Fjölmiðlar: skoðanir í stað frétta

Breska útgáfan Telegraph endurhannaði vefsíðuna fyrir nokkrum dögum. Stór hluti af efsta hluta forsíðunnar er núna með rými fyrir skoðanir, þar sem áður voru fréttir. Í Bandaríkjunum ræðir ritstjórn New York Times hvernig megi koma þeirri skoðun að í fréttum að Trump forseti sé rasisti.

Nær allar fréttir fjölmiðla hér heima um orkupakkann eru skoðanir. Fjölmiðlar nenna ekki, með heiðarlegum undantekningum, að sækja efni um orkupakkann á erlendar síður, t.d. heimasíðu ESB, en láta sér nægja að birta skoðanir.

Hér áður var almenna reglan blaðamennsku að fréttir væru staðreyndir sem raðað væri upp í skipulega frásögn. Aðalatriði frétta áttu að koma fram í fyrirsögn og innangi og megintexti skyldi skrifaður eftir fallandi mikilvægi. Skoðanir fyrr á tíð komu fram í leiðurum og umræðugreinum sem var ekki blandað saman við fréttaefni, t.d. á síðum dagblaða. 

Skoðanablaðamennska á hinn bóginn reynir að hanna fréttafrásagnir eftir fyrirframgefinni forskrift þar sem fjölmiðillinn tekur afstöðu til viðfangsefnisins. Þurrar staðreyndir eru aðeins hráefni í raðframleiðslu á skoðanafréttum.

Að hluta til er skoðanablaðamennska vegna samkeppni fjölmiðla við samfélagsmiðla um athygli og auglýsingatekjur. Annar hluti stafar af undirliggjandi menningarlegum og pólitískum hamskiptum þar sem gömul kennileiti, stofnanir, flokkar og stefnumál, víkja fyrir nýjum. Þriðji þátturinn er almenn hnignun blaðamennskunnar, sem einu sinni þótti ekki skítafag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Netmiðlabyltingin hefur fært fjölmiðlun um stundarsakir niður á menntaskólastigið að því er virðist. Ásókn í sífellt æsilegri fyrirsagnir með sífellt rýrara innihaldi hefur ýtt undir þessa þróun. Í skólablöðunum voru greinar eins og "heyrzt hefur"... Það er einsog eftirspurnin eftir þesskonar "fréttum" selji, og hvað eiga viðurkenndir fjölmiðlar að gera þegar þeir eru í samkeppni? 

Ég held að ráðið felist í því að svara af rökvísi eins og maður getur, og gagnrýna eins hátt og hægt er, þegar manni finnst farið með vitleysu hvar sem er.

Ingólfur Sigurðsson, 22.8.2019 kl. 02:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband