaríkjamann, bættu hag sinn - hinir ýmist stóðu í stað eða drógust aftur úr í tekjum. Launþegar á vesturlöndum, sem tapa á alþjóðavæðingunni, leita að farvegi til að tjá óánægju sína. Trump og Brexit eru slíkir farvegir.

Alþjóðavæðingu verður ekki einni kennt um dýpri gjá milli þeirra ríkustu og alls almennings á vesturlöndum, tækibreytingar koma einnig við sögu. En alþjóðavæðing, og hugmyndafræðin þar á bakvið um frjálst flæði fjármagns, viðskipta og fólks, er samnefnarinn.

Engin einföld lausn er á þessum vanda. Ef alþjóðavæðing yrði sett í bakkgír, tollamúrar reistir, hömlur settar á tilfærslu fjármagns og landamæri lokuð á fólksflutninga er hætt við að allir myndu tapa, bæði í þróunarríkjum og vanþróuðum. Alþjóðavæðingin hefur, þrátt fyrir allt, knúið áfram hagvöxt um allan heim.

Stiglitz leggur til aukin útgjöld til velferðar þeirra sem tapa á alþjóðavæðingunni og vísar til fordæmis Norðurlandanna. Kannski yrði það nóg en mögulega er það orðið of seint.

Allt eins líklegt er að efnahagsbúskapur á alþjóðavísu sé kominn að vatnaskilum. Að ekki sé lengur mögulegt að notast við alþjóðavæðingu sem aðferð til að auka hagsæld. Kannski er að við þurfum ný viðmið samhliða nýjum skilningi á velmegun sem ylli róttækum breytingum.

Ef það er tilfellið, að alþjóðavæðing hafi runnið sitt skeið, og nýtt fyrirkomulag sé handan sjóndeildarhringsins, er hætt við að óreiða setji svip sinn á vatnaskilin. Trump og Brexit væru þá fyrirboði þess sem koma skal.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Gott að lesa þennan pistil! Gerum ráð fyrir hinu besta.

Helga Kristjánsdóttir, 6.8.2016 kl. 11:23

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hér er hamast á vitlausum enda. Alþjóðvæðingin gæti fært þjóðum heims aukna hagsæld ef séð væri til þess að aðeins þeir ríkustu græddu langmest.

Meira að segja Trump verður að taka kínversku tilboði í húfuna með slagorðinu hans.

Ef Trump fengi það í gegn að allt amerískt væri framleitt þar í landi myndu Japan, Kína  og önnur lönd bjóða miklu lægra verð í samkeppninniog amerískur almenningur myndi borga brúsann fyrir stórhækkað verð innanlands á vörum, sem mnú eru framleiddar erlendis og fluttar inn til Bandaríkjanna.

Ómar Ragnarsson, 6.8.2016 kl. 16:02

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ekki endilega hamast á vitlausum enda.  Ef alþjóðavæðingin byggist á því að vörur séu framleiddar þar sem vinnuafl er ódýrast, hvað gerist þá hjá svokölluðum velferðarþjóðum (sem hafa efni á því að flytja inn nauðsynjavörur sínar) ef vinnuaflið eltir vörurnar?  Verða þá einhver störf fyrir það í boði í landi innflytjandans ef þar er engin framleiðsla?  Einhvers staðar hlýtur allavega að þurfa að setja einhverjar hömlur - eða koma á verkaskiptingu.

Kolbrún Hilmars, 6.8.2016 kl. 16:39

4 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Bandaríkjamenn hafa nú um nokkurra áratuga skeið flutt framleiðslu vara sinna úr landi, mest til Asíulanda. Nú er svo komið að yfir 43 milljónir manna í USA eru á svo kölluðum "food stamps" þ.e. fá styrk frá ríkinu til að framfleyta sér og sínum. Atvinnuþátttaka í mars s.l. í USA var 62,82% þar af var 3,13% atvinnuleysi eða 59,69% höfðu vinnu, þeir sem ekki voru í hópi atvinnuþátttakenda voru hins vegar 37,18%. Í þeim hópi eru þeir sem hafa gefist upp á að leita sér vinnu og/eða eru búnir að vera of lengi atvinnulausir þannig að þeir teljast ekki til atvinnuþátttakenda. Síðan er ótiltekinn fjöldi þeirra sem hafa neyðst til að sætta sig við hlutastarf.

Þetta er tilkomið vegna alþjóðavæðingarinnar.

Tómas Ibsen Halldórsson, 6.8.2016 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband