Samfó gefst upp á uppboðsleiðinni

Samfylkingin var löngum grjóthörð á uppboðsleiðinni, bæði í prófkjörum og fiskveiðistjórnun. Efstu sæti framboðslista voru boðin upp í prófkjörum og allur kvóti skyldi lúta hörðum markaðslögmálum, fara til þess er hæst byði.

Samfylking höfuðborgarinnar hverfur frá frjálsræðinu í vali á frambjóðendum og hyggst nota innherjaval á þeim er fá sæti á framboðslistum.

Uppgjöfin á markaðslögmáli framboðs og eftirspurnar er vitanlega klædd í spariföt og kölluð ,,sænsk leið" við val á frambjóðendum.

Lengi reyndi Samfylking, Alþýðuflokkur þar á undan, að vera vasaútgáfa af Sjálfstæðisflokknum. Í einkavæðingu var Samfylkingin t.a.m. kaþólskari en páfinn og setja allt á sölu sem hægt væri að selja, hvort heldur íslenskur ríkisborgararéttur eða óveiddur fiskur í sjó.

Viðreisn er aftur orðin traust í sessi sem hallærisútgáfa móðurflokksins og Samfylking verður að leita á ný mið. Hvort fiskist þar verður tíminn að leiða í ljós.


mbl.is Samfylkingin velur sænsku leiðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástandið, siðagildi og sökudólgar

Ástandið, með ákveðnum greini, var haft um siðakreppu Íslendinga fyrir 80 árum þegar flæddu inn í landið útlendir hermenn á giftingaraldri. Ástandið er einnig fyrirsögn í viðtali Kjarnans við Vilhjálm Árnason siðfræðing um Kínaveiruna og farsóttarvarnir.

Hernámið og Kínaveiran eru hvort tveggja innrás í samfélag okkar. Annað vandræðaástand, hrunið, var að stórum hluta heimatilbúinn vandi. Leit að siðagildum var ekki efst á dagskrá eftirhrunsáranna. Sökudólgar voru aftur eltir uppi af réttvísinni og almenningsálitinu.

Kínaveiran er að því leytinu góðkynja að hún krefur okkur svara um ábyrgð, bæði sem einstaklinga og samfélags. Einstaklingurinn ber alla ábyrgð á sjálfum sér en hann er samábyrgur öðrum í samfélagsmálum.

Þegar kurlin eru öll komin til grafar er líklegt að allur meginþorri Íslendinga sé sammála um kjarnagildi samfélagsins. Við viljum búa þannig um hnútana að allir eigi jöfn tækifæri til að gera það úr lífi sínu sem hugurinn stendur til. Í öðru lagi að þeir sem verða fyrir tjóni, t.d. fatlaðir, atvinnulausir og alvarlega veikir, þurfi ekki að lepja dauðann úr skel heldur fái opinbera aðstoð.

Útfærsluna á þessum megingildum ræðum við dag inn og dag út og köllum pólitík. Kínaveiran og varnir gegn henni koma þvert á hefðbundna pólitíska umræðu og riðlar víglínum. Þeir sem í venjulegu árferði eru opingáttarsinnar í samskiptum við útlönd krefjast einangrunar. Sumir andstæðingar náinnar alþjóðsamvinnu verða aftur talsmenn opins samfélags andspænis lokunum.

Einstaklingsfrelsi og samfélagsleg ábyrgð eru, og hljóta að vera, höfuðandstæður í farsóttarvörnum. Ef koma á böndum á farsótt gengur ekki viðkvæðið ,,ég má gera það sem ég vil." Á móti vaknar spurningin hve ríkisvaldið má ganga langt í að skerða einstaklingsfrelsið í nafni almannaheilla.

Á heildina litið hefur okkur tekist furðu vel að feta einstigið í umræðunni um sóttvarnir. Við misstum okkur ekki í öfgar, líkt og í ástandinu í seinna stríði og í uppgjörinu við hrunið.

Í upphafi aðventu á farsóttarári þekkjum við okkur í sporum Benedikts í sögu Gunnars Gunnarssonar. Við erum á lítt kunnum slóðum að leita siðagilda. Benedikt ferðaðist öræfin á höttunum eftir eftirlegukindum. Það er leitin sem skiptir máli.


mbl.is „Alvarlegar blikur á lofti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. nóvember 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband