Jón Sig., sígildi valdsins og fortapað Evruland

Í þjóðhátíðarræðu forseta Íslands á Hrafnseyri í ár rifjaði hann upp viðhorf Jóns Sigurðssonar til framandi valds. Í Hugvekju til Íslendinga skrifaði Jón um miðja 19du öld

Að vísu kann það samband að geta haldizt um skemmri tíma eða lengri, að Ísland verði undir danskri stjórn, og allt verði lagað þar á landi eptir því, að Dönum verði sem hægast að halda yfirráðum eptir vild sinni. En hvort sem Íslendingar voga að láta á sér bera eða ekki, þá yrði megn kali og óánægja hjá þeim í þeli niðri, þeir hefði ekkert traust á slíkri stjórn, hlýddi henni ekki nema með hángandi hendi og óskaði: að sá dagur mætti koma sem fyrst, að henni mætti af létta; og sá dagur mundi koma, annaðhvort fyrr eða síðar!“

Viðhorf Jóns til framandi valds er sígilt. Þjóð undir oki annarrar lætur sér það ekki vel líka og kemur sér undan stjórnvaldi framandi yfirvalds. 

Með innsæi Jóns í farteskinu er hægt að spá fyrir hvernig fer fyrir Grikklandi og Evrulandi. Í afbragðsgreiningu alþjóðaútgáfu Spiegel kemur fram að sameining Þýskalands árið 1990 er ekki fordæmi fyrir stórfelldum og varanlegum fjárstuðningi Evrópusambandsríkja til Grikklands. Reynslan af sameiningu þýsku ríkjanna er að verulega reyndi á þau bönd sem strengja saman íbúa austur- og vesturhluta Þýskalands.

Á milli Grikkja annars vegar og hins vegar íbúa Austurríkis, Finnlands, Hollands og Þýskalands eru engin þau bönd sem gætu réttlætt niðurgreiðslu á lífskjörum í Grikklandi.

Til að réttlæta varanlegan fjárstuðning ríkja í norðri til þurfalinga í suðri yrði Evrulandið að verða að raunveruleika þar sem fjárgjöfum fylgdi yfirvald, Norður-Evrópa hefði fjármálalegt lénsvald yfir nágrönnum sínum í suðri. 

Grikkir og aðrir þiggjendur myndu ekkert traust bera á slíkri stjórn og ekki hlýða henni ,,nema með hángandi hendi og óskaði: að sá dagur mætti koma sem fyrst, að henni mætti af létta; og sá dagur mundi koma, annaðhvort fyrr eða síðar."

Evruland er andvana fætt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband