Bylting, lögmæti og brandari

Samfylking og VG komust til valda í kjölfar hrunsins og búsáhaldabyltingarinnar. Upplausnin í samfélaginu stafaði af efnahagslegu hruni fjölda heimila og ríkissjóðs annars vegar og hins vegar djúpri pólitískri kreppu sem birtist í algeru vantrausti á hefðbundna handhafa opinbers valds, Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk.

Búsáhaldabyltingin felldi ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Sagan kennir að þegar byltingar heppnast, og leiða til valdaskipta, er meginhlutverk nýrra valdhafa að öðlast lögmæti með því að fá sem breiðastan stuðning í samfélaginu. Að sama skapi hættir nýjum valdhöfum til að framlengja byltingarástandið. Bæði er að róttækni er eitt einkenni byltingarstjórnvalda og svo er hitt að þjóðfélagsóreiða, sem leiðir til stjórnarskipta, heldur nær alltaf áfram þótt nýir valdhafar koma til sögunnar.

Aðalverkefni ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur eftir kosningasigur Samfylkingar og VG vorið 2009 var að koma á stöðugleika, að draga úr samfélagshávaða eftirhrunsins. Lykillinn að samfélagslegum stöðugleika var endurreisn efnahagskerfisins með sem minnstum blóðsúthellingum.

Í meginatriðum tókst endurreisn efnahagskerfisins. Þótt deila megi um hversu stóran hlut ríkisstjórn  Jóhönnu átti og hve miklu má þakka neyðarlögum ríkisstjórnar Geirs H. Haarde, dómi Hæstaréttar um gengislán og tvöfaldri Icesave-neitun í þjóðaratkvæðagreiðslu  þá er hitt óumdeilt að endurreisnin gerðist á vakt ríkisstjórnar Samfylkingar og VG. Undir venjulegum kringumstæðum ætti ríkisstjórnin að njóta þess að efnahagsástandið er í lagi og jafnvel gott betur.

Ástæðan fyrir því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur situr uppi með 30 prósent fylgi nokkrum vikum fyrir kosningar (Samfylking 20% og VG innan við 10%) er að stjórn fór langt út fyrir umboðið sem þjóðin gaf henni vorið 2009. Ríkisstjórnin blés eld í glæður byltingar með því að viðhalda þjóðfélagsólgunni í kjölfar hrunsins. Þar með var útilokað að ríkisstjórn vinstriflokkana fengi lögmæti með þjóðinni.

Þrjú stærstu utanvegaakstursmál stjórnar Jóhönnu eru ESB-umsóknin, atlagan að stjórnarskránni og uppstokkun kvótakerfisins. Í þessum málum tók ríkisstjórnin afstöðu með um þriðjungi þjóðarinnar gegn tveim þriðju.

Hvert og eitt þessara mála er nógu stórt til að eyðileggja eins og eina ríkisstjórn. Til samans munu þau bólusetja þjóðina gegn vinstrimeirihluta um langa framtíð.

Vinstriflokkarnir, Samfylkingin fyrst og fremst, sjá það helst til ráða að búa til framboð með brandaraflokki Jóns Gnarr borgarstjóra. Besti flokkurinn var mótmælaframboð í höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins. Mótmælaframboð á landsvísu eftir fjögurra ára vinstristjórn er vitanlega andóf gegn sitjandi ríkisstjórn.

Með brandaraframboðinu undir heitinu Björt framtíð eru vinstrimenn að mótmæla sjálfum sér. Og það er eiginlega dálítið fyndið. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já það er dálítið skondið vegna þess að þetta er alveg augljóst, þar er enginn málefnaágreiningur, aðeins nýtt fólk... eða þannig.  Gæti alveg trúað því að fingraför Össurar væru á þessu framboði, eins og sumir vilja vera láta.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.1.2013 kl. 13:54

2 Smámynd: Elle_

Eitt af stærstu og verstu málum Jóhönnustjórnarinnar gegn þjóðinni var kúgunin ICESAVE.  Páll, þú ættir í alvöru ekki að sleppa þessu ógeðsmáli þegar þú skrifar um nokkur verstu mál þeirra.  Það gleymist of oft og ætti aldrei að gleymast.

Elle_, 5.1.2013 kl. 15:51

3 identicon

Mjög fín greining og rétt.

Hins vekur furðu mína að höfundur skuli halda því fram að tekist hafi að endurreisa efnahagskerfið.

Ég tel öll rök mæla gegn þeirri ályktun.

Rósa (IP-tala skráð) 5.1.2013 kl. 19:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband