Færsluflokkur: Dægurmál

Aumingjavæðing þjóðar

Stefna ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er að aumingjavæða þjóðina. Markmiðið er að gera frjálsa einstaklinga að bónbjargarfólki. Hönnun aumingjavæðingarinnar er í höndum Samfylkingar annars vegar og hins vegar spillta kúlulánaliðsins sem vill fela fávísa græðgishegðun sína með því að gera sjálfbjarga menn að ómögum.

Ríkisstjórnin ætlar því sem næst að þvinga almenning til að breyta gerðum samningum um afborganir af húsnæðislánum og setur skilvísa undir sama hatt og óreiðufólk.

Vitað er að innan við fimmtungur þjóðarinnar átti við fjármálavanda að etja. Þegar frá eru talin viðrini sem eru með allt niðrum sig í góðæri sem hallæri eru kannski um tíundi hluti þjóðarinnar sem þarf sérstök úrræði.

Í stað þess að mæta þörfum tíunda hluta þjóðarinnar um sérstök úrræði  er þjóðin öll aumingjavædd, gerð að vesalingum með einu pennastriki Samfylkingarinnar.

Tilgangurinn er að koma kúlulánaliðinu í skjól almennings. Eins og kom í ljós við meðferð  Alþingis á þessu samfylkingarfrumvarpi var reynt að smygla inn í það sérákvæðum um skattameðferð á afskrifum kúlulánaliðsins. Ráðherra Vinstri grænna stöðvaði þann anga ófagnaðarins en hefði auðvitað átt að bremsa allt frumvarpið.

Afgangar útrásarinnar sitja enn að völdum.


mbl.is Allir fá greiðslujöfnun nema þeir biðji um annað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðasnauð lagatækni Hæstaréttar

Kröfur um strangari lög verða háværar eftir þennan dóm Hæstaréttar. Dómurinn virðist í saminn í anda útrásarsiðferðis sem teygði og togaði lög, reglur og venjur til að þjóna siðasnauðri lagatækni.

Hnefarétturinn verður ekki fegraður með húðflúri lagatækninnar. Dómurinn segir að stjórnir megi snuða hluthafa hlutafélaga með því að hygla ráðandi hluthöfum.

Viðskiptasiðferði er bágt á Íslandi og Hæstiréttur er smitaður.  

 


mbl.is Skelfileg skilaboð frá Hæstarétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-áróður undir dulnefni

Eiríkur Bergmann Einarsson er hvað ötulastur áróðursmanna fyrir Evrópusambandsaðild Íslendinga og  tvöfaldur í roðinu samkvæmt bloggaranum Hauki Nikulássyni sem afhjúpaði að Eiríkur Bergmann skrifar undir dulnefninu Jón Gunnar Sigvaldason.

Aðildarsinnar hafa löngum ýkt rökin fyrir inngöngu Íslands í ESB. Þegar þeir skálda líka upp nöfn til að fjölga í hópi aðildarsinna er fokið í flest skjól.


Endurreisnin alltaf handan við hornið

Vextir áttu að lækka þegar Davíð fór úr Seðlabankanum, gengið átti að styrkjast með umsókninni um aðild að Evrópusambandinu. Stöðugleikasáttmálinn og Icesave-samningar, báðir, áttu að auka tiltrú á íslenska hagkerfinu og stuðla að lægri vöxtum og hærra gengi krónunnar.

Núna er það efnahagsáætlunin sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur blessað og aukið lánsflæði til landsins sem eiga að redda málum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Ætli spunaliðið í ríkisstjórninni trúi eigin blekkingum? 


Vextir þurfa að hækka - alls ekki lækka

Þótt stýrivextir séu 12 prósent fær fólk aðeins 5-7 prósent vexti á innlánsreikninga sína. Verðbólga er tíu prósent og sparifjáreigendur eru þar með að borga með sér til bankanna. Ef ríkisbankar treysta sér ekki að borga vexti hærri en verðbólga verður að hækka stýrivexti.

Hluti atvinnulífsins er enn á útrásardampi og hærri vextir eru nauðsynlegir til að kæla kerfið.

 


Evrópskar bankareglur óviðunandi

Á ráðstefnu í Dublin var rætt um evrópskt regluverk fyrir banka. Stefan Ingves seðlabankastjóri Svía taldi einsýnt að endurskoða þyrfti regluverkið, sérstaklega með tilliti til fjölþjóðlegrar bankastarfsemi. Áður hafa komið fram sambærileg sjónarmið í Economist og víðar.

Ísland ætti að doka við með uppgjör á Icesave-reikningum Landsbankans. Þegar samstaða næst um nýtt regluverk er komin viðurkenning á göllum regluverksins sem leyfði íslenskum einkabanka að ryksuga upp sparifé í útlöndum. Ábyrgðin á ekki að lenda öll á Íslendingum.

Hérer umfjöllun Irish Times.


Samræmið vantar í Steingrím J.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra viðurkennir að réttarósvissa er um ESB-regluverkið sem leyfði Icesave-reikninga Landsbankans. Ef aðeins að Steingrímur J. hagaði sér í samræmi við þessa vitneskju sína og annað tveggja léti reyna á óvissuna fyrir dómstólum eða fengi því framgengt að Hollendingar og Bretar og e.t.v. ESB tækju sinn hluta ábyrgðarinnar á óvissunni.

Samkvæmt Icesave-málinu eins og það stendur í dag bera Íslendingar alla ábyrgð á götóttu regluverki Evrópusambandsins.

Raunalegast er þó að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er löngu búin að gefast upp fyrir óbilgirni Breta og Hollendinga. Í stað þess að standa í lappirnar gagnvart andskotum okkar þjösnast stjórnin á löndum sínum. Helvíti hart að horfa upp á.


mbl.is Mikil réttaróvissa í evrópsku regluverki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert malt í Samfylkingunni

Maltverskur stjórnmálamaður var fluttur inn á vegum aðildarsinna. Hann vitnaði í báðum rásum ríkisfrétta og sagði að fyrsta forsenda fyrir vel heppnaðri inngöngu í Evrópusambandið væri að skilgreina samningsmarkmiðin. Í öðru lagi að fá þjóðina með í leiðangurinn.

Samfylkingin hefur ekki skilgreint samningsmarkmið Íslands og þjóðin er ekki með í leiðangrinum til Brussel.

Samkvæmt sjónvarpsfréttum voru helstu áheyrendur maltverska stjórnmálamannsins fyrrverandi, núverandi eða verðandi kontóristar í Brussel.

 


Trúarfrekja

Trúarfrekja er það þegar útlendingar krefjast sérstakrar tillitssemi vegna þess að þeir vilja ekki haga sér í samræmi við venjur og siði búsetulands. Trúarfrekja getur birst í glæpsamlegri háttsemi, t.d. umskurði ungra stúlkna eða þvinguðum hjónaböndum.

Í Sjónvarpsfréttum í kvöld kemur talsmaður múslíma og fer fram á séraðstöðu við Háskóla Íslands til að iðka trú sína. Einhver staðkunnugur ætti að benda manninum á að þótt kirkjur séu á Íslandi eru þær ekki byggðar fyrir tilbeiðslu heldur athafnir. Íslendingar, sem á annað borð stunda bænahald, biðja í þögn þar sem þeir hverju sinni og þurfa ekkert sérstakt rými til þess. Múslímar ættu að taka upp háttu heimamanna.

Ef gefið er eftir trúarfrekju einu sinni kemur óðara næsta krafa í nafni trúarinnar og verður ekki stundlegur friður fyrir hverskyns firrum.


Glæpur, refsing og afskrift skulda

Refsidómur í sakamáli leiðréttir ekki glæpinn. Dómurinn er afleiðing afbrotsins sem sá dæmdi þarf að bera. Ökumaður sem tekinn er fyrir of hraðan akstur er sektaður. Ef ekki væri sekt yrði hraðakstur algengari.

Viðurlög við brotum á viðurkenndri háttsemi þjóna þeim tvíþætta tilgangi að siðbæta einstaklinga með því að þeir finni fyrir afleiðingum gjörða sinna og í annan stað að fæla fólk frá því að brjóta af sér.

Gjaldþrot er viðurkennd niðurstaða á búi sem ekki stendur í skilum. Nýsamþykkt lög um greiðsluaðlögun virðast opna fyrir þann möguleika að fólk gangi frá skuldum sínum án verulegra eftirmála.

Með rökum sem Pétur Blöndal notar er þetta skynsamlegt, vegna þess að skuldirnar eru hvort eð er tapaðar.

Hagfræði á ekki við í þessari umræðu. Spurningin er um réttlæti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband