Það versta við Evrópusambandið

Það versta við Evrópusambandið er ekki munaðarlífstíllinn sem embættismannaliðið í Brussel temur sér; ekki sameiginlega sjávarútvegsstefnan; ekki fyrirlitningin á lýðræðislegum niðurstöðum kosninga; ekki undirlægjuhátturinn gagnvart stórfyrirtækjum; ekki smámunasemin í reglugerðasetningu; ekki andstyggðin á Bretum og Bandaríkjamönnum.

Nei, það versta við Evrópusambandið er ekkert ofanritað, þótt hvert og eitt atriði sé nógu slæmt, heldur hitt að Evrópusambandið býr til reglur eftir geðþótta og hirðir hvorki um skömm né heiður, skriflega samninga eða venjur. Ef Evrópusambandinu þóknast að breyta lögum og reglum þá er þeim lögum og reglum breytt, - jafnvel þótt ríkir hagsmunir einstakra ríkja séu í húfi.

Á þessa leið er gagnrýni Daniel Hannan, bresks Evrópuþingmanns, sem nokkrum sinnum hefur heimsótt Ísland.

Hannan nefnir tvö skýr dæmi þar sem Evrópusambandið brýtur eigin lög og reglur til að ná fram stefnu sinni. Fyrra dæmið lýtur að mannréttindasáttmála Evrópusambandsins, sem skráður er í Lissabonsáttmálann. Bretar fengu skýra og afdráttarlausa undaþágu frá mannréttindasáttmálanum enda var það forsenda fyrir því að Bretar samþykktu Lissabonsáttmálann, sem er jú stjórnarskrá Evrópusambandsins.

En þrátt fyrir undanþágu Breta lætur Evrópusambandið og stofnanir þess, t.d. Evrópudómstóllinn, eins og mannréttindasáttmálinn gildi í Bretlandi. Á grundvelli sáttmálans sækja flóttamenn sér rétt í Bretlandi sem Bretar eru ekki tilbúnir að veita.

Hitt dæmið sem Hannan nefnir er að Evrópusambandið ákvað að leggja til hliðar þá lagagrein sem leggur blátt bann við að Evrópusambandið bjargi einstökum ríkjum frá gjaldþroti. Lagagreinin var forsenda þess að Þjóðverjar gáfu frá sér þýska markið og tóku upp evru fyrir 15 árum. Þegar evru-kreppan skall á þótti nauðsynlegt að brjóta lagagreinina - og stjórnmálamenn í Evrópu (aðrir en þýskir) hreyktu sér af því.

Þegar svo er komið að yfirþjóðlegt stjórnvald stundar jafn óábyrga stjórnsýslu og Evrópusambandið, og gortar sér af því, verður skiljanlegt að þjóðir utan kjarnaríkjanna á meginlandinu auki fyrirvara sína gagnvart sambandinu.

Evrópusambandið krefst síaukinna valdheimilda á kostnað þjóðríkjanna og beitir þessu valdi á gerræðislegan hátt. Stjórnsýsla af þessu tagi getur ekki endað nema illa. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband