Sæmd á ensku og íslensku

Í leikriti Shakespere, Hinrik fimmti, flytur höfuðpersónan eldmessu skömmu fyrir orustuna við Agincourt þar sem liðsfáir Englendingar sigruðu fjölda Frakka. Sæmd (honour) kemur þar við sögu sem magnmæld gæði. Eftir því sem fleiri eru um sæmdina því minna kemur í hlut hvers og eins. Í þýðingu Helga Hálfdanarsonar

því færri menn, því meiri skerf af sæmd!

Sæmd Hinriks er ágjörn: ,,ef það væri synd að girnast sæmd, væri ég heimsins mesti brotamaður."

Sæmdin í Hinriki fimmta er einstaklingsmiðuð. Hver og einn sækist eftir sæmd sér til handa - til að öðlast virðingu og aðdáun. Sæmdin er óður til hermennsku og mannvíga.

Í Brennu-Njálssögu bregður fyrir annarri gerð sæmdar. Sonur Njáls, Skarphéðinn, drepur Sigmund Lambason vegna níðvísu. Sigmundur er frændi Gunnars á Hlíðarenda og heimilismaður. Gunnar er stórvinur Njáls og hyggst ekki sækja bætur fyrir víg frænda síns, - sem þó var kvöð á þjóðveldistíma. Síðar hittast þeir Njáll og Gunnar út af örðu máli. Eftirfarandi eru orðaskipti þeirra

Njáll mælti þá og tók til Gunnars: "Helsti lengi hefir Sigmundur frændi þinn óbættur verið."
"Fyrir löngu var hann bættur," segir Gunnar, "en þó vil eg eigi drepa hendi við sóma mínum."

Sæmdin í þessu tilviki er hvorki spurning um magn né er hún einstaklingsmiðuð. Sigmundur var skítseyði og ekki þess verðugur að vera bættur. En vegna ættartengsla Gunnars við Sigmund féll blettur á sóma Gunnars að Sigmundur væri óbættur. Njáll seldi Gunnari sjálfdæmi í þágu réttlætis. Sæmd er félagslegt taumhald samfélags án miðstýrðs ríkisvalds. Sæmdin spornaði gegn afbrotum á tíma þjóðveldisins.

Sæmdin getur hvorttveggja þjónað sem hvati til ofbeldis og blóðsúthellinga en einnig því hlutverki að viðhalda samfélagsfriðnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband