Færsluflokkur: Dægurmál

Hlandskálin, Ármann, Rod Stewart og H. Grant

Hrunverjinn Ármann Þorvaldsson er orðinn að erkitýpu útrásarbjálfanna sem héldu að þeir gætu gengið á vatni. Lykilmálsgrein í umfjöllun Guardian er eftirfarandi

"Part of my reason for writing the book is to explain how it really happened," he says. "These were businesses that were built from almost nothing over a 15-year period. They were the result of a lot of hard work by talented people. The average man or woman on the street now thinks every banker is stupid, dishonest and overpaid, a risk junkie who should go to jail for the colossal vandalism we've caused. Being perceived like that doesn't feel great."  

Trúr séríslenska útrásarsbjálfahættinum heldur Ármann að hann geti útskýrt hvað raunverulega gerðist fáeinum mánuðum eftir hrun. En vitanlega getur hann það ekki og jarmar þess vegna um að alþjóðleg kreppa hafi valdið íslenska hruninu.

Til að ná athygli fólks segir Ármann frægðarsögur af sjálfum sér og félögum. Ármann meig í hlandskál með Rod Stewart á aðra hönd og Hugh Grant á hina. Maður sem mígur með frægðarfólki hlýtur að hafa eitthvað á milli eyrnanna. Ekki satt?


mbl.is „Líkist síðustu dögum Rómaveldis"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsveldi og bílarisar

Obama hringdi í Merkel í Þýskalandi og sagðist ætla að samhæfa bandaríska hagsmuni við þýska í Opel-deilunni. Í austri gnístir Pútín tönnum og finnst Bandaríkin hafa gefið Rússum fingurinn. Gamall spunakarl Blairs, Mendelson núverandi viðskiptaráðherra Bretlands, er fremur jákvæður enda engilsaxnesk samvinna Bretum hugþekk.

Bílarisinn GM, sem bandaríska ríkið á að stórum hluta, ætlaði að selja Vauxhall-verksmiðjurnar sínar í Bretlandi og Opel-fabrikkurnar í Þýskalandi en hætti skyndilega við.

Hér er áhugaverð umfjöllun um deiluna sem stefnir Atlantshafsviðskiptum í voða.


Samfylkingin skuldar afsökunarbeiðni

Samfylkingin skuldar þjóðinni afsökunarbeiðni. Vegna ESB-fíflagangs Samfylkingarinnar fara 1,5 milljarður króna í umsóknarvinnu í félagsskap sem þjóðin hefur engan áhuga á. Íslendingar munu ekki í nálægri framtíð samþykkja aðild að Evrópusambandinu.

Aldrei var raunhæfur möguleiki á að þjóðinni snerist hugur enda byggir afstaða þjóðarinnar á langri reynslu fullveldisafsals og afleiðingum þess. Fullvalda þjóð getur tekið ágjöf og hrist af sér óreiðumenn. Þjóð án fullveldis er varanlega á hnjánum.

Ef flokkurinn dregur umsóknina strax tilbaka og biður okkur afsökunar er kannski von til að ESB-sneypa Samfylkingarinnar verði flokknum ekki að fjörtjóni.


mbl.is 29% vilja ganga í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir okra?

,,Vísbendingar eru einnig um að gengislækkunin hafi að einhverju leyti smitast út í verðlag heimavöru sem ætti ekki að verða fyrir beinum gengisáhrifum," að því er segir í Peningamálum.

Á hversdagsmáli þýðir þetta að einhver fyrirtæki hafi hækkað verð á innlendri vöru í skjóli gengislækkunar.

Hverjir gætu það verið?


mbl.is Minna dregið úr einkaneyslu en búist var við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttindi glæpamanna

Þegar réttindi glæpamanna til að ákveða hvar þeir afplána eru orðin slík að við sitjum uppi með útlenda afbrotamenn í stórum stíl er kominn tími til að bregðast við.

Sagði Ragna ástæðu til að huga að því að gera betur í þessum málum en slíkt ferli tæki tíma, sérstaklega þegar fangar væru mótfallnir því að vera sendir til afplánunar í sínu heimalandi. 

Það tekur engu tali að búa við þessar aðstæður. Við eigum snarlega að segja okkur frá Schengen-samningnum um frjálsan innflutning glæpamanna og hefja hér vegabréfaskoðun.


mbl.is Tímabundið vegabréfaeftirlit?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarkall frá Bessastöðum

Tilkynningin á forseti.is lætur lítið yfir sér en segir stóra sögu misráðinna embættisverka og örvæntingar manns sem horfir á eftir orðspori sínu oní skolpið. Í allri sinni dýrð er textinn svohljóðandi (og takk til amx.is að vekja athygli á færslunni)

29. október 2009
Samræða
Forseti ræðir við Gunnar Smára Egilsson og Helga Hermannsson um skipulag á þjóðfélagslegri samræðu og aðferðir sem hægt er að beita til að virkja sem flesta til þátttöku.

Hér þarf smávegis upprifjun. Gunnar Smári var á síðustu öld ritstjóri nokkurra vikurita sem fóru á hausinn; Eintak, Pressan og Helgarpósturinn. Eftir eitt útgáfuævintýrið skrifaði hann pistla í Alþýðublaðið sem síðar voru gefnir út á bók og voru nær samfellt níð um nýkjörinn forseta, Ólaf Ragnar Grímsson. Laust eftir aldamót fengu DV-feðgar, Sveinn R. Eyjólfsson og Eyjólfur, Gunnar Smára og Einar Karl Haraldsson (já, einn besti vinur forseta og núverandi starfamaður á skrifstofu forsætisráðherra) til að ritstýra fríútgáfu Fréttablaðsins. Eins og fyrri útgáfur Gunnars Smára fór þessi á hausinn.

Jón Ásgeir Jóhannesson, kenndur við Baug, sá tækifæri til að verða fjölmiðlakóngur og keypti þrotabúið undir dulnefni, Gunnar Smári flaut með. Þeir Gunnar Smári og Jón Ásgeir bjuggu til forsíðufréttina 1. mars 2003 um að Davíð Oddsson forsætisráðherra stæði á bakvið rannsókn lögreglu á Baugi. Fréttin var skáldskapur og jafnframt eldskírn Baugsmiðla sem reglulega sneiddu framhjá sannleikanum til að hella yfir þjóðina lygi, Baugi og útrásinni til framdráttar.


Þegar Ólafur Ragnar Grímsson undirbjó fordæmalaust ofbeldi forsetaembættisins gagnvart þjóðþinginu lét hann þau boð út ganga að öllum meðölum skyldi beitt til að koma höggi á Davíð Oddsson. Gunnar Smári, fyrrum gagnrýnandi Ólafs Ragnars, varð málpípa hans í fjölmiðlum enda var hann í þjónustu Baugs. Gunnar Smári sá um að réttlæta ofbeldisverkið sumarið 2004 þegar forseti Íslands í fyrsta og eina sinn í lýðveldissögunni neitaði að skrifa undir lög frá Alþingi, fjölmiðlalögin sem áttu að koma böndum á yfirþyrmandi dagskrárvald Baugsfjölmiðla.

Þökk sé forsetanum sigraði ósvífnasti útrásarauðmaðurinn ríkisvaldið. Eftir slaginn um fjölmiðlalögin hafði ríkisvaldið hvorki þrek né þor að standa upp í hárinu á útrásarauðmönnum.

Margt má segja um Ólaf Ragnar Grímsson en vitlaus er hann ekki. Hann finnur fyrir andstyggð þjóðarinnar á sér og fjölmiðlar sem áður voru honum hundtryggir, Baugsmiðlar, er komnir að fótum fram. Með því að leggja upp fund með Gunnari Smára og félaga um ,,skipulag á þjóðfélagslegri samræðu," takið eftir orwellískunni, sendir útrásarforsetinn frá sér neyðarkall.

Morgunblaðinu stýrir núna Davíð Oddsson. Morgunblaðið og Skjár einn eru í samstarfi sem gæti leitt til þess að ný fjölmiðlasamsteypa myndi ná tangarhaldi á markaðnum. Lögin sem Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir áttu einmitt að koma í veg fyrir drottnun fárra á fjölmiðlamarkaði.

Sök bítur sekan, Ólafur Ragnar Grímsson.


Kunningjaþjóðfélagið og útrásin

Kunningjaþjóðfélagið var til fyrir daga útrásar og hruns. Víst er að smæð þjóðfélagsins er hluti af skýringunni á fjármálaóförum síðustu missera, svona eins og súrefni er partur af eldsvoða, en það er ekki skýringin með ákveðnum greini.

Hrunið og aðdragandi þess er fjölþátta. Þeir sem ætla að kenna smæð íslensks þjóðfélags um hörmungarnar verða að benda á stærri þjóðfélög þar sem spilling þrífst ekki og engin saga er af efnahagskreppum og óáran.

Og það er einfaldlega ekki hægt.


mbl.is Hafa hreðjatök á bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölræði í stað hlussuveldis

Fjölræði þarf að koma í stað hlussuveldis útrásartímans þegar Baugshlussan, Bakkavararhlussan og systir hennar Kaupþingshlussan sátu yfir hlut almennings ásamt Björgólfshlussunni.

Til að fjölræði skjóti rótum þarf að virkja ríkisbankana til að brjóta upp afganginn af hlussuveldunum, t.d. Haga, 365-miðlar og Exista.

Stjórnvöld þurfa líka að leggja línur. Jóhanna og Steingrímur J. eru furðu fámál um hvernig atvinnulíf þau vilja sjá þrífast hér. Hvers vegna er ekki rætt um að starfsmenn fyrirtækja fái aðstoð að taka þau yfir?

 


Siðferði trompar viðskipti

Stjórn Kaupþings er á villigötum þegar hún segir að viðskiptasjónarmið eigi að ráða þegar tekið er á skuldavanda fyrirtækja. Áður en kemur að viðskiptum þarf að spyrja hvort viðkomandi eigendur hafi hreint siðferðisvottorð. Ef eigendur eru úr hópi þeirra manna sem tilheyra útrásargenginu eiga þeir ekki að fá eina einustu krónu afskrifaða.

Kaupþing kemst ekki upp með það að skýla sér á bakvið viðskiptasjónarmið þegar um er að ræða uppgjör við útrásarauðmenn. Skilyrðislaus krafa er að hátimbruðu útrásarfyrirtækin séu brotin upp og seld í einingum, þar sem því er við komið, en annars fari þau í gjaldþrot.

Það voru siðlaus viðskiptasjónarmið sem leiddu hrunið yfir okkur.


mbl.is Afskriftir kalla á útboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Embættismaður gerir bjölluat í Brussel

Samfylkingin er á undanhaldi með vanhugsuðu umsóknina um aðild að Evrópusambandinu. Össur utanríkis heyktist á því að setja stjórnmálamann í forystu fyrir samninganefndinni. Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn með aðild á stefnuskrá sinni og rökrétt að embættismaður geri bjölluatið í Brussel; embættismenn í utanríkisráðuneytinu er hægt að senda hvert á land sem er og atvinnudiplómatar vinna sín störf, jafnvel þótt vitað sé fyrirfram að þeir fari erindisleysu.

Þjóðin vill ekki framselja fullveldið til Brussel. Samfylkingin reyndi að selja þá hugmynd að við ættum að sjá hvað væri í boði, hvað Evrópusambandið myndi bjóða okkar. Búðarlokuhugsunarháttur af þessu tagi er hluti af útrásarbjánahætti sem verður órjúfanlega tengdur við árið 2007.

Haldi Samfylkingin umsókninni til streitu verður Ísland sakað um bjölluat í Brussel. Evrópusambandið mun ekki kunna Íslendingum neinar þakkir fyrir að senda inn aðildarumsókn þegar ekki fylgir hugur máli.

Samfylkingin eyðileggur það litla sem eftir er af orðspori Íslands.


mbl.is Stefán verður aðalsamningamaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband