Frjálslynda vinstrið - vald og samfélag

Frjálslyndir vinstrimenn töpuðu síðasta áratug. Svo segja vinstriútgáfur í Bandaríkjunum og núna Will Hutton í Guardian. Hutton er einn af höfundum þriðju leiðar Tony Blair sem átti í byrjun aldar að leggja heiminn að fótum frjálslyndra og vinstrimanna.

Í íslensku samhengi eru Samfylking og Viðreisn í heild sinni frjálslyndir vinstriflokkar. Sneiðar af Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum eru undir sama hatti, meira frjálslyndi í XD (brennivín i búðirnar) en vinstrimennska í VG (skattleggjum ríkar ekkjur), eins og gefur að skilja.

Hvað brást frjálslyndum vinstrimönnum síðasta áratug? 

Til að byrja með fór það framhjá þeim að stjórnmál urðu gildishlaðin á kostnað reikningshalds um efnahagslegan ábata. Holdtekjur gildishlaðinna stjórnmála eru Trump, Brexit, AfD í Þýskalandi, Svíþjóðardemókratar og Salvini á Ítalíu, svo dæmi séu tekin. Siðir og gildi trompa alltaf krónur og aura. Í siðleysi verða efnahagsleg verðmæti merkingarlaus.

Ekki svo að skilja að frjálslyndir vinstrimenn séu siðlausir. Fremur er vandinn sá að þeir hugsa smátt. Á meðan þeir veltu fyrir sér hvort kynin væru þrjú, fimm eða sjö óttuðust hægrimenn að vestræn menning (tvíkynja, auðvitað) væri á hverfandi hveli. Frjálslynd orðræða er naflaskoðun unglings á gelgjuskeiði. 

Seinni grundvallarmistök þeirra vinstrifrjálsu er að skilja ekki eðli valds. Í sinni einföldustu mynd er vald tvíþætt (eins og kynin): þeirra fáu sem boða og hinna mörgu sem breyta eftir boðvaldinu. Þarna á milli þarf að vera samfélag. Þeir sem breyta eftir boðvaldinu telja sig hluta af samfélagi. Án valds er ekkert samfélag, aðeins villimennska, eins og Hobbes sagði okkur fyrir hálfu árþúsundi.

Það er engin tilviljun að fyrstir á Austurvöll að mótmæla eru frjálslyndir vinstrimenn. Ekki heldur er það hending að á framboðslistum slíkra flokka er fólk sem í gamla daga var kallað aumingjar en núna skjólstæðingar félagsþjónustunnar. Jaðarfólk er sneytt þeirri hugsun að tilheyra samfélagi.

Frjálslyndir vinstrimenn breiða yfir skilnings- og þekkingarleysi á valdi með því að óska sér yfirvalds langt í burtu. Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar eru vinstrafrjálslyndinu hugstæðar. Hængurinn er sá vald langt í burtu myndar ekki samfélag með þeim sem eiga að hlýða valdinu. Vald langt í burtu verður í besta falli óábyrgt, handahófskennt og tilgangslaust. Englendingar vissu þetta undir Rómverjum, bandarísku nýlendurnar undir Bretum, Frakkar undir einveldinu og Íslendingar undir Dönum. Trúarsöfnuðum er fyrirmundað að skilja þessi einföldustu rök sögu og reynslu. Guðhræddir trúa á almættið en vinstrifrjálsir á loftslagsvá og Grétu spákonu.

Næsti áratugur verður frjálslyndum vinstrimönnum ekki gjöfulli en sá liðni. Stjórnmálahugsun sem ekki skilur vald og samfélag er í raun andófsgelgja, sem eldist ekki af sumu fólki.  

 


Hann var fullur/dópaður

Almenn regla í samfélaginu er að sérhver ber ábyrgð á gerðum sínum. Í fjölskyldum og vinahópum er stundum sagt um einstakling er verður sjálfum sér til minnkunar eða öðrum til vandræða að viðkomandi hafi verið ölvaður eða undir áhrifum annarra efna. Jafnvel að hann hafi átt erfiða æsku, missti vinnuna eða standi í hjónaskilnaði.

Fjölskyldur og vinir vilja fyrirgefa sínum nánustu. Það er falleg og mannleg viðleitni að sjá í gegnum fingur sér við þann sem manni þykir vænt um.

Aftur gengur þessi afstaða ekki í samfélaginu sem heild. Þegar fjölskyldu- og vinatengslum sleppir, og einhver brýtur gegn öðrum, að ekki sé talað um lögbrot, er það ekki lengur neitt elsku mamma.

Menn bera ábyrgð á sjálfum sér.


Bloggfærslur 29. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband