Fallegasta stelpan er ekki á ballinu - um banka

Þrír aðilar geta átt banka hér á landi: einkaframtakið, ríkið og lífeyrissjóðir. Bankakerfið fram undir síðustu aldamót var tengt atvinnuvegunum; Verzlunarbanki, Útvegsbanki, Iðnaðarbanki og Búnaðarbanki. Þetta voru í meginatriðum ríkisbankar.

Í kringum aldamótin tók einkaframtakið yfir bankana og rændi þá að innan á fáum árum. Einkaframtakið og eignarhald þess á bönkum orsakaði hrunið 2008. Það er söguleg staðreynd sem aðeins bjánar afneita.

Fallegasta stelpan í flóru fjármálafyrirtækja voru sparisjóðirnir sem störfuðu um allt land og voru fjármálastofnanir fólksins. Einkaframtakið nauðgaði fallegustu stelpunni og því er hún ekki á ballinu núna, þegar ákveðið verður hverjir hljóta bankana: einkaframtakið, lífeyrissjóðir eða ríkið.

Einkaframtakið er of ábyrgðarlaust til að reka banka á eigin forsendum. Hreinir ríkisbankar eru á hinn bóginn tæplega raunhæf lausn til frambúðar fyrir allt bankakerfið. Ef ríkið er einrátt á fjármálamarkaði er hætt við stöðnun og spillingu.

Þá eru ónefndir lífeyrissjóðirnir, sem að upplagi eru félagslegar stofnanir. Kosturinn við aðkomu lífeyrissjóðanna er þeir eru fulltrúar kynslóðanna. Lífeyrissjóðirnir lána ungu fólki um leið og þeir ávaxta lífeyri hinna eldri. En það sama gildir um lífeyrissjóði og ríkið; ef þeir eiga einir bankana er hætt við stöðnun og spillingu.   

Besti kosturinn við núverandi aðstæður er að bankakerfið verði hugsað þannig að allir þrír meginaðilarnir komi að málum. Einkaframtakið og lífeyrissjóðirnir kaupi Arion. Ríkið selji 70% í Íslandsbanka yfir lengri tíma en eigi Landsbankann að fullu um fyrirsjáanlega framtíð.

Það er hægt að mynda pólitíska samstöðu um fjármálakerfið á þessum nótum. Það er í hendi ríkisstjórnarinnar að mynda þá samstöðu.


mbl.is Tveir aðilar bítast um Arion banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hér gleymist að nefna fjórða möguleikann á eignarhaldi: almenningur. Leiðin til þess er sáraeinföld. Svo tekið sé dæmi ef ríkið eignast Íslandsbanka að fullu eins og allt stefnir í. Þá væri einfaldlega hægt að skipta hlutafénu upp í 330.000 jafna hluta og póstsenda hvert hlutabréf heim til eigandans. Auk þess að vera sú sanngjarnasta er þetta um leið einfaldasta leiðin til að tryggja dreift eignarhald og gegnsætt einkavæðingarferli.

Guðmundur Ásgeirsson, 7.11.2015 kl. 13:57

2 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Góður pistill að stofni til hjá þér kæri Páll að venju þó ég sé þér ekki fullkomlega sammála.

Ég treysti lífeyrisbófunum ekki hætishót síðan þeir ásamt útrásaböðlunum brenndu upp í nágrenni við helming eigna lífeyrisþega á altari þess kölska sem þeir böðlar vegsama.

Hugmynd Guðmundar er góð, það yrði sannkölluð þjóðareign en ekki ríkiseign. Það vill enginn spillinguna og óráðsínuna sem var við lýsi um áratugi í ríkisbankakerfinu á síðustu öld með tilherandi björgunarpökkum úr vasa skattgreiðenda til að laga halla bankanna með framlögum.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 7.11.2015 kl. 15:38

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Einkavæðing bankanna ætti ekki að vera í hug nokkurs manns, eftir það sem á undan er gengið. Þá er ríkið og lífeyrissjóðir eftir.

Munurinn á ríkinu og lífeyrissjóðunum er algjör. Til stjórnar á ríkissjóð kjósa landsmenn á fjögurra ára frest. Stjórnun lífeyrissjóðanna er á fárra manna hendi, sem ekkert umboð hefur frá landsmönnum, til þeirra stjórna er valið af örlítið fleira fólki en í þær velst.

Því má útiloka lífeyrissjóðanna, enda lítill munur á þeim og því sem ríkti í bankakerfinu fyrir hrun.

Þá er ríkið eitt eftir.

Að deila út hlutum bankans til allra landsmanna er göfug hugsjón. Hún virkar þó ekki nema blátt bann verði lagt við sölu hvers hlutar og þá spurning hvert eignarhaldið er. Ef heimilt verður að selja þá, munu allir þessir 330.000 hlutir verða komnir á fárra manna hendur áður en hendi er veifað.

Gunnar Heiðarsson, 8.11.2015 kl. 08:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband