Jónas, Oddný og ástand Samfylkingar

Samfylkingin er eins og róni í vímualgleymi, skrifar Jónas Kristjánsson, um frjálshyggjudaður Samfylkingar sem oft er kennt við Tony Blair. Á Facebooksíðu Jónasar andmælir Oddný Harðardóttir fyrrverandi ráðherra og segir flokkinn ekki í greipum blairisma.

Í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki 2007 til 2009 gekk Samfylkingin iðulega lengra í átt frjálshyggju en almennir sjálfstæðismenn. Ráðherrar flokksins, Össur Skarphéðinsson og Björgvin G. Sigurðsson, gumuðu af því að vera félagar í breska Verkamannaflokknum, sem þá var undir stjórn Tony Blair. Varaformaður flokksins boðaði tvítyngda stjórnsýslu, þar sem enska skyldi jafnrétthá íslensku, til að mylja undir banka, erlenda fjárfestingu og sæstreng.

Samfylkingin var frjálshyggjuflokkur fram að hruni, reyndi að koma sér upp flokksauðmönnum s.s. Jóni Ásgeiri og Jóni Ólafs og talaði máli annarra auðmanna sem komust upp á kant við forystu Sjálfstæðisflokksins, t.d. bankastjóra Kaupþings. Á landsfundi Samfylkingar 2003 var enn annar auðmaður, Björgólfur Guðmundsson, eigandi Landsbankans, fenginn í málstofu að ræða útrás íslensks atvinnulífs.

Eftir hrun söðlaði Samfylkingin um og talaði í eitt kjörtímabil fyrir þjóðnýtingu náttúruauðlinda eins og vinstriflokkum er tamt.

Fylgi Samfylkingar hrundi frá 2009, þegar flokkurinn fékk tæp 30 prósent fylgi, til 2013 þegar fylgið féll niður í 12,9 prósent. Kjósendur merktu ekki hjá Samfylkingu að þar væri einhver rauður þráður málefna og sjónarmiða sem hægt væri að treysta. Samfylkingin var eitt í dag og eitthvað allt annað á morgun.

Stóra mál Samfylkingar, ESB-umsóknin, átti að breiða yfir þá náttúru flokksins að bera kápuna á báðum öxlum. En jafnvel það klúðraðist í höndum flokksins með því að umsóknin var sett á ís með formlegri ríkisstjórnarsamþykkt veturinn fyrir kosningarnar 2013. ESB-umsóknin var ekki, þegar á reyndi, það prinsippmál sem Samfylkingin skyldi verja fram í rauðan dauðann.

Samfylkingin var í ríkisstjórn samfleytt frá 2007 til 2013. Á þeim tíma var flokkurinn ýmist frjálshyggjusinnaður eða með þjóðnýtingaráform, líkt og róttækir vinstriflokkar í Evrópu fyrir hálfri öld.

Flokkur sem tekur pólitísk heljarstökk á skömmum tíma getur ekki búist við trausti kjósenda. Samfylkingin skilur ekki þau nauðaeinföldu sannindi að nokkur munur er á frjálshyggju og ríkisvæðingu. Ástandið í Samfylkingu er einmitt þetta: valdavíman 2007 til 2013 gerði flokkinn að pólitískum róna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Ekki ætla ég að andmæla skrifum JK um Samfylkinguna Páll. En vertu svo vænn að rifja upp skrif hans vegna framsóknar og sjálfstæðis, þar sem hann lýir þessum flokkum sem algjörum bófaflokkum, sem þeir eru. En þá þegir þú þunnu hljóði.  

Jónas Ómar Snorrason, 2.8.2015 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband