Jónas frá Hriflu, femínismi og pólitík í kennslustofum

Í Samvinnuskóla Jónasar frá Hriflu var kennd saga samvinnuhreyfingarinnar. Í samhengi hlutanna þótti þetta eðlilegt á sínum tíma. Samvinnuskólinn var stofnaður á grunni pólitískrar hreyfingar er sá fyrir sér samfélag byggt á tilteknum hugsjónum.

Félagasamtök eru í fullum rétt að stofna til námskeiða og skóla að breiða út boðskap sinn, það er hluti af lýðræðislegu samfélagi.

Opinberir framhaldsskólar eru á hinn bóginn allt annað mál. Þar geta stjórnmálasamtök eða hugsjónafólk ekki gert kröfu um að tiltekin útgáfa af tilverunni sé kennd sérstaklega.

Kynjafræði er femínismi sem er pólitík. Kynjafræði er pólitískur áróður sem ekkert hefur með sígildan skilning á fræðum og vísindum að gera.   

Grein Davíðs Snæs Jónssonar sem varar við að kynjafræði verði skyldugrein í framhaldsskólum er yfirveguð og málefnaleg. Að hún skuli vera tilefni til brottreksturs úr stjórn Sambands íslenskra framhaldsskólanema gefur til kynna að rétttrúnaður gangi framar virðingu fyrir mannréttindum.

Óþol fyrir frjálsum skoðanaskiptum er einmitt einkenni kynjafræðslu. Þar tröllríða húsum hugtök eins og ,,drengjaorðræða" sem er pólitískur tilbúningur líkt og marxíska hugtakið ,,stéttaóvinir". Í marxisma gildir að hafa óvini sína á hreinu, sama gildir um kynjafræðslu.

Einu sinni voru þau mistök gerð, þó ekki á Íslandi, að marxismi varð skyldufag í skólum. Endurtökum ekki þau mistök með kynjafræðum.

 


mbl.is Formaður SÍF rekinn úr stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðflokkar, Ísland og menningarstríðið

Lýðflokkar eru þeir flokkar kallaðir sem neyta færis þegar hefðbundnir stjórnmálaflokkar missa taktinn við stóra kjósendahópa. Björn Bjarnason greinir uppgang lýðflokka í Svíþjóð og á Íslandi, sem hann kallar raunar uppnámsflokka.

Trump, Pia vinkona okkar Kjærsgaard, AfD í Þýskalandi, Þjóðfylkingin í Frakklandi eru allt dæmi um framgang stjórnmála er kenna má við lýðflokka eða uppnám.

Íslenska útgáfan af lýðflokkum, t.d. Besti flokkurinn og Píratar, er annars eðlis. Velgengni beggja flokka ræðst af einum atburði, fjármálahruninu, en ekki straumhvörfum í pólitískri menningu. Það var reynt að gera fjármálahrunið að samfélagshruni, sbr. kröfu um nýja stjórnarskrá og ESB-aðild, en það mistókst. Innistæða var ekki til fyrir slíku brambolti, eins og kosningarnar 2013 leiddu í ljós þegar vinstriuppnámsflokkar fengu að kenna á vilja þjóðarinnar - urðu fyrir mesta tapi stjórnarflokka í pólitískri sögu Vestur-Evrópu.

Í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu ríkir menningarstríð. Ráðandi pólitísk menning síðustu áratuga, sem kenna má við félagslegt frjálslyndi, á undir högg að sækja gagnvart lýðflokkum sem sækja fylgi til kjósendahópa er urðu útundan; töpuðu fyrri stöðu í samfélaginu. Lýðhyggjan beinist gegn yfirþjóðlegu valdi, frjálsum fólksflutningum og stórfyrirtækjum sem leggja samfélög í rúst í nafni frjálsra viðskipta.

Hér á Íslandi eru engar slíkar aðstæður. Menn verða kjánalegir þegar þeir flytja inn erlent menningarstríð og heimfæra upp á Ísland. Eins og Halldór Jónsson gerir snyrtilega grein fyrir þegar plokkar í sundur eina slíka tilraun

Ástæðan fyrir óverulegum framgangi lýðflokka á Íslandi er að við fórum ekki jafn geyst fram í félagslega frjálslyndinu og nágrannaríki okkar í austri og vestri. 

 


Kappar, dramb og dauði

Í Svínfellingasögu segir frá bræðrunum Sæmundi og Guðmundi. Þeir voru synir goðorðsmanns, ungir að árum í upphafi sögu. Guðmundur var í fóstri hjá Ögmundi Helgasyni stórbónda og klausturhaldara í Síðu á Kirkjubæ, en Ögmundur var kvæntur föðursystir þeirra bræðra.

Sæmundur er sagður ,,ofsamaður mikill og óeirinn." Hann vex úr grasi og vill láta til sín taka. Sæmundur fékk bróður sinn Guðmund í lið með sér að troða illsakir við Ögmund fóstra sem var óáleitinn, auðugur og vinsæll. Bræðurnir náðu dómi á Ögmund á alþingi og hirtu af honum búsmala og heiður.

Ögmundur beið færis til hefnda. Eftir lát eiginkonunnar, föðursystur bræðranna, gerði hann þeim fyrirsát og handsamaði. Ögmundur lét fyrst höggva Sæmund, fáum harmadauði. Þegar kom að Guðmundi, sem var aðeins 18 ára og flestum hugþekkur, sagði unglingurinn: ,,Gott væri enn að lifa og vildi ég grið fóstri." 

Ögmundur brá litum, sagðist ekki þora lífgjöf. Á Guðmundi hvíldi hefndarskylda eftir bróðurinn. Ögmundi var nauðugur kostur að deyða fósturson sinn vildi hann sjálfur halda lífi. Ögmundur missti veraldlegar eigur sínar í eftirmálum og bjó kotbúskap síðustu ævidagana, en endurreistan heiður.  

Í Ódysseifskviðu segir frá örlögum annars manns ofsa og ójafnaðar. Í 11ta þætti heimsækir Ódysseifur Hadesarheim og finnur þar fyrir kappann Akkilles, sá er drap Hektor í umsátrinu um Trójuborg. Í bálför Patróklesar, ástvinar Akkillesar, var tólf tróverskum unglingspiltum fórnað til að heiðra minningu hetjunnar. Ódysseifur spyr Hektorsbana um tilveruna í helheimum. Svar Akkillesar er að hann vildi heldur vera aumasti þræll harðúðugs húsbónda í mannheimum en konungur í dauðaheimi.

Lífið er stutt, dramb bætir það ekki - en styttir oft.

 


Bloggfærslur 25. júlí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband