Stjórnarskráin og valdefling vinstriflokkanna

Stjórnarskrá lýðveldisins bar enga ábyrgð á hruninu. Þvert á móti sýndi sig að stjórnarskráin virkaði í þágu þjóðarinnar sem neyðarhemill á gerræði stjórnarmeirihlutans á alþingi þegar til stóð að samþykkja handónýta Icesave-samninga.

Niðurrifsöflin í samfélaginu, með Samfylkingu og VG í fararbroddi, vilja stjórnarskrána feiga af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að stjórnarskráin, og stjórnskipunin sem byggir á henni, hefur haldið vinstriflokkunum frá völdum öll lýðveldisárin. Aldrei í sögu lýðveldisins náðu vinstriflokkarnir meirihluta á alþingi - fyrr en við hrunið þegar þjóðin var í taugaáfalli og studdi VG og Samfylkingu til valda 2009.

Önnur ástæðan fyrir tilraun vinstriflokkanna að grafa undan stjórnskipuninni er taktísk. Þeir einfaldlega veðja á að í upplausnarástandi eins og veturinn 2008/2009 eigi þeir sóknarfæri. Ótti, tortryggni og öfund eru görótta uppskriftin að valdeflingu vinstrimanna. Egill Helgason, sem er hallur undir orðræðu vinstrimanna, birtir reglulega færslur sem eru hráefni í undirróðurinn.

Atlaga vinstriflokkanna að stjórnarskránni er að renna út í sandinn. Stjórnarandstaðan, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, eiga ekki undir neinum kringumstæðum að koma til móts við málleitan ríkisstjórnarinnar um að breyta hluta stjórnarskrárinnar.

Stjórnarskrármálið er annað hvort eða mál, - ekki bæði og. Ef við höfum sannfæringu fyrir því að stjórnarskrá lýðveldisins hafi staðist prófið í hruninu þa´getum við ekki fallist á að það eigi að krukka í hana.

Ef Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur leyfa vinstristjórn Jóhönnu Sig., sem bæði er forystulaus og í minnihluta á alþingi, að hafa forræði um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins er niðurrifsöflunum færð sóknarfæri á silfurfati. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvers vegna voru landsfeðurnir að lofa því 1943-44 að gera nýja, heila stjórnarskrá, ef þeir voru svona ánægðir með þáverandi stjórnarskrá?

Hvers vegna var Bjarni Benediktsson að eyða fé og tíma í að reyna að semja nýja stjórnarskrá og halda um það fyrirlestur á Varðarfundi 1953?

Af hverju var það ekki aðeins einn helsti draumur hans, heldur líka Gunnars Thoroddsens 1983 að ljúka þessu verki?

Og hvað hafði þessi draumur og ætlan þeirra Bjarna og Gunnars með vinstri eða hægri að gera?

Af hverju var það upphaflega samþykkt með 63 atkvæðum gegn engu á þingi að fara af stað í gerð nýrrar stjórnarskrár?

Af hverju áttu Sjálfstæðismenn hugmyndina að þjóðfundinum, sem margir þeirra eiga nú vart orð til að lýsa hneykslun sinni yfir?

Ómar Ragnarsson, 17.2.2013 kl. 22:35

2 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Kannski það hafi verið æðsta ósk landsfeðranna 1944 að hægt væri að gjörbreyta stjórnarskrá lýðveldisins á einum til þremur mánuðum án þess að rjúfa þing svo hægt væri að sæta lægi þegar þjóðin væri í uppnámi eða þegar lýðskrumarar næðu tímabundnum vinsældum.

Markmið 113. gr er einmitt að undirbúa það að hægt sé að sæta lægi til að gera viðamiklar breytingar á stjórnarskrá þegar þjóðin liggur vel við höggi lýðskrumara og landsölufólks.

Feneyjarnefndin gerir einmitt alvarlegar athugasemdir við 113. gr og mælir með, eins í öllum Evrópskum löndum, að það þurfi til aukin meirihluta á alþingi fyrir stjórnarskrárbreytingum. Við eigum að hafa í heiðri hefð Norðurlandanna um að þing sé rofið þegar gera á breytingu á stjórnarskrá enda er það ígildi þjóðaratkvæðis.

Hver sem kvittaði fyrir 113. gr til að koma sínum "áhugamálum" fyrir í stjórnarskránni ætti að skammast sín.

Hin nýja 113. gr er framtíðartæki þeirra sem vilja beita yfirgangi meirihlutavaldsins gegn stjórnarskránni enda sé það eina færa leiðin fyrir þessa hópa til samfélagsbreytinga þar sem ekki fæst breið samstaða fyrir þeirra hugmyndum um t.d. afsal fullveldis. 

Einn af megin tilgangi stjórnarskrá er að vernda borgarana fyrir yfirgangi meirihlutafalds á hverjum tíma. Það er ekki að ástæðulausu að landsfeðurnir settu inn ákvæði um þingrof þegar gera á stjórnarskrárbreytingar. 

Vert er að minnast orða formanna Samfylkingarinnar en í þeim kristallast yfirgangur stjórnmálamanna gagnvart stjórnarskrá og almenningi:

Áttatíu daga stjórnin hyggst breyta stjórnarskrá á þann veg að Ísland getur á næsta kjörtímabili gengið í Evrópusambandið að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Mikilvæg breyting, segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar. Varaformaðurinn segir stjórnina vera að tryggja að Evrópumálin læsist ekki inni á næsta kjörtímabili.

Evrópusambandsaðild er hvergi nefnd í verkefnaskrá 80 daga stjórnarinnar og eina tilvísunin til þessa mikla hitamáls er að Evrópunefnd skuli ljúka störfum við úttekt á viðhorfum hagsmunaaðila til Evrópusambandsins og skila skýrslu 10 dögum fyrir kosningar. Í þeirri skýrslu eigi að vera mat á stöðu og horfum Íslands gagnvart samstarfi við Evrópuþjóðir og framtíðarhorfum í gjaldmiðlamálum.

En þótt lítið fari fyrir því í verkefnaskránni þá mun núverandi ríkisstjórn engu að síður gera mikilvægar breytingar á stjórnarskrá sem leiða til þess að ef þjóð og alþingi kýs, þá getur Ísland sótt um aðild að Evrópusambandinu á næsta kjörtímabili.

Eins og staðan er núna þarf tvö þing með kosningum á milli til að breyta stjórnarskrá. 80 daga stjórnin ætlar hins vegar að breyta því svo að hægt verði að breyta stjórnarskrá með þjóðaratkvæðagreiðslu. Og það þarf stjórnarskrárbreytingu til að ganga í ESB. Það þýðir að ef næsta ríkisstjórn hefur hug á að fara í aðildarviðræður, þá þarf hún ekki að senda sjálfa sig heim og boða til kosninga, heldur getur einfaldlega lagt aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæði.

Ingibjörg telur mikilvægt að sett verði ákvæði í stjórnarskránna fyrir komandi þingkosningar svo þjóðin geti hvenær sem er gert breytingar á stjórnarskránni með þjóðaratkvæðagreiðslu. „Það þýðir að þjóðin getur ákveðið að deila fullveldi sínu með öðrum þjóðum á næsta kjörtímabili ef hún svo kýs án þess að boðað sé til kosninga í millitíðinni."

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingar og annar tveggja formanna Evrópunefndarinnar, segir mikilvægt að breyta stjórnarskránni nú til að læsa Evrópumálin ekki inni næstu fjögur ár.

Eggert Sigurbergsson, 18.2.2013 kl. 06:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband