Færsluflokkur: Dægurmál

Les Kaupþing skriftina á veggnum?

Viðbrögð við vangaveltum um að Kaupþing ætli að afskrifa stórar fjárhæðir skulda eigenda Haga, sem til skamms tíma svörðu nafninu Baugsfeðgar, eru ótvíræð og öll á einn veg. Allsherjarfordæming samfélagins á meintu ráðabruggi ríkisbankans hlýtur að kveikja ljós hjá forráðamönnum þar á bæ.

Hagar reka margvíslega smásöluverslun. Þeir eru margir bæði kunna að eiga og stjórna matvöruverslun og fatabúðum.

Kaupþing á að leysa til sín eignir Haga og selja í smáum einingum. Tapið sem kynni að verða af þeim ráðstöfunum er smáræði í samanburði við þá holskeflu hörmunga sem Kaupþing kallar yfir sig með því að afskrifa skuldir Baugsfeðga og leyfa þeim að halda rekstrinum.

 


mbl.is Tugmilljarða afskriftir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítil áhætta að fella Icesave

Hollendingar og Bretar gátu þvælist fyrir áfangamati Alþjóða gjaldeyrissjóðsins í fáeina mánuði en gáfu að lokum eftir. Íslendingar létu krók koma á móti bragði, tóku sér góðan tíma og settu fyrirvara.

Það er kominn hálfleikur í Icesave-málinu. Við vitum að móðursýkiskast ríkisstjórnarinnar frá í sumar, um að Ísland yrði hornkerling alþjóðasamfélagsins ef við samþykktum ekki, var ástæðulaus taugaveiklunarótti Jóhönnu og Steingríms J.

Við eigum að fella Icesave-frumvarpið og senda nýtt lið út á völlinn í seinni hálfleik.

 


mbl.is Engir fyrirvarar af hálfu AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin pólitísk forysta fyrir endurreisninni

Ríkisbankinn Kaupþing virðist ætla að gefa einum alræmdasta útrásarauðmanninum tugmilljarða afslátt á skuldum og leyfa honum að hafa áfram kverkatak á matvöruversluninni í landinu. Vegna þess að engin pólitísk forysta er fyrir endurreisninni eru bankamenn með siðferðisbresti orðnir ofvirkir og eftirlitslausir reyna þeir að endurbyggja útrásarrekstur með opinberum fjármunum.

Ríkisstjórnin hefur algerlega brugðist þegar kemur að almennri stefnumótun fyrir endurreist atvinnulíf. Ráðherrar virðast uppteknir við smáskammtalækningar hingað og þangað en láta reka á reiðanum þegar kemur að meginmálum.

Tiltrú útlendinga á endurreisninni á Íslandi eykst ekki þegar þeir sjá útrásarauðmenn leika lausum hala og fá peninga frá ríkisbönkum til að efna til að byggja nýja loftkastala.

Ríkisstjórn Jóhönnu þarf að koma sér að verki en hverfa frá að öðrum kosti.


Kaupþing leikur sér að eldinum

Kaupþing er sagt ætla að leyfa útrásarauðmanninum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni að halda ráðandi eignarhlut í Högum og gefa eftir skuldir upp á milljarða króna. Fréttir um þessa fyrirætlan eru enn á getgátustigi. Kaupþing er á hinn bóginn að leika sér að eldinum með því að gæla við slíka lausn.

Það er skilyrðislaus krafa að útrásarauðmenn verði rukkaðir um hverja krónu. Þeir bera höfuðábyrgð á hruninu og forsenda fyrir sátt í samfélaginu er að auðmenn fái ekki afskrifaðar sukkskuldir sínar.


Engin tveggja flokka stjórn án XD

Ríkisstjórn Jóhönnu er afbrigði frá stjórnmálum undanfarinna áratuga þegar sem enginn möguleiki var að mynda tveggja flokka stjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokksins. Hver skoðanakönnunin á fætur annarri staðfestir að afbrigðið verður skammlíft.

Móðurflokkur íslenskra stjórnmála er nógu breiður og djúpur til að taka á sig hrun sem flokkurinn ber pólitíska ábyrgð á, öðrum flokkum fremur.

Staðfestingin á styrk Sjálfstæðisflokksins er Samfylkingunni erfiður biti að kyngja. Bæði er að Samfylkingin hefur metnað til að aðalflokkur íslenskra stjórnmála og svo er hitt að flokknum líður mun verr í stjórnarandstöðu en t.d. Vinstri grænum.

Samfylkingin mun viðra sig upp við Sjálfstæðisflokkinn á næstu vikum og mánuðum til að skapa sér möguleika á stjórnarsamstarfi.


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB og ríkisstjórnin fá útreið

Þjóðin hefur litla trú á ríkisstjórninni og er með óbeit á Evrópusambandinu. Ríkisstjórnin gerði bandalag við ESB-þjóðirnar Bretland og Holland í Icesave-málinu og fórnaði hagsmunum íslenskrar alþýðu.

Skoðanakönnunin staðfestir orðspor ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.


mbl.is 46% telja að stjórnin lifi ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grenjað samkvæmt gjaldskrá

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður grét þegar Baugsfeðgar misstu Glitni og sakaði stjórnvöld um þjófnað. Baugsfeðgar eiga á hættu að missa Haga og enn er Sigurður G. mættur til að ásaka stjórnvöld um vonsku við fróman Jón Ásgeir og frómari Jóhannes.

Rökin fyrir samsæriskenningu Sigurðar G. eru þau að forstjóri Haga hafi í Kastljósviðtali atast í Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra. Sú saga gangi ,,fjöllunum hærra" að ráðherra hafi hringt í bankastjóra og gefið skipun um aðför að Baugsfeðgum.

Baugsliðið kann að hanna atburðarrás af þessu tagi. Fréttablaðið mun í framhaldi búa til frétt um það hvernig hið opinbera níðist á vanmáttugum Baugsfeðgum. Dálkahöfundur með heimilisfestu í Háskóla Íslands hittir ónafngreindan mann í flugvél sem sem segir honum að samsæri gegn feðgunum hafi verið skipulagt í skúmaskotum stjórnarráðsins. Sköllóttur og skögultenntur rithöfundur skrifar um draumfarir sínar og hvernig hann vaknar upp í martraðarkenndu Gylfalandi þar sem illmenni sitja yfir hlut frómra feðga.

Við bíðum spennt. 

 


Samfylkingararmur Sjálfstæðisflokksins

Varkár íhaldssemi og áhættusækið frjálslyndi verða pólar í íslenskum stjórnmálum næstu árin. Í flokkakerfinu verður spurt hvort samfylkingararmur Sjálfstæðisflokksins láti af trú sinni eða gangi til liðs við andleg skyldmenni sín.

Varkár íhaldssemi  höfðar til stærri hluta sjálfstæðismanna, flestra vinstri grænna og þorra framsóknarmanna. Örlítill minnihluti samfylkingarfólks gæti fundið samkennd með þessum hópi. Varkár íhaldssemi byggir á gildum trúmennsku, ábyrgðar og hófstillingar. Samfélagssýnin er fjölskyldumiðuð, efnahagsviðhorfið er að hafa borð fyrir báru og krefst ráðdeildar en hafnar skuldasöfnun. Utanríkisstefnan byggir á fullvalda Íslandi.

Áhættusækið frjálslyndi er nýjungagjarnt, lætur vaða og skeika að sköpuðu. Frjálslyndið er næmt fyrir tískubylgjum og telur sig ýmist til hægri eða vinstri, eftir því hvaðan vindar blása. Samfélagsvitundin er fjölmenningarleg, efnahagssjónarmið eru afslöppuð og skuldsækin. Áhættusækna frjálslyndið vill Ísland í Evrópusambandið.

Samfylkingin nánast heil og óskipt tilheyrir áhættusækna frjálslyndinu. Finnur Ingólfsson og Björn Ingi Hrafnsson væru líklegir framsóknarmenn í sama liði. Samfylkingararmur Sjálfstæðisflokksins gæti einnig átt samleið. Þar má kalla til Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Guðlaug Þór Þórðarson, Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Illuga Gunnarsson.

 

 


Fyrir afskriftir á skuldum Baugsfeðga...

...þarf að

- rétta af halla ríkissjóðs en feðgarnir eiga þar hlut að máli.

- tryggja samkeppni á matvörumarkaði, þar sem feðgarnir ráða einu og öllu.

- knýja feðgana til að borga skattaskuldir sínar.

- fá tilbaka heilbrigða viðskiptahætti en þar eru feðgarnir meinsemd.

-  leggja af Baugsútgáfuna sem er lygamaskína feðganna.

- gera Ísland heiðarlegra en með Baugsfeðga virka í atvinnulífinu er það ekki hægt.


mbl.is Kaupþing eignast móðurfélag Haga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjörnulögmenn skemma mannorð

Venjulegt fólk sem að ósekju er handtekið þarf ekki á þjónustu stjörnulögmanna að halda. Stjörnulögmenn eru fyrir þá sem hafa eitthvað að fela. Þeir sem kaupa almannatengslaþjónustu hjá lögmönnum eru iðulega haldnir ranghugmyndum um að til sé fjölmiðlaréttlæti sem standi ofar öðru réttlæti.

Almannatenglaþjónusta lögmanna staðfestir skemmt mannorð.


mbl.is „Lögreglan neitaði að handtaka konuna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband